Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Að taka eftir viðbrögðunum sínum


Í lífinu erum við stöðugt að æfa okkur í hinu og þessu í gegnum samskipti við annað fólk.  Ef við værum ekki í samskiptum við annað fólk þá værum við ekki að fá tækifæri til þess að skoða og meta hvað það er sem kemur okkur úr jafnvægi vegna þess að engin væri til þess að ýta á þá takka sem koma okkur úr jafnvægi. Það hvernig við bregðumst við fer auðvitað algjörlega eftir okkur sjálfum og við erum líka í misjöfnu ástandi til þess að bregðast við áreiti í orðum eða athöfnum. Stundum erum við þreytt og illa fyrir kölluð og stundum erum við í góðu standi og þá förum við léttar með að meta stöðuna og bregðast við án þess að áreitið hafa neikvæð áhrif á okkur.

Ég hef lengi glímt við að vera í yfirvigt og hefur gengið misjafnlega vel að leiðrétta hallann á vigtinni og ég held að ég sé búin að prófa allar mögulegar og ómögulegar leiðir til þess að létta mig og hef komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi á því að halda að skoða og kafa ofan í tilfinningar sem eru undirrót þessara umframkílóa og af hverju ég hef ekki getað haldið út á því mataræði sem hefur látið mér bæði líða betur og kílóunum hefur fækkað.

Það sem ég hef fundið út er að samskipti við ákveðna fjölskyldumeðlimi hefur aukið á streitu og lamað staðfestu mína í sambandi við mat. Ekki er það vegna þess að það séu slæm samskipti við heldur er eitthvað sem veldur því að ég fer í ójafnvægi í kringum þá í sambandi við mat og fer að borða hraðar og hreinlega troða í mig mat sem ég að öllu jafna borða ekki vegna þess að hann fer illa í mig.

Annað sem ég hef tekið eftir er að ef einhver svo mikið sem nefnir það við mig hvort ég ætli nú ekki að fara að létta mig þá fer það alveg öfugt í mig. Ég tek það þannig að viðkomandi finnist ég óaðlaðandi eða ómöguleg vegna þess að ég sé svona feit. Jú ég veit vel að það er rétt að ég mætti alveg missa fullt af kílóum en í stað þess að rjúka til og taka mig á við þetta áreiti, þá bregst ég algjörlega öfugt við. Ég verð ofboðslega sár og reið og helli mér út í að borða eitthvað sem er mjög óhollt fyrir mig og meira að segja unnin matvæli verða efst á óskalistanum þó að þau séu algjörlega á bannlista svona yfirleitt vegna þess að mér líður ekki vel þegar ég borða þannig mat. 

Ekki veit ég hvort þetta er það sem ég kalla (resistance) mótstaða (að gera eitthvað alveg öfugt við það mér er bent á) þó að ég viti að það bitnar ekki á neinum nema mér sjálfri eða hvers konar sjálfsrefsingar þetta eru. Þannig geta liðið nokkrir dagar sem ég er bæði reið og sár og borða og borða eftir að fá svona athugasemdir, eiginlega borða ég bara allt sem tönn á festir og svo líður mér afskaplega illa með það eftir á og það tekur nokkra daga að leiðrétta ferlið aftur og milda og mýkja mataræðið þannig að ég fari að láta ofan í mig mat sem mér líður vel með.  Þetta verður eins og nokkurs konar refsiaðgerð, eða hefndaraðgerð sem beinist þó einungis gegn mér sjálfri og ég er ekki alveg að skilja af hverju ég bregst svona við.

Ég man eftir ótal skiptum þar sem einhver hefur sett út á útlit mitt og þá ekki síst að ég væri feit, þá virtist einu gilda hvort ég var með nokkur aukakíló utan á mér eða hvort ég er eins og ég er í dag með nokkra tugi aukakílóa.  Í gegnum tíðina hef ég eins og áður sagði stöðugt verið að grennast og fitna aftur, ferli sem flestir þekkja sem eru í ójafnvægi með mat. 

Fyrir mörgum árum síðan var ég að hreyfa mig mjög mikið og hafði gengið vel að grenna mig.  Í eitt skiptið þegar ég er úti að hjóla hitti ég nágranna minn sem gefur sig á tal við mig og við förum að ræða daginn og veginn. Eitthvað barst í tal að ég væri úti að hjóla og hvað það væri gott þegar hann segir allt í einu við mig „þú verður aldrei grönn.“ Ég man hvað þetta sló mig eins og ég hefði verið slegin utan undir og ætti mér ekki viðreisnar von í þessari kílóabaráttu. Það var eins og það hefðu verið sett á mig álög, ég yrði hvort sem er aldrei grönn sama hvað ég hamaðist þetta. Ég man að þó að mér fyndist þetta hálfpartinn fyndið og ekkert mark væri takandi á þessum manni þá höfðu þessi orðaskipti heilmikil áhrif á mig og mér leið ekki vel með þetta og ég fór í nokkurs konar uppgjöf í baráttunni við kílóin og hefur oft verið hugsað til orða þessa manns. 

En burtséð frá því að það kemur svo sem engum öðrum við en mér sjálfri hvernig ég lít út þá eru það samt viðbrögðin mín við svona athugasemdum sem mig langar svo mikið til að fá lausn á, hvað er það sem fær mig til þess að bregðast við á svona öfgafullan hátt með refsingum við minn eigin líkama sem leiða til vanlíðunar bæði andlega og líkamlega.      

 

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim     

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband