Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleši
Hugleišslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

 

 


Draumar

 

Draumar

Draumar hafa frá fornu fari hjálpað mannfólkinu við leiðsögn, leiðbeiningar, viðvaranir og lausnir vandamála í allskyns formi.
 
Flesta dreymir eitthvað á hverri nóttu en það eru ekki allir sem rifja draumana upp og þess vegna eru þeir fljótir að hverfa úr minninu og viðkomandi finnst hann ekkert hafa dreymt.

Að muna drauma

Við munum mismikið af draumum næturinnar og fer það oft eftir því hvernig okkur líður í svefni, ef við erum t.d. stressuð, ofurþreytt, áhyggjufull, eða erum búin að borða of mikið af þungmeltum mat þá er eins og við eigum erfiðara með að muna draumana.

Ef okkur dreymir aftur á móti og við munum drauminn þegar við vöknum og viljum muna hann áfram þá er mikilvægt að rifja hann strax upp um leið og við erum vöknuð, það er auðveldast ef við getum gert það strax á meðan við erum ennþá í rúminu, eða á þeim stað sem við höfum lagt okkur.

Leiðbeiningar í draumi

Draumar geta sagt okkur svo margt, þeir geta leiðbeint okkur í lífinu ef við erum að t.d. að vinna að ákveðnum verkefnum og erum ekki alveg viss hvernig við eigum að takast á við þau, þá gæti okkur dreymt drauma sem útskýra það sem okkur vantar upp á til að geta klárað verkefnið.

Það gæti t.d. verið að við værum að glíma við reikningsdæmi í skólanum og hefðum ekki alveg geta fundið út hvernig átti að reikna dæmið til enda, ef við erum mjög mikið með hugann við þetta reikningsdæmi áður en við förum að sofa og setjum jafnvel bókina undir koddann eða við hliðina á okkur þá gæti okkur dreymt lausnina á dæminu. Þannig gæti átt við um allskyns verkefni sem við erum að takast á við, ef okkur vantar upplýsingar þá gætum við fengið leiðbeiningu um það í draumi eða þá að við gætum fengið leiðsögn um það hvernig eða hvar við getum nálagast þær upplýsingar sem okkur vantar.  

Þannig er það með svo margt annað sem við erum að takast á við í lífinu. Ef við erum tilbúin að taka eftir þeim draumatáknum sem okkur birtist og pössum upp á að rifja þau upp um leið og við vöknum þá gæti það orðið okkur til hjálpar í vökunni.

Leiðsögn í draumi

Ef við erum að fara í gegnum breytingar í lífinu og erum ekki viss hvaða stefnu við eigum að taka þá gætum við fengið leiðsögn um það í gegnum drauma. Við erum kannski að hugsa um að breyta um vinnu, skipta um húsnæði, velja maka, eignast börn, velja land til að búa í, fara eitthvað sem skiptir máli í sumarfríinu, eða jafnvel að taka þátt í lottói.

Viðvaranir í draumi

Í gegnum drauma getum við líka fengið viðvaranir um aðsteðjandi hættu eða ef eitthvað er að fara að gerast sem okkur þykir óþægilegt að fara í gegnum.  Það gæti t.d. verið að við værum að fara að missa einhvern nákominn, eða við værum að fara í gegnum óvæntar breytingar sem okkur þættu óþægilegar, einhver er okkur ekki eins vinveittur og við héldum, við erum að fara að lenda í deilum við einhvern, þegar von er á vondu veðri eða t.d. náttúruhamförum. Oftast erum við búin að fá viðvörun í draumi áður en til tíðinda dregur í lífi okkar.  

Forspá-framtíðarspá

Draumar geta líka verið einskonar forspá fyrir framtíðina við fáum stundum að sjá fram í tímann í gegnum drauma. Marga dreymir fyrir atburðum sem gerast síðan löngu seinna jafnvel mörgum árum seinna.

Vinnsla með áföll í draumum

Við vinnum líka áföll í gegnum drauma, ef við höfum orðið fyrir alvarlegum áföllum í lífinu eins og að missa einhvern náinn þá getur okkur dreymt hann eða hana í töluverðan tíma á eftir, en það er leið sálarinnar til þess að hjálpa persónunni að losa um sorgina við missinn.

Samband að handan

Þá geta þeir sem eru komnir yfir í andlega heiminn haft samband við okkur í gegnum drauma, þeir geta komið til okkar skilaboðum með orðum, táknum, eða í gegnum myndir eða myndlíkingar.

Kvatt í draumi

Við getum líka orðið vör við fólk sem er nýfarið í andlega heiminn og það kemur að kveðja okkur í hinsta sinn það getur jafnvel verið fólk sem við erum hætt að umgangast en höfum áður umgengist um ákveðinn tíma í lífinu. Þegar þessar kveðjur fara fram þá gætum við fundið meira fyrir orkunni heldur en öðrum táknum í draumnum.
   
Fyrri lífa jarðvistir

Eins og orkan hefur verið undanfarið á þessum breytingartímum jarðarinnar þá erum við mjög oft að vinna út fyrri lífa jarðvistir í draumum, þegar það gerist þá erum við oft í öðruvísi líkömum heldur en við höfum í dag. Í þessum draumum birtast oft þeir sem við erum samferða í dag en þá eru þeir líka í annars konar líkömum og í annars konar umhverfi og hlutverki. Þessa drauma má þekkja á því að við könnumst ekkert við það sem er að gerast í þessum draumum, ekki útlitið á manneskjunni, atburðarásina, eða umhverfið, en það er samt eins og við þekkjum viðkomandi manneskju, eða manneskjur og orkan sem fylgir er oft til að hjálpa okkur að losa út samskonar orku eða vandamál með viðkomandi og við erum að fást við í núverandi lífi.

Draumar um fyrri líf geta oft verið mjög harðneskjulegir að minnsta kosti ef við lítum til þess sem við erum að upplifa í núverandi lífi. Við getum verið í svo allt öðrum hlutverkum og umhverfi að við eigum jafnvel erfitt með að ímynda okkur hvaðan allar þessar hugmyndir hafa komist inn hjá okkur og inn í draumana okkar. Hinar verstu martraðir geta einmitt verið úrvinnsla úr fyrri lífum.


Að biðja um draumaleiðsögn

Ef við erum í vandræðum með eitthvað í dagvitundinni þá getum við beðið um að fá leiðsögn um það í draumi eða draumum.

Draumatákn og túlkanir

Þegar við förum að taka betur eftir draumunum og við ásetjum okkur að muna þá eins vel og við getum þá byrjum við að fá aðstoð við að mun þá. Ef við eigum erfitt með að skilja drauma þá eru til draumaráðningabækur sem hjálpa til við að túlka tákn þó það sé ekki algilt að sömu táknin þýði það sama fyrir okkur og þau þýða fyrir þann sem skrifaði bókina.

Ef við viljum virkilega læra að túlka drauma okkar þá þurfum við að skoða vel hvaða orka er á bakvið drauminn, hvernig leið okkur með það sem okkur dreymdi, það skiptir miklu máli ef við viljum æfa okkur í draumaráðningum fyrir okkur sjálf að við fikrum okkur áfram með okkar eigin draumaráðningar.

Æfing skapar meistarann

Þegar við byrjum að skrifa niður drauma, eða æfa okkur í að muna þá og túlka hvað þeir þýða þá fer okkur að dreyma öðruvísi og það er eins og við öðlumst meiri færni við að lesa úr eigin draumum.

Draumatákn og túlkanir ganga á milli kynslóða

Það er líka oft þannig að draumatákn og túlkanir ganga á milli kynslóða, þegar við heyrum foreldra okkar tala um drauma og túlkun á þeim þá mun okkur oft dreyma sömu draumatáknin þar sem undirvitundin okkar veit að við höfum þessa vitneskju. Eins er það með draumaráðningabækur, ef við höfum einhverja bók við hendina og lesum hana oft og þekkjum táknin þá dreymir okkur oft eftir því en þó að þessi tæki geti hjálpað okkur á vissan hátt þá eru þau engan vegin tæmandi, því bæði dreymir okkur öðruvísi en foreldra okkar dreymdi vegna þess að orkan er orðin svo breytt og það á einnig við um þær bækur sem hafa verið gefnar út í sambandi við drauma.  Eins fer það líka eftir bakgrunni okkar hvaða draumatákn við fáum í draumi.  Ef við viljum breikka sjóndeildarhringinn hjá okkur við draumaráðningar þá er um að gera að æfa sig að ráða draumana sem mest sjálf en ef við eigum ekki gott með það þá er alltaf einhver sem hægt er að spyrja út í drauminn.

Persónuleg draumatákn

Þar sem við erum mjög upptekin af veðri og veðurfari hér á landi þá dreymir okkur oft fyrir breytingum á veðri. Mig dreymir t.d. mjög oft að ég sé að veiða fiska eins og lax eða sjóbirting ef það fer að kólna í veðri, ef fiskarnir eru  margir sem ég veiði þá verða kuldadagarnir margir en ef fiskarnir eru fáir kannski bara tveir eða þrír þá verða kuldadagarnir fáir.  Ef mig dreymir hlaupandi hesta þá eru þeir fyrir roki í mínum draumum, ef þeir eru rauðir þá verður rigning með rokinu.

Þegar mig dreymir peninga í veskinu mínu þá fæ ég peninga. Þegar mig dreymir að ég sé að taka upp kartöflur og uppskeran er góð þá veit ég að það er eitthvað gott að fara að koma til mín. 

Það hefur komið fyrir að mig hefur dreymt fyrir andláti nákominna eða þeirra sem ég þekki vel og þá hef ég náð mér í svört föt inn í fataskáp í draumnum. Ef það er alfatnaður þá veit ég að það er einhvern nákominn, en ef það er ekki eins nákominn þá fæ ég annað hvort svört föt á efri helming líkamans, eða þann neðri.  Einu sinn hefur mig dreymt kerti sem slökknaði á og þar sem sú manneskja var rétt um tvítugt þegar hún dó þá var mjög mikið eftir af kertinu þegar það slökknaði á því.

Þá hefur mig líka dreymt fyrir veikindum annarra eða eigin veikindum, oftast nær er þá um að ræða drauma þar sem er verið að synda í sundlaug, eða vatni. Ef vatnið er tært þá eru veikindi ekki alvarleg, en ef það er gruggugt þá verða þau erfið. Draumur um að synda í á eða ám finnst mér frekar vera um mótlæti heldur en veikindi. Best finnst mér að dreyma að verið sé að synda í sjó því þá er það meira um einhvers konar hreinsun, eða breytingum sem er þá góðs viti.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim


 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur