Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Afgerand mynstur í orkunni

 

28. nóvember 2015

Það er talað um að við höfum um það bil 16 afgerandi mynstur sem hafa mótast og þróast í orkunni okkar í gegnum ótal jarðvistir. Eitt þessara mynstra er sektarkenndin, eða skömmin og við höfum sennilega flest öll þetta mynstur innra með okkur og erum að glíma við það á mismunandi hátt. Þetta mynstur sem er svo afgerandi og er að halda aftur af okkur getur valdið því að það sé mjög auðvelt að skilyrða okkur með því að segja eitthvað lítillækkandi eða neikvætt við, eða um okkur. Það getur verið nóg að einhver endurtaki nokkrum sinnum að nöglin á stóru tá á okkur sé ljót, eyrun séu stór, nefið skakkt, við séum ljót, pabbi okkar sé feitur, mamma okkar frek, við séum í ljótum skóm, bíllinn okkar sé drusla, við séum komin úr klikkaðri fjölskyldu og við förum að trúa þessu og skömmumst okkar fyrir þetta. Þegar við höfum heyrt þetta svo oft að þetta fer að valda því að við hrökkvum í kút um leið og það er minnst á þetta þá byrjum við að draga orkuna okkar saman og við förum að skammast okkar. Þegar það gerist þá förum við annað hvort í viðbragð hið innra, (hugurinn byrjar að endurtaka það sem aðrir sögðu við okkur og við festum það sem sagt var ennþá meira innra með okkur, við styrkjum mynstrið vegna þess að við veltum þessu aftur og aftur upp í huganum) eða við förum í viðbragð hið ytra og búumst til varnar með niðrandi orðum á móti og styrkjum þannig aðra hringrás. Hvort sem það verður ytra eða innra viðbragð þá verður það samt til þess að við drögum saman orkuna og verðum á einhvern hátt eins og lítil innra með okkur og við finnum fyrir skömminni.

Við spyrjum okkur sjálf af hverju við bregðumst svona við og af hverju þetta hefur svona mikil áhrif en fáum kannski engin svör. Við spyrjum jafnvel af hverju það sé svona auðvelt að skilyrða okkur til þess að fara að trúa einhverju sem við vitum jafnvel að er ekki satt eða við höfum ekki trúað áður. Eitthvað sem við höfðum ekki einu sinni leitt hugann að. Hvað veldur því að við erum svona fljót að trúa því að eitthvað sé satt sem við heyrum aðra segja beint við okkur, eða um okkur? Jú það er vegna þess að við komum með þetta mynstur inn í jarðvistina, þessa skömm eða sektarkennd úr öðrum lífum, þetta form hefur verið notað í gegnum aldirnar til þess að halda okkur niðri og þess vegna er hugurinn svona fljótur að detta inn í mynstrið, það er svo kunnuglegt og auðvelt að festast í því enn einu sinni. Það er ekki fyrr en við náum að grípa þetta mynstur og horfast í augu við sakamanninn/sektarkenndina og uppræta hana sem við verðum laus og þá hefur enginn þörf í okkar ytra umhverfi til þess að spegla þetta fyrir okkur.

Ein leið til þess að losa upp mynstrið sem fær okkur til þess að trúa einu og öðru um okkur sjálf, hvort sem það hafa verið aðrir sem hafa verið að reyna að sannfæra okkur um það eða við höfum haft þá sannfæringu alveg ein og sjálf er að fara inn á við og finna ást til okkar sjálfra, fara inn í hjartað og finna elskuna og þakklætið til þess sem var verið að reyna að telja okkur trú um að við ættum að finna til skammar og sektarkenndar yfir. 

Efst á síðu

Heim      

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband