Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Innra barnið mitt

30. apríl 2014

Ég vildi vita hvað lægi að baki þessum ofurverndandi sterka pabba, þessari ofurverndandi tilfinningu sem heldur dauðahaldi í stýringarnar, að vera við stjórn. Af hverju egóið vill ekki sleppa, af hverju það vill ekki leyfa mér að sjá hvað er á bakvið.

Undir öllu þessu var barnið, litla barnið, svo ofurhrætt. Það opnaði pínulitla rifu á hurðina, það átti erfitt með að treysta eftir allt sem það hefur orðið að þola. Eftir allt sem það hefur orðið að þola um ævina vegna mín, vegna þess sem ég valdi að fara í gegnum í lífinu.

Barnið var ofboðslega hrætt eftir allt það ofbeldi sem það hefur mátt þola, andlegt, líkamlegt, hvaða nafni sem það ofbeldi nefnist og það versta var að engin vildi hlusta á það ekki einu sinni ég. Ég spurði það hvort það vildi fyrirgefa mér fyrir að skildi ekki hlusta á það, þegar það grét, þegar það reyndi að tjá mér hvernig því liði.

Barnið hafði aldrei geta sagt frá því ofbeldi sem það hafði mátt þola, það hafði smám saman lært að það var ekki hlustað á það þannig að það fór að hlusta meira á þarfir annarra heldur en sínar eigin. Það vissi jafnvel ekki lengur hverjar þarfir þess voru og það vissi ekki einu sinni hvað það var að hafa þarfir. Átti það rétt á einhverju öðru en því sem að því var rétt, það bað aldrei um neitt fyrir sig. Það hafði lært að það væri lítils virði, það hafði lært að hafa ofurnæmi gagnvart líðan annarra, gagnvart reiði annarra, gagnvart þörfum annarra. Þegar aðrir voru reiðir þá varð það hrætt og faldi sig, það bældi sína eigin reiði, það vissi ekki hvernig það átti, eða mátti vera. Það skoðaði umhverfi sitt mjög vandlega til þess að reyna að þóknast þeim sem þar voru. Það fylgdist með því hvernig aðrir voru, hvernig skapið var, hvernig andrúmsloftið var. Það vissi aldrei hvort það var velkomið í hópinn eða ekki, það vissi aldrei hvort það yrði tekið fyrir innan hópsins, lítilækkað, niðurlægt, það vissi aldrei hverju það átti von á svo það hélt sig oft til hlés.

Það var löngu hætt að gráta, það þýddi hvort sem er ekkert að gráta, það hlustaði engin, það var engin fullorðin til þess að hugga það. Það var engin fullorðin til að taka utan um það og segja því að það yrði allt í lagi. Það lærði að fela tilfinningar sínar, það faldi þær svo vel að engin gat séð hvernig því leið, engin skildi geta sært það svo mikið að það færi að gráta. Engin skildi nokkurn tíma halda að hann væri svo mikilvægur í lífi þess að því væri ekki sama.

Það vissi ekki lengur hvort einhver var vondur við það, það gat ekki skilgreint vonsku annarra gagnvart sér, það gat ekki sagt frá vegna þess að það hafði svo lengi þolað þessar barsmíðar, þessar stungur, þessar háðsglósur, þessar misþyrmingar þó þær væru flestar framkvæmdar með orðum. Það vissi ekki að þetta var ekki eðlilegt, að þetta var ekki eitthvað sem öll börn þurftu að þola, ekki eitthvað sem var kallað eðlilegt ástand.

Í öllu þessu fór barnið að koma sér upp vörnum í huganum, stórum og sterkum pabba, einhverjum sem gat varið það, einhverjum sem gat barist fyrir það, barið þá sem voru vondir við það, hreitt háðsglósum í þá sem særðu með orðum, verið sá sterki, verið sá reiði, staðið á rétti sínum sem stálplata, sá sem engin þorði að takast á við. Barnið vissi að það var öruggt með þessum pabba, hann stóð alltaf með því, hann var vinur þess en stundum var hann sá allra versti, sá allra harðasti, sá sem særði mest.  Hann átti spjót, hann átti sverð, hann átti eld, hann átti beittasta vopnið – orð til að tala og stundum notaði hann þetta allt gagnvart barninu sjálfu.

Barnið gat ekki svarað fyrir sig, það kunni það ekki, það hafði aldrei lært það, aldrei lært að tala og tjá hvernig því leið eða svarað fyrir sig. Til þess að finna ekki tilfinningar sínar og vanlíðan fór barnið að reykja sígarettur, það fór að borða án þess að vera svangt, það fór að kaupa hluti sem það hafði ekki þörf fyrir. Það kunni ekki meta allt það góða sem var í kringum það, það kunni ekki að taka við ást annarra vegna þess að hjarta þess hafði lokast og það trúði ekki að einhver gæti elskað það og allra síst að það gæti elskað sig sjálft.

Viltu fyrirgefa mér elsku særða barn hvað ég hef látið þig þola margt, hvað ég hef látið þig þola án þess að hlusta á þig, án þess að hlusta á hvað þú hafðir að segja, án þess að leyfa þér að gráta í fanginu á mér, án þess að leyfa þér að tjá þig hvernig þér leið, fyrirgefðu og leyfðu mér að taka utan um þig, faðma þig, elska og hugga og veita þér öryggi. Ég elska þig.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband