Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Endurheimtu styrkinn þinn

 

Þegar við förum að sætta okkur við og þykja vænt um okkur sjálf fyrir það sem við höfum farið í gegnum í lífinu þá endurheimtum við styrkinn okkar.

Það getur líka átt við minningar úr öðrum jarðvistum, sem við gætum hafa upplifað í gegnum drauma, hugleiðslur eða fyrri lífa dáleiðslu. Með því að ná í þessi brot af okkur sjálfum og þykja vænt um þau sem við vorum, þá endurheimtum við styrkinn sem í okkur býr.

Með því að horfast í augu við og upplifa erfiðar minningar er hægt að breyta viðhorfi.

Atburðir sem hafa í mörgum tilfellum valdið sársauka og skömmustu tilfinningu vegna þess að þeir voru til að niðurlægja. Þessar minningar halda okkur niðri orkulega og valda því að við bregðumst oft við á sama hátt og við gerðum þegar atburðurinn átti sér stað þó að mörg ár séu liðin. Þannig erum við að framkalla gamlar minningar aftur og aftur og þær valda alltaf sama sársaukanum og vanlíðaninni.

Það er margt í lífinu sem getur rifið upp erfiðar minningar og sársaukafulla fortíð og við upplifum okkur um leið sem þolendur og fórnarlömb. Þannig verður það þangað til við förum að sjá atburðina út frá öðru sjónarhorni og við náum að breyta viðhorfinu yfir í að reynslan hafi þrátt fyrir allt gefið ákveðin þroska og umburðarlyndi gagnvart öðrum.

Þegar við metum reynsluna út frá æðra sjónarhorni og sjáum okkur sjálf sem sterka einstaklinga að hafa getið farið í gegnum djúpa niðurlægingu og sársaukafulla reynslu þá sjáum við hvernig sálin nær sér í reynslu og þroska í jarðlífinu.

Það að horfa á sjálfan sig og hughreysta með orðum er gefandi og nærandi. Umvefja og umfaðma okkur sjálf og elska er svo mikilvægt til að heila svona djúpan sársauka og skömmina sem því fylgir. Við getum alltaf elskað okkur sjálf sama hvað við höfum gert eða hvað aðrir hafa gert okkur. Að taka sjálfan sig í sátt og finna sig vera meðtekin án þess að dæma, eða verða reið.

Þessi samtöl getum við endurtekið eins oft og við viljum eða þar til tilfinning fyrir vanmætti, skömm, höfnun, sársauka, reiði, sektarkennd eða öðrum tilfinningum er alveg horfin. Þessa aðferð er líka hægt að nota á aðstæður þar sem við finnum fyrir skömm, sektarkenndar, vanmætti eða öðrum tilfinningum yfir því sem við höfum sjálf gert öðrum. Þannig er smám saman hægt að sættast við allt sem hefur mótað okkur og kennt í lífinu og þannig náum við að safna orkubrotunum okkar saman.

Þegar hugurinn heldur áfram að draga upp neikvæðar minningar þá erum við um leið að draga vitundina frá okkur sjálfum að gerandanum og þar með að yfirgefa okkur sjálf orkulega. Á sama hátt er það ef við höfum sjálf gert öðrum eitthvað og skömmin og sektarkenndin er til staðar þá drögum við orkuna frá okkur sjálfum að þolandanum. Þannig að það er mikilvægt að heila erfiðar sársaukafullar atburði hvoru megin sem við höfum verið við borðið.

Þegar náðst hefur að leiða hugann einungis að jákvæðri minningu tengdan atburðinum s.s. að barninu, unglingnum eða fullorðna einstaklingnum líði vel og sé brosandi með ljós engla í kringum sig þá erum við um leið búin að draga orkuna að okkur sjálfum á jákvæðan hátt.

Við getum fundið það strax hvernig þessi vinna hefur áhrif með því að fara aftur inn í sömu minninguna svolítið seinna og finna þá hvernig tilfinningin tengd atburðinum hefur breyst.

Að elska það sem er, er leiðin okkar inn í styrkinn.

 


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband