Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Yfirnáttúrulegur hæfileiki til þess að skynja


Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvað veldur því að fólk fer að finna svo sterkt fyrir tilfinningum og líðan annarra að það veit varla hvort líðanin er komin frá þeim sjálfum eða öðrum.  Þegar ég fór að skoða sjálfa mig í þessu tilfelli og horfa aftur í tímann og einnig að vera með augun opin í því sem hefur verið að koma til mín í lífinu undanfarið þá hef ég fengið svör fyrir mig hvað þetta varðar sem nægja mér í bili.

Í fyrsta lagi fann ég það út að ef fólk finnur til með öðrum í þeim aðstæðum sem þeir eru í þá er gefið mál að sá sem hefur samkenndina hefur farið í gegnum mikinn og djúpan sársauka og fundið það á eigin skinni. Sársauki er eitthvað sem hefur orðið til þegar einhver særir okkur djúpt eða lítilsvirðir með orðum eða athöfnum og við höldum í minninguna og söguna í kringum það vegna þess að við urðum fyrir áfalli sem veldur því að við yfirgefum okkur sjálf þannig er brot af okkur fast í þessari minningu og heldur í sársaukann.  Sársaukanum er síðan viðhaldið í gegnum minningu hugans sem segir söguna aftur og aftur annað hvort í okkar eigin rökræðum eða við aðra og þannig dregur hugurinn upp tilfinningarnar og líðanina sem varð við áfallið.  Partur af okkur er fastur í áfallinu sem við urðum fyrir þangað til við viðurkennum og skoðum það og leysum það upp og til að ná í þann part af okkur og taka okkur sjálf í sátt sama hvað gerðist.

Í öðru lagi koma aðrir inn í líf okkar sem hafa farið í gegnum svipuð áföll á meðan við  höfum ekki tekist á við okkar eigin innri sársauka og við verðum oft mjög upptekin af lífi annarra og þeirra áföllum og að fá að hlusta á áfallasögur eða skilgreina þær m.a. til þess að beina athyglinni frá okkar eigin sársauka og tilfinningum og líka til þess að sjá og skilja að við erum ekki ein um  að hafa farið í gegnum áföll.  Þannig virðist sem við drögum að okkur fólk sem líður kannski nokkuð svipað og við sjálf og getur þess vegna speglað okkar innri líðan fyrir okkur. 

Í þriðja lagi getum við orðið mjög upptekin af því að skilgreina líf annarrar manneskju sem geta t.d. verið vinir okkar eða fjölskyldumeðlimir við annað fólk og við erum oft mjög góð í þessu.  Það getur líka verið að manneskjan sem lendir í skilgreiningavélinni hafi  einhver tíman gert eitthvað á okkar hlut, hún sé áberandi í umræðunni (um suma er talað meira en aðra)  einhver sem hefur hæfileika eða getu sem okkur finnst okkur skorta, eða þá að hún hafi galla eða vankosti sem við eigum erfitt með að höndla. Með þessu eru við farin að beina athyglinni inn í líf annarra sem við höfum í rauninni ekkert með að gera og missa þar með að því tækifæri að nota orkuna fyrir okkur sjálf. Við erum í raun farin inn í tilfinningar og líðan annarra að þeim fjarstöddum og skipuleggjum í gríð og erg hvað væri þeim fyrir bestu í lífinu. Fullt af okkar eigin orku sem við ættum helst af öllu að nota fyrir okkur sjálf fer í að vera á kafi í annarra lífi. Með þessu erum við að forðast okkar eigin líðan og tilfinningar og neita okkur um að hafa athyglina á okkur. Mjög líklega er rótin sú að við viljum ekki takast á við okkar eigin líðan og tilfinningar.

Annað sem ég hef tekið eftir í þessu sambandi og snýr enn að því að vera meira upptekin af öðru fólki en okkar sjálfum er að fara í það hlutverk að tala um það hvernig hinn aðilinn hagaði sér í samskiptum við okkur, hvað hann eða hún særði okkur, sagði rangt, eða sagði ekki eitthvað sem huggaði og nærði (eitthvað sem við þráðum frá hinum aðilanum) eða eitthvað sem var látið ógert en við vildum að hefði verið gert.  Sagan af þessu er jafnvel endurtekin aftur og aftur vegna þess að okkur langar svo mikið til þess að aðrir geti sett sig í okkar spor, að aðrir geti skilið hvernig okkur líður. Allt snýr þetta að okkar eigin líðan og tilfinningum en við leyfum okkur ekki að viðkenna það og hafa athyglina á okkur sjálfum heldur beinum við henni að þriðja aðila.  Það er ekki þar með sagt að það sé gott að hafa annan aðila til þess að tjá sig við um samskipti sem við erum ekki sátt við og fá annað sjónarhorn en þá þarf að passa að halda ekki áfram í samræðum hugans við okkur sjálf eða aðra vegna þess að þannig búum við til orkubönd við aðra manneskju sem við kærum okkur örugglega ekkert um og ekki heldur hinn aðilinn.

En auðvitað þurfum við að koma okkur út úr aðstæðum sem eru meiðandi og meiða aðra í kringum okkur. Stundum tekur það svolítinn tíma að átta sig á að við sækjum í meiðandi sambönd enda er það nokkuð algilt að þeir sem eiga auðvelt með að setja sig í spor annarra eiga erfitt með að setja sig í sín eigin spor og finna til með sjálfum sér vegna þess að athyglinni hefur svo lengi verið beint að öðrum aðila, stundum hefur það staðið yfir alla ævi.  Við þurfum oft þriðja aðila til þess að sýna þær aðstæður sem við erum í og þá eru það oft börn eða aðrir í nánu umhverfi sem okkur þykir vænt um sem taka að sér það hlutverk. Þegar við sjáum börn eða aðra við elskum þjást vegna sömu orða og aðstæðna og við höfum verið í sjálf þá fyrst uppgötvum við að sá sem særir notar sömu aðferðir við þau og okkur og þá loksins getum við séð hvernig þessi manneskja hefur haft áhrif á okkur en við tökum varla eftir því vegna þess að við erum svo vön að yfirgefa okkur sjálf. Við förum jafnvel að vorkenna þeim aðila sem meiðir okkur vegna þess að við vitum betur hvernig honum/henni líður heldur en hvernig okkur líður sjálfum og stöndum því frekar með þeim sem meiðir heldur en okkur og höldum jafnvel áfram að viðhalda samskiptunum og sambandinu þar til við höfum endalega ákveðið að standa með líðan okkar sjálfra en ekki hins aðilans.

Eftir þessi svör þá sýnist mér að það að skynja líðan og tilfinningar annarra sé ekki svo ofur yfirskilvitlegar heldur er þetta afleiðing af því hversu oft við höfum yfirgefið okkur sjálf, yfirgefið vegna þess að á þeim tímapunkti þá gátum við hreinlega ekki höndlað ástandið og því var ekkert annað í stöðunni. Við vorum kannski lítil börn og höfðum ekki einu sinni skilninginn á því að við værum að yfirgefa okkur sjálf vegna annarra að við vorum jafnvel að taka yfir líðan annarra þegar þau sem særðu okkur gerðu það vegna þess að þau höfðu sjálf verið særð. Við höfðum ekki burði til að svara fyrir okkur vegna þess að við höfðum aldrei lært að við ættum að standa með okkur sjálfum. Okkur er kennt að vera góð við aðra en okkur hefur ekki verið kennt að við ættum að vera góð við okkur sjálf fyrir en á allra síðustu árum. Hvernig áttum við þá að vera með þá meðvitund að við ættum að halda athyglinni á okkur sjálfum og okkar lífi.

En það er aldrei of seint og þegar við erum tilbúin þá er mikilvægt fyrir okkur sem höfum farið í gegnum áföll og það mörg að týna saman sálarbrotin sem hafa orðið eftir í hverju áfalli fyrir sig og taka okkur sjálf í sátt, leysa áfallið  upp, taka særða barnið inn í hjartað og elska það, fyrirgefa öðrum og sleppa og þakka þeim fyrir þeirra part.  Orka er orka og við höfum mikla orku fyrir okkur sjálf ef við erum meðvituð um að nota hana í okkar lífi. 

Það er líka gott að gera sér grein fyrir því að það er ekki bara slæmt að hafa farið í gegnum áföll í lífinu sársaukafulla upplifun í lífinu vegna þess að þegar sársaukanum hefur verið umbreytt þá verður hann styrkurinn okkar, skilningur, umburðarlyndi, þolinmæði, samúð og ást fyrir okkur sjálf og aðra. Það sem við upplifðum áður sem sársauka verður að nokkurs konar bónus í lífinu ef við ákveðum að snúa ferlinu við með því leysa hann upp og sjá hann sem þroskandi ferli sem hefur einungis víkkað vitundarsvið okkar og þroska.

English

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur