Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Styrkur sköpunar orkunnar

 

23. febrúar 2016

Við höfum hvert og eitt mikinn styrk og orku til að skapa okkar ytri raunveruleika. Með því innra, sköpum við hið ytra, aðstæður og umhverfi og það virðist sem konur hafi verið og séu afskaplega meðvitaðar um þetta og hafi notað þetta í gegnum tíðina (karlar hafa líka verið konur í öðrum jarðvistum).

Konur styðja mennina sína í því sem þeir eru að gera með því einu að ljá þeim orkuna sína inn í það sem þeir eru að gera og þannig tvíeflist það sem áhugi þeirra beinist að. Þegar einn vinur minn sagði við mig á dögunum að það virtist oft vera þannig að ef karlmaður stofnaði fyrirtæki þá stæði konan hans þétt við bakið á honum og setti orkuna sína einnig í fyrirtækið og rekstur þess en það væri oftast nær ekki gagnkvæmt, að karlar styddu konurnar sínar orkulega í fyrirtækjarekstri.

Af hverju ætli það sé þannig hugsaði ég og varð þá hugsað til draums sem mig dreymdi fyrir nokkrum mánuðum. Reyndar var þessi draumur fyrri lífa minninga draumur, en í draumnum var ég kona og maðurinn minn í því lífi (í draumnum vissi ég að hann var maðurinn minn) var einhvers konar sauðnautabóndi eða var við sauðnautasmölun og ég fann hvernig ég studdi hann allan tímann orkulega í smalamennskunni án þess að vera á staðnum. Ég fann hvernig ég notaði innsæið til þess að vera meðvituð um það hvernig gengi í smalamennskunni og hvar ég þyrfti að grípa inn í til þess að efla orkuna til þess að allt gengi upp. Það virtist vera að án þessa orkulega inngrips míns í smalamennskuna hefði sauðnautahjörðin tvístrast út um allt. Ég skynjaði yfirnáttúrlegan kraft sem ég hafði til að hafa áhrif í smalamennskunni án þess að vera á staðnum og mér varð hugsað um það þegar ég vaknaði hversu gríðarlegum krafti við búum yfir.

Út frá þessu tvennu hef ég hugsað og skoðað af hverju þetta er svona, og af hverju konur hafa trúað því í gegnum tíðina að þær þurfi t.d. að gefa körlum með peningavöld vald yfir sér og gefa þar með orkuna sína í það vald til að styrkja það ennþá meira. Hvaðan kom þetta peningavald í upphafi, var það kannski vegna þess að konan styrkti karlinn í því sem hann var að gera með orkunni sinni og gaf því þess vegna tvöfalt vægi og krafta og jafnvel meira vegna þess að konan fæddi börnin og ól þau upp og síðan styrktu börnin kannski karlinn enn meira með sinni orku og svo koll af kolli.

Hvað ef við konur tökum nú þetta vald í okkar eigin þágu, eins og svo margar konur eru að gera í dag, ekki bara hið ytra heldur líka hið innra, notum okkar eigin krafta til að skapa og efla það sem við viljum, ekki með hörkunni og karlorkunni, heldur með mýktinni og kvenorkunni. Eins og ég sé það þá hafa margar konur fæðst á Íslandi vegna þess að þær hafa ætlað að taka sjálfstæði sitt og finna sjálfa sig og sinn eigin styrk. Það er kannski ekki auðvelt í þessu harða umhverfi en það er kannski einmitt umhverfið sem gerir það að verkum að konur á Íslandi eru sjálfstæðari en aðrar konur í heiminum. Öll frumefnin svo sem jörð, eldur, vatn og loft eru svo áþreifanleg hér á landi og það eru einmitt þessir frumkraftar sem þurfa að vera til staðar fyrir alla sköpun. Það eru margir karlar sem hafa ekki getað höndlað þessa sjálfstæðis þörf kvenna hér á landi og vilja halda í gamla mynstrið þar sem þeir hafa völd í gegnum peninga, þessir karlmenn leita jafnvel til annarra landa eftir konum sem hafa ekki ennþá uppgötvað þann mikla sköpunarmátt sem þær hafa. Það er ekki slæmt fyrir karlmenn þó að konur taki sjálfstæði sitt og standi fyrir sínu eigin lífi, óháðar öðrum, það geta líka verið konur sem eru í sambúð. Konur og karlar geta þá staðið jafnfætis, karlar styrkja og setja orkuna í það sem ástríða þeirra liggur og hjarta þeirra þráir og það sama gerir konan hún setur orkuna sína í það sem ástríða hennar liggur og hjarta hennar þráir og þannig styrkja þau hvort annað á jafningja grundvelli.

Á sama tíma og við konur erum að taka sjálfstæði okkar og nota okkar eigin orku þá væri gott að hugleiða það hvað og hvernig við horfum á ytri aðstæður þar sem konur gefa körlum vægi t.d. vegna peninga. Þetta er allt í kringum okkur í þjóðfélaginu í gegnum launamismun, í fréttamiðlum, sjónvarpi, útvarpi netmiðlum, konur gefa körlum vald yfir sér og sumum finnst það allt í lagi. Konum hefur verið talið trú um það í gegnum tíðina að þær þurfi einhvern til að bjarga sér, skilyrðingin hefur verið sterk í hinu ytra umhverfi, í gegnum hefðir kynslóðanna, ævintýri og ástarsögur þar sem konan á að vera hólpin þegar draumaprinsinn bjargar henni. Í rauninni er þetta einungis gömul formötun sem einhver staðar hefur orðið til, þar sem fæðingarréttur hvers og eins til sköpunar hefur verið afbakaður. Allir eiga jafna möguleika á að skapa inn í líf sitt það sem þeir þurfa en þeir þurfa að trúa því innra með sér að þeir séu verðugir. Peningar eru orka, orkulegt flæði ekkert annað, gjaldmiðill, skiptimynt fyrir það sem skapað er, eða unnið, skiptimynt fyrir mat, áhöld, föt, farartæki og þess háttar. Peningar koma og fara og það gildir um þá eins og annað að það þarf að vera flæði, það sem kemur inn þarf að fara út, þannig að nýtt geti komið í staðinn.

Það að taka sjálfstæði sitt snýst ekki bara um að taka það sjálfstæði hið ytra heldur þurfum við að skoða hvernig okkur líður með það hið innra. Við þurfum að skoða gömlu forritin hið innra hvernig við höfum gefið vald okkar yfir til annarra, hvernig mynstrin innra með okkur spegla það sem okkur er boðið upp á í hinum ytri heimi. Hættum að efla og styrkja gömlu mynstrin með því gefa þeim orku með því að tala um þau, förum heldur og gerum eitthvað, leitum innra með okkur og upprætum gömlu formötunina. Stöldrum við í svona 20-30 sekúndur þegar eitthvað ytra áreiti er við líði sem okkur líður ekki vel með og skoðum hvaða tilfinningar og líðan kemur upp, skanna, kanna, skoða og leyfa þeim viðbrögðum sem koma fram, án þess að dæma. Hver svo sem viðbrögðin eru samþykkjum þá að okkur líður svona, ekki afneita heldur samþykkja og þegar það hefur verið gert þá getum við sleppt og þar með upprætt gamla forritið og viðbrögðin við því. Þannig breytast viðbrögðin við áreitinu og að lokum þurfum við ekki á því að halda. Því fleiri sem gera þetta því færri þurfa á þessari speglun áreitisins að halda, því það verða engin viðbrögð og þannig hættir þetta sjálfkrafa. Þegar einn upprætir gömul skilyrt forrit innra með sér þá hjálpar hann fleirum að uppræta formötunina hjá sér og þannig hefur það keðjuverkandi áhrif.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is