Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Englar og erkienglar


Við höldum stundum að við stöndum ein og óstudd í lífinu og finnst við oft vera einmana og hrædd þar sem við finnum ekki þann stuðning sem við þurfum í hinum ytri heimi. Það er þó þannig að áður en við fæðumst þá höfum við samið við ákveðnar sálir eða orkuverur sem sjá um leiðsögn, vernd og hjálp við allt mögulegt sem við tökum okkur fyrir hendur. Það sem við erum ekki alltaf meðvituð um þessar verur þá er gott að minna sig á að þær eru raunverulegar þó að þær séu ekki efnislegar heldur einungis orkulegar. Þessar hjálparverur er m.a. englar og erkienglar sem eru með okkur öllum stundum, alla lífsgönguna hvort sem er til verndar, leiðsagnar eða hjálpar. Annars konar hjálparverur eru líka ættingjar okkar eða vinir sem eru farnir í andlegu heimana og við getum líka kallað þá engla.

Það eru til margskonar englar, stórir englar, litlir englar, englar í mannsmynd og erkienglar. Erkienglarnir eru krafmiklar orkuverur sem sjá um vernd, heilun og allskyns hjálparstörf. Þeir/þær hafa sterkt ljóssvið og nærveru sem við getum augljóslega fundið eða skynjað. Það er líka hægt að sjá þá með innri sjón eða heyra í þeim með innri heyrn, skynjun flestra er þó yfirleitt þannig að finna hita, kulda, þéttings orku, kitl eða jafnvel eins og snertingu. Skynjunin getur líka verið litir, lykt, ilmur og einnig að finna ákveðið blóm, kristal eða fjaðrir sem vísbendingu um skilaboð frá englunum. Englaspil geta líka verið ákveðin leiðsögn um hvaða skilaboð englarnir vilja koma til okkar.

Í þessum skrifum ætla ég að nefna nokkra erkiengla og hvaða þeir geta t.d. gert til þess að hjálpa okkur í lífinu. Það er eins með þá og aðra hjálparverur að það er gott að biðja um það sem okkur langar til að njóta eða að fá. Biðjið og ykkur mun gefast.

Englar hafa ekki kyn, þeir geta verið hvort sem er karlkyns, kvenkyns, bæði eða hvorugt. Við getum sagt hvort sem er Mikael eða Mikaela, Uriel eða Uriela.

Það eru engin takmörk á því hvað hægt er að biðja englana um, ekkert verkefni er of stórt eða of lítið fyrir þá. Stundum eru verkefnin það stór að það tekur smá tíma að leysa þau og þá er gott að vera opin fyrir því sem við höfum beðið um og þakka þeim fyrir að hafa meðtekið það og brugðist við. Þegar við förum að taka eftir því hvernig hjálpin berst, í hvaða formi og hvernig svörin berast við spurningum okkar þá eigum við sífellt auðveldara með að sjá hvað verið er að færa okkur og leiðbeina með.

Stundum þarf að sýna okkur sömu hlutina, skilaboðin eða setningarnar oft og mörgum sinnum til þess að við skiljum það. Stundum breyta englarnir líka um aðferðir ef fyrri aðferðir hafa ekki dugað til þess að við skiljum hvað var verið að segja okkur. Þakklæti og eftirtekt á því sem vel er gert fyrir okkur er lykillinn að góðum samskiptum við englana. Þakklæti er mikilvægt í öllu okkar lífi. Vertu þakklát/þakklátur og lífið leikur við þig.

 

 


 

Erkiengillinn Mikael

Flestir sem hafa hugsað um og talað við engla hafa einhverja hugmynd um það hvað englarnir heita. Í okkar veröld er erkiengillinn Mikael sennilega þekktastur hann er engill ljóss og elds hreinsunar og umbreytingar. Þegar Mikael birtir sig í návist fólks sýnir hann sig oftast með bláan eða rauðan orkulit í kringum sig. Mikael er engill kraftsins, eldmóðsins, viljans, hugrekkisins, öryggis og verndar.

