Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Horfumst í augu við okkur sjálf

 

Það er oftast þannig að við viljum ekki finna fyrir því þegar okkur líður illa tilfinningalega. Við reynum að fara út úr þessu ástandi sem allra fyrst með einhverjum ráðum og gerum nánast hvað eina til þess.

Algengasta leiðin sem við notum hér á landi er sennilega sú að fara að kaupa eitthvað, það þarf ekki að vera neitt sem vantar. Kaupin snúast um að minnka vanlíðunar tilfinninguna og fá vellíðunar tilfinningu í staðinn, að minnsta kosti rétt á meðan verið er að kaupa.

Það eru auðvitað margar leiðir sem við notum og ein er sú að borða þó að við séum ekki svöng. Þegar við erum að kæfa vanlíðunar tilfinningu með mat, þá sækjum við oft bæði í að borða óhóflega og að borða eitthvað sem er óhollt. Það er eins og við séum jafnvel að refsa okkur í leiðinni.

Margir þekkja það líka hversu vel það deyfir tilfinningar að drekka áfengi, um leið og áfengið er farið að virka þá virðast tilfinningar sem eru upp á yfirborðinu hverfa og í staðinn koma vellíðunar tilfinningar, að minnsta kosti tímabundið.

Það er líka til fólk sem forðast tilfinningar með því að kaffæra sig í vinnu eða með því að æfa af miklu kappi. Ég ætla svo sem ekki að telja upp allt sem við notum sem flóttaleiðir, en ofantalið er að minnsta kosti partur af þeim leiðum sem við notum.

Það að horfast í augu við okkur sjálf er frekar einfalt, við leyfum tilfinningum að koma upp þar sem við erum stödd hverju sinni, dveljum algjörlega í okkur sjálfum og finnum hvernig þær fjara út. Oft er það nefnilega þannig að tilfinning kemur upp aftur og aftur vegna þess að við erum á harða hlaupum á undan henni til þess að forðast hana og þar með heldur hún áfram að elta okkur. Þetta er nokkurn vegin eins og við værum á hlaupum undan einhverju sem við óttumst, en um leið og við myndum staldra við og gá hvað væri að elta okkur þá sæjum við kannski að það væri bara lítill sætur hundur sem þyrfti athygli og þegar hann fengi athyglina þá hætti hann að elta okkur.

Allir sem hafa tilfinningalíkama komast ekki hjá því að finna stundum fyrir erfiðum tilfinningum. Stundum poppa þær bara upp allt í einu upp t.d. vegna þess að plánetu afstaðan hryndir þeim af stað. Það er vitað að fullt tungl hefur áhrif á fólk og það eru miklu meiri tilfinningar upp á yfirborðinu á fullu tungli og fyrir fullt tungl heldur en á öðrum tímum. Þá hafa ótal aðrar pláentur líka áhrif á tilfinningar og líf fólks heldur en bara tunglið.

Önnur leið sem hjálpar okkur að leysa erfiðar tilfinningar úr læðingi eru samskipti við fólk. Bæði getur það verið þeir sem eru okkur nánir og eins þeir sem við hittum á leið okkar í lífinu. Allir sem koma inn í líf okkar eru speglar og draga upp það sem við viljum kannski ekki sjá í tilfinninga skalanum okkar.

Það getur verið að við búum yfir bældri reiði og þá getur verið gott að umgangast einhvern sem fær okkur til þess að reiðast því þannig losum við reiðina út. Við losum hana ekki út með því að halda henni niðri. Ef við höldum í reiði þá erum við halda mjög erfiðum tilfinningum inni og því getum við verið þakklát þeim sem gera okkur reið vegna þess að þeir eru að hjálpa okkur að losa reiðina út. Viðhorfin til reiði hafa oft verið neikvæð og því hefur verið talið að það væri best að hemja reiðina en allir þurfa að losa út reiði með einhverjum hætti. Sumir fara og öskra út við strönd eða upp á fjalli, á meðan aðrir fá sér barefli, kaðal eða annað til þess að berja í jörðina, eða í gólfið við góða tónlist sem hjálpar við losunina.

Grátur er góð leið til þess að losa út tilfinningar, en stundum erum við í þannig aðstæðum að við getum ekki grátið og það getur verið erfitt að vera með ekkann í hálsinum. Þá koma aðrir aðilar til sögunnar sem segja eitthvað við okkur, eða gera eitthvað sem hjálpar okkur að losa um höftin sem halda aftur af grátinum. Stundum lítum við á það sem neikvætt, en ef við náum að hugsa það á þann hátt að við höfum virkilega þurft eitthvað sem hjálpaði okkur að losa sársauka hömlur þá verður það jákvætt. Ekki eða þyngsli yfir hjartastað og á hálssvæði eru bældar tilfinningar sem urðu einhvern tíman til og á þeim tíma fannst okkur sem við þyrftum að bæla þær niður og að við gætum ekki sleppt okkur og grátið. Löngu seinna kemur kannski einhver inn í líf okkar til þess að hjálpa okkur með það með því að fá okkur til að gráta. Það lítur kannski út fyrir að það sé óvænt og úr tengslum við það sem er, en tilfinningar vilja út og við hjálpumst að við að leysa þær úr læðingi. Sá sem hreyfir við þeim innra með okkur er þá bara að hjálpa okkur með að losa þær út og ekkert annað.

Þetta er ekkert hættulegt og það er um að gera að vera þakklát fyrir að fá tækifæri á því akkúrat núna. Ef við höldum áfram að streitast á móti, forðumst þá sem spegla fyrir okkur og flýjum tilfinningar sem koma upp á yfirborðið þá halda þær áfram að birtast. Það er ekki þar með sagt að við eigum að láta koma illa fram við okkur, heldur er þetta um að leyfa okkur að taka athyglina af öðrum ef viðbrögðin eru okkar og setja athyglina á okkur sjálf og spyrja okkur sjálf, "af hverju líður mér svona?"

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband