Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Skortur eða auðlegðVið komumst varla hjá því að verða vör við að það sé verið að reyna að fá okkur til þess að trúa því að okkur skorti eitthvað. Auglýsingar dynja á okkur úr öllum áttum og valda því að okkur finnst við þurfa að kaupa eitthvað, fara eitthvað, gera eitthvað.

Það er kannski ekki svo auðvelt að leiða auglýsingaflóðið framhjá sér sem dynur á öllum stundum. Auglýsingaveröldin læðir því inn hjá okkur að við þurfum að kaupa og það helst strax því annars munum við missa af einhverju. Ein auglýsingin segir okkur kannski að við þurfum nýjan síma af því að það sé hægt að gera miklu meira í honum en gamla símanum og við trúum því jafnvel á endanum. Við trúum líka að við þurfum nýtt og stærra sjónvarp, nýja uppþvottavél, nýtt sófasett, nýjan bíl og þannig mætti lengi telja. Auðvitað getum við ekki keypt allt en einhvern vegin fáum við tilfinningu fyrir því að okkur skorti það sem er verið að auglýsa og ef við erum ekki með í því þá séum við minni en aðrir. Við förum að bera okkur saman við aðra og vanmáttakenndin skýtur upp kollinum vegna þess að okkur finnst eins og allir hinir séu að kaupa það nýjasta, flottasta og besta. Skortstilfinningin gerir vart við sig, en í flestum tilfellum er hún aðeins huglæg, eða ákveðið viðhorf sem er búið að innræta okkur. Það er búið að forrita hugan með því að okkur skorti eitt og annað og tilfinning fyrir því fylgir að okkur VANTI og við upplifum einhvers konar hungur innra með okkur.

Við getum átt ísskáp og frystikistu fulla af mat og öll þau þægindi sem við þurfum á að halda til þess að elda og borða þann mat en samt getum við upplifað matarskort og hungur hið innra. Hugurinn og tilfinningin segir allt annað en það sem raunverulega er. Stundum getur ástæðan fyrir þessari hungur tilfinningu komið úr orku fyrri lífa, eða fyrra lífs þar sem við höfum liðið raunverulegan skort. Þar sem við höfum ekki átt mat, eða haft tækifæri til að afla matar. Þessi tilfinning getur orðið mjög sterk þannig að við verðum nánast blind á það sem við höfum fyrir framan okkur.

Við getum upplifað hungur þó að við séum ekki svöng, við getum upplifað að okkur vanti einhverskonar veraldlegar eignir, þó að við eigum allt til alls. Við getum upplifað að engin elski okkur þó allt í kring sé fullt af fólki sem elskar okkur. Okkur getur jafnvel fundist sem við eigum ekkert gott skilið og þessi tilfinning verður svo sterk að við trúum að þannig sé það, þó að upprunlega tilfinningin sé komin vegna gamalla minninga úr fyrri lífum.  

Þegar þessari fyrri lífa þoku léttir af okkur og við sjáum í gegnum þá blekkingu að þetta er ekki raunverulegt heldur aðeins orka þá skiljum við kannski ekki hvernig í ósköpun okkur gat liðið svona. Allar ytri aðstæður eru ennþá þær sömu en allt í einu getum við fundið svo sterkt fyrir alsnægtar tilfinningunni, fyrir þakklætinu fyrir allt sem við eigum og höfum. Við finnum og sjáum það dýrmæta við lífið. Við sjáum hversu fallega alheimurinn hefur séð okkur fyrir öllum okkar þörfum, við sjáum hversu yndislegt fólkið er sem hefur valist með okkur í lífinu og hversu mikils virði það er og hvers virði við erum þeim.

Tilfinning sem við finnum fyrir hefur ekkert með það að gera hvort við eigum lítið eða mikið af veraldlegum gæðum. Þessi alsnægtar tilfinning gæti verið yfir því að við eigum bolla í hendi til þess að drekka vatn úr eða að við eigum bara yfirleitt hreint vatn í krana til að drekka. Það getur verið blómvöndur sem við týnum út í náttúrunni eitthvað afskaplega einfalt. Við sjáum allt í einu að heimurinn er einhvern veginn svo stórkostlegur og gjafmildur að við getum verið algjörlega örugg og í fullkomnu jafnvægi hvar og hvenær sem er.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is