Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Lífsspeglar

 

7. ágúst 2014

Á hverjum degi verð ég meðvitaðri um það hvernig fólkið sem ég umgengst er eins og lífsspegill fyrir það sem ég geymi hið innra og er stundum tilbúin að skoða og stundum ekki. Oft ert þetta mjög djúpt grafið og ég hef litla hugmynd um að þetta sé innra með mér, eða þá að ég get ekki komið orðum að því, ég veit af því en veit ekki alveg hvernig ég á að höndla það, eða hvað ég á að gera við það. Ef ég er tilbúin að sjá hvað aðrir er að spegla fyrir mig þá er það eins og að lesa bók, sem er einungis að gefa mér upplýsingar um mig sjálfa.

Með hverjum deginum sem líður verð ég líka þakklátari fyrir þá sem koma til mín í heilun þar sem það er fólkið sem sýnir mér oft ennþá betur það sem ég hef hið innra. Þegar ég heyri þau tala þá get ég kafað dýpra innra með mér og séð hverju ég er tilbúin að sleppa úr minni orku. Ég veit að í hvert skipti sem einhver kemur þá er það vegna þess að ég sjálf er að losa um það sama í orkunni, eða er nýbúin að því og get þannig hjálpað öðrum að losa það sama. Fólkið sem kemur er þarna vegna þess að það finnur orkulega að við eigum eitthvað sameiginlegt. Þessi vitneskja kemur eflaust vegna orkulegra samskipta sálnanna áður en samfundir verða í efninu.

Í smáskammtalækningum er talað um að líkur lækni líkan. Oft lýsir fólk einhverju um sjálft sig sem gæti alveg eins verið kafli úr minni sögu. Þetta er eiginlega orðið svo ótrúlegt að stundum trúi ég varla því sem ég heyri sagt, það er stundum eins og ég sé sjálf að tala þó ég sé einungis að hlusta. Hið ótrúlega samspil í samskiptum okkar mannfólksins getur hjálpað okkur á þúsundföldum hraða til að skilja okkur sjálf ef við aðeins hlustum á það sem sagt er við okkur hverju sinni. Og þá meina ég HLUSTUM og heyrum hvað sagt er og skoðum og berum saman hvað er verið að segja okkur um okkur sjálf. Hvernig kemur það sem sagt er heim og saman við okkur sjálf og okkar líf. 

Það sama á við um skrifin mín, ég er svo þakklát að ég skuli hafa byrjað að skrifa á sínum tíma, skrifa um tilfinningar vegna þess að skrifin veita mér einskonar uppljómun í hvert skipti sem ég set eitthvað á blað. Ég fæ skilning, ég fæ svör, ég fæ að sjá hlutina í nýju ljósi.  Ég fæ að sjá á bakvið blekkinguna, á bakvið atburði, eða tilfinningar tengda minningum. Ég fæ að sjá að hvert einasta atvik í lífinu hefur tilgang, hvert einasta orð sem sagt er hefur tilgang, hver einustu samskipti við aðra manneskjur eru að hjálpa til á lífsbrautinni.

Stundum geta aðrir sem verða okkur samferða gefið okkur hart spark í rassinn og við höfum örugglega beðið um það áður en við komum inn í lífið að ef við myndum ekki heyra í leiðbeinendum okkar þá myndi leiðbeinandinn hvísla að samferðafólki okkar og þeir síðan setja það í orð fyrir okkur til þess að við myndum nú öruggleg heyra það. Leiðbeinendur okkar reyna hvað þeir geta til að hjálpa okkur að fylgja leið sálarinnar, því sem sálin hefur sett saman sem verkefni á jörðinni áður en við fæddumst.  Leiðbeinendur er einungis til þess að fá okkur til þess að halda okkur við þá áætlun eins og hún væri verkferli sem við færum eftir í vinnunni.  Ef við fylgdum alltaf þeim leiðbeiningum sem leiðbeinandinn segir okkur þá værum við sennilega mun fljótari með verkefnin í jarðlífinu heldur þegar við þráumst við og förum eftir því sem persónan eða egóið vill og heldur að sé rétt eða það sem ennþá verra, ef við förum eftir því sem aðrir segja okkur að sé rétt fyrir okkur og við förum að fylgja egóinu þeirra.

Ég er sífellt þakklátari fyrir þær speglanir sem ég fæ að sjá í lífinu í gegnum annað fólk og hvernig þær hafa hjálpað mér smám saman að sjá sjálfa mig, oft það sem ég hef ekki viljað sjá eða heyra um mig og svo verð ég allt í einu tilbúin og þá er það eins og að öðlast alveg nýja sýn á lífið.  Þessi leikur að spegla sig í orkulegum samskiptum við aðra er eiginlega orðin eins og skemmtun hjá mér og spenningurinn eykst í hvert skipti sem ég heyri eitthvað nýtt um sjálfa mig sem ég hef ekki verið fær um að sjá áður.  Það sem ég hef gert mér grein fyrir í þessu ferli er að það er ekki nóg að vera með hæfileika, ef ég er á stöðugum flótta og er hrædd við að viðurkenna þá og samþykkja að nota þá koma þeir ekki til með að nýtast mér í lífinu en ef ég stend með mér og nýti hæfileikana þá munu fleira fylgja í kjölfarið.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

heim