Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Varnargrímur og varnarveggir

 

20. febrúar 2016

Þegar ég set upp hörkulegan svip og byrja að keyra mig áfram þá hef ég einmitt þörf fyrir hið gagnstæða, mýkt og hlýju, ytri fronturinn er vegna þess að ég er að verja innra særða barnið mitt og mig langar helst af öllu að hnipra mig saman í fósturstellingar. Mig langar ekki til að láta aðra sjá viðkvæmnina sem býr innra með mér, litla barnið sem ég held að ég sé að verja fyrir ytri heimi með því að sýna hörkulegt viðmót, eða hörkulega andlitsdrætti, ég er jafnvel hörkuleg í framkomu við aðra. Það er ekki hægt að vera í mýktinni þegar gríma hörkunnar er sett upp, gríma hinnar ytri veraldar, þar sem mér finnst ég þurfa að verja mig. Ég er nokkuð viss um að fólk áttar sig ekki alltaf á því að ég er í raun að verja sárið mitt, verja særða barnið innra mér. Barninu langar í ást og umhyggju en það getur ekki þegið það því ég er búin að brynja mig með því að sýna með látbragði að ég þurfi ekki á því að halda vegna þess að ég sé svo sterk og hafi enga þörf fyrir ást og hlýju. Samt finn ég sársaukann hið innra, mig langar í ást og hlýju, mig langar í samúð og að einhver umvefji mig kærleika, mig langar að gráta en get það ekki vegna þess að ég er búin að keyra upp varnarvegginn til þess að enginn sjá hvað er raunverulega að gerast innra með mér. Að barnið situr í hnipri og dregur sig jafnvel enn meira saman vegna sársaukans sem það finnur, samt er ég fullorðin og þessi einhver sem gæti gefið mér ást, hlýju og umhyggju gæti allt eins verið ég sjálf.

Þetta er gamall sársauki, hann er ekki nýr, ég er samt ekki að hugsa út í fortíðina, þetta er að gerast núna, ég get varla andað fyrir sársauka en samt gerðist ekkert í ytra umhverfi sem olli mér sársauka. Þessi sársauki á ekki einu sinni uppruna sinn í núverandi lífi heldur allt öðru lífi, mörgum lífum, fyrir mörgum árum, áratugum eða árþúsundum, samt er hann hér núna á þessari stundu á þessum stað, ég finn hann svo greinilega, ég sé barnið innra með mér. Ég finn hvernig andlitsdrættirnir herpast, ég set upp grímuna, það er allt í lagi með mig, ég get séð um mig sjálf, ég er góð, ég er sterk, ég þarf ekki á samúð að halda.

Af hverju set ég upp varnarvegginn, varnargrímuna og geng þannig út í daginn, ég er jú að fara í vinnuna, ég er ekki í aðstöðu til að segja hvernig mér líður því það gæti orðið til þess að ég yrði meir og færi að gráta og maður kemur ekki útgrátinn í vinnuna vegna einhvers sársauka og útskýrir fyrir vinnufélögunum að maður sé að gráta vegna sársauka sem varð til í fyrri lífum. Já lífið getur verið snúið en ég veit af þessu og ég sé barnið í hnipri innra með mér, ég fer inn í sársaukann en hann er svo djúpur að það er eins og ég sé með hundrað hnífa í brjóstholinu. Ég veit að þetta eru tilfinningar, ekki alvarleg líkamleg einkenni þar sem sársaukinn kemur og fer, dýpkar og grynnist til skiptis. Ef ég færi í verkjaskalann góða í tölunum frá 0-10  þá gæti ég trúað að hann næði alveg upp í 8, vegna þess að hann er nánast óbærilegur. Ég veit að þetta er eitthvað sem ég hef haldið í áður, eitthvað sem ég hef ekki vilja sleppa, óbærilegur sársauki, sem ég hef falið með ytri grímu hörkunnar, sett hana upp svo enginn sjái. Ég vil ekki að aðrir sjái varnarleysi mitt og veikleika, sjái sárið mitt, ég vil sýna hinum ytri heimi að ég hafi styrk og auðvitað hef ég öðlast styrk vegna þess sem ég hef lært af lífinu, ég hef öðlast styrk vegna þess sem ég hef farið í gegnum, elskað og misst, eignast og misst, gert eða ekki gert, allt er breytingum háð, en ég þarf bara að átta mig á því að ég er tilbúin að horfast í augu við sárið og sleppa því, vegna þess að ég vil geta losað mig við grímu hörkunnar, ég vil vera ég eins og ég er, án grímunnar.

Þrátt fyrir sársaukann þá þykir mér vænt um þessa birtingu á sársaukanum vegna þess að ég veit að þegar hann sýnir sig í brjóstholinu á mér í núinu þá er hann tilbúin að fara, sérstaklega ef ég veiti honum athygli og umhyggju og sætti mig við að hann hefur fylgt mér lengi lengi en er núna tilbúin að sleppa, tilbúin að fara svo að litla barnið getið rétt úr sér, farið úr fósturstellingunum, litið upp og leikið sér. Það þarf ekki lengur að vera fast í fjötrum sársaukanns, gamals sársauka, það má leika og vera frjálst.  

 

Efst á síðu

Ýmislegt

heim

 


© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is