Mikael hefur mikið og stórt vænghaf, hann kemur inn á miklum hraða þegar kallað er á hann. Frumefnið sem Mikaels tengir okkur við er eldurinn/sólin og umbreytingarnar, hann sýnir sig oft með sverð sem táknar styrkleika hans í verund ljóssins. Orka Mikaels er heit og elskuleg þegar hann umvefur okkur með óskilyrtri ást sinni þá skiptir ekki máli í hvaða aðstæðum við erum. Mikael elskar og umvefur okkur orkunni sinni og umbreytir henni á augbragði.

Ef við viljum biðja Mikael um að hjálpa okkur og heila þá köllum við einfaldlega á hann með nafni og biðjum hann að gera það sem við þurfum á að halda í það skiptið. Það er hægt að biðja hann um svo margt. Það er hægt að biðja hann að sjá um vernd fyrir okkur sjálf, fyrir fjölskylduna, fyrir þá sem okkur þykir vænt um, fyrir dýrin okkar, fyrir bílinn á meðan við keyrum eða skiljum hann eftir, fyrir húsnæðið og umhverfið og þannig mætti lengi telja. Það er hægt að biðja hann um að hafa yfirumsjón með vernd og þar með setur hann jafnvel aðra engla á vaktina. Það er gott að biðja Mikael um að sjá um verndina ef við opnum fyrir orkuvinnu svo sem við hugleiðslur, heilun, miðlun, spádóma eða þegar verið er með námskeið eða fræðslufundi.

Það er hægt að biðja Mikael um allt sem okkur dettur í hug, til dæmis má biðja hann um styrk og hugrekki ef við erum að takast á við nýja hluti sem við höfum ekki gert áður. Þá er hægt að biðja hann að hjálpa okkur við að takast á við breytingar í lífinu þar sem við erum að fá inn nýtt fólk í líf okkar, eða leiða okkur að rétta fólkinu, hlutunum eða aðstæðunum. Við getum beðið Mikael um að hreinsa íbúðina, eða húsnæði, bæði heima hjá okkur og í vinnunni, eða þar sem við ætlum að koma inn. Ef við erum t.d. að fara á fund eða í veislur þá getum við beðið hann að fara á undan og hreinsa orkuna á staðnum áður en við komum. Það er líka hægt að biðja hann að hreinsa okkar eigin orku, hjálpa okkur með líkamann og líkamsstarfsemina og orkulegt jafnvægi í líkamanum. Það er hægt að biðja Mikael um að hjálpa okkur með sjálfsvirðingu og sjálfstraust.

Mikael er ávallt reiðubúin til að hjálpa okkur, þó að margir kalli á hann í einu þá getur hann verið á mörgum stöðum. Allt og sumt sem við þurfum að gera ef við þörfnumst aðstoðar hans er að kalla nafn hans og hann er á staðnum. Þá er bara að segja honum hvað okkur liggur á hjarta, hvað við viljum að hann hjálpi okkur með.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans Mikaels.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Mikael núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Mikael viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

Uriel

Erkiengillinn Uriel er líka þekktur með nafni, orkan hans er skjanna hvít, eða silfurhvít. Hann hefur afskaplega milda en þétta heilunarorku sem kemur jafnvægi á orku og umhverfi þess sem biður hann að vera í nærveru sinni. Uriel getur til dæmis hjálpað við að koma jafnvægi á og samþætta orkulíkamana og tengja þá við efnislíkamann í hárfínni stillingu.

Orka Uriels kemur inn með friðsæld og vellíðan. Hann hjálpar til við að jarðtengja okkur alveg inn í efnislíkamann og samþætta um leið alla orkulíkamana og orkustöðvarnar þannig að allt falli í réttan farveg.

Erkiengillinn Uriel hjálpar okkur að efla og tengjast jarðar frumefninu. Þegar við tengjumst þessum engli getum við fundið hvernig jarðtengingin eflist og styrkist. Í góðri jarðtengingu eigum við auðveldara með að tengja okkur guðlegri orku. Jarðtengingin er mikilvæg þar sem það hjálpar okkur að vera alveg til staðar inn í efnislíkamanum og vera til staðar í því sem við erum að takast á við hverju sinni. Þegar við erum vel jarðtengd þá eigum við betra með að muna hluti, gera það sem við þurfum að gera með fullri meðvitund, vera skýr í hugsun, vera til staðar fyrir fólkið okkar og framkvæma hluti sem þarf að framkvæma og koma inn í efnið.

Uriel er umbreytinga engill og getur hjálpað til við að umbreyta öllu mögulegu. Hann getur umbreytt því neikvæða í jákvætt þannig að við öðlumst skilning og sjáum hvað það neikvæða hefur fært okkur í þroska og visku.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans/hennar Uriel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Uriel núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Uriel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

Gabríel

Erkiengillinn Gabríel erkiengill er einnig tölvuert þekkt/ur undir nafni. Ljós Garbriel er blátt eins og himinninn í mörgum litabrigðum. Gabríel styður tengingu við frumefnið vatn og því sem flæðir í líkama okkar, t.d. eru þrír fjórðu líkamans vatn og einning jörðin sjálf. Þar sem Gabríel hjálpar okkur að tengjast vatns frumefninu þá getum við beðið hana/hann um að hjálpa okkur að uppræta og heila gamlar tilfinningar í tilfinningalíkama og magastöð. Við getum beðið hana/hann að efla og heila vatnið sem við drekkum, heila vatnið sem við sjóðum matinn okkar upp úr eða notum í aðra matargerð eða við bakstur. Þá getum við beðið hana/hann um að heila okkur á meðan við erum í baði eða stöndum undir sturtunni, eða förum í sjóbað/sjósund. Við getum beðið hana að blessa allt vatn sem við notum og að það skili sér sem hreinast út í náttúruna á nýjan leik. Þá getum við beðið hana um heila okkur, með regninu þegar við erum úti í rigningu. Ef við eigum plöntur eða nýgræðing sem þarfnast regns þá getum við beðið Gabríel um að plantan fái vatn annað hvort úr jarðveginum eða með regnvatni.

Það er hægt að biðja Gabríel um að hjálpa okkur við listir, alls kyns sköpun, skrif, blaðamennsku, dagbókarskrif, eða ef við erum að koma fram opinberlega. Gabríel er engill sem getur hjálpað okkur við að heila hjartasárin. Þegar við erum tilbúin að græða hjartasárin þá köllum við á Gabríel og biðjum hana að fylla hjartað af orku ástar og hlýju í stað sársauka þannig að við getum geislað ást og kærleika til allra og alls sem er.

Það er hægt að biðja Gabríel um að hreinsa orkuna í því húsnæði sem við erum í, en það á við um alla erkienglana. Gabríel getur gefið okkur leiðbeiningu um hver tilgangur okkar er í lífinu, ef við vitum ekki hvert við stefnum og það er talið að hún sé engill uppljómunarinnar.

Ef það eru stórfelldar breytingar framundan eða við erum að fara að breyta um starf eða breyta lífsháttum þá er gott að biðja Gabríel um leiðsögn hún er ávallt tilbúin að leiðbeina okkur og styðja.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hennar/hans Gabriel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Gabriel núna þá biður þú hana einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Gabriel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hana um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hún geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

Rafael

Erkiengillinn Rafael er oft auðkenndur með fjólublá litnum, en hann er líka talin hafa rafgræna eða bleika orku umhverfis sig. Rafael stýrir rafsegulkraftinum og lífskraftinum. Rafael hjálpar okkur að tengjast loft frumefninu.

Það er afar misjafnt hvernig englarnir sýna sig hjá hverjum og einum, litir, útlit og lykt, þó að þú sjáir hann á einhvern annan hátt en hér er lýst þá er það alveg rétt sem þú sérð, það að treysta innsæinu sínu er eitt það mikilvægast sem við gerum.

Rafael getur hjálpað okkur með hugsanir okkar ef við erum tilbúin að leysa upp og sleppa gömlu hugsunum og hugsana mynstrum. Það er mikill léttir þegar við sjáum hvar við erum að endurtaka gömul hugsanamynstur og hvering við getum breytt með því að ákveða að við viljum það ekki lengur, þá getum við beðið Rafael um að hjálp við að losa þau mynstur út úr hugarlíkamanum, fyrir aftan höfuðið og í höfðinu sjálfu. Þá getur hann hjálpað við að rjúfa hringrásar tengingu á milli hugsana og tilfinninga sem tengjast magastöð og sólarplexus. Hugurinn tengist beint inn á sólarplexus sem er í raun orkustöð krafts okkar og framkvæmdarvilja og framkvæmdarstyrks, þannig að það er ekkert lítið atriði að nota hugann jákvætt til þess að hafa þessa orkustöð í jafnvægi.

Við getum beðið Rafael um að hjálpa okkur við að kyrra hugann og að við verðum skýr í hugsun. Það getur verið gott að kalla á hann þegar við erum að gera verkefni eða fara í próf.

Sumir telja að Rafael sé engill vísinda og þekkingar og að hann sé með þeim sem vinna við að finna upp og smíða tæknilega hluti. Við getum beðið hann að hjálpa okkur ef við erum í vandræðum með tölvuna, bílinn eða annað sem tengist tæknilegum hlutum.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans Rafael.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Rafael núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Rafael viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 

 


 

 

Shamúel

Erkiengillinn Shamúel birtir sig oft í bleikum orkulit, hún er engill ástarinnar, hjartahlýjunnar, samúðar og skilnings. Þetta er erkiengill sem getur hjálpað okkur með ástina í hjartanu, óskilyrta ást þar sem við elskum innilega án þess að hugsa um að fá eitthvað til baka. Hún getur hjálpað okkur að elska okkur sjálf á þann hátt sem við myndum elska aðra manneskju sem okkur þætti mjög vænt um og hún getur hjálpað okkur að finna ástina í lífinu okkar (finna maka sem passar orkunni okkar). Þú getur líka beðið hana um að vernda barnið þitt í móðurkviði og að færa þér réttu sálina/sálirnar þegar þig langar að eignast barn, eða börn.

Þessi erkiengill getur hjálpað okkur að losna við ótta, afbrýði, reiði og aðra lága orkutíðni með því að umbreyta orkunni. Þegar við köllum á Shamúel þá getum við beðið hana um að losa okkur við allt sem tengist lágri orkutíðni og að veita okkur vernd fyrir henni frá öðrum. Ef við erum hrædd við eitthvað í orkunni eða einmana þá getum við beðið Shamúel að koma og vera með okkur. Þá getur hún hjálpa okkur að finna og hitta á rétta fólkið og hlutina í lífinu. Hún getur hjálpað okkur ef við höfum týnt einhverju. Þetta eru einungis nokkur atriði sem ég tel hér upp en möguleikarnir eru óteljandi á því hvað englarnir geta og vilja gera fyrir þig.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hennar Shamúel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Shamúel núna þá biður þú hana einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Shamúel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hana um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hún geri fyrir þig, þú átt valið........

 

 


 

Jófíel

Erkiengillinn Jófíel birtir sig oftast í gull-gulum orkulit. Hún/hann er erkiengill upplýsinga, skilnings og visku. Hún er getur hjálpað okkur að taka eftir nýjum hugmyndum sem við fáum og að hrinda þeim í framkvæmd. Þegar við fáum hugmynd að því að skapa eitthvað t.d. að mála mynd, skrifa eitthvað, sauma, föndra, búa til úr leir, byggja hús, sólpall, stól eða hvað það er við erum að skapa. Við getum beðið Jófíel að hjálpa okkur með að fara inn í flæðið við sköpunina til þess að við séum frjórri við verkið og náum árangri sem veitir okkur sjálfum næringu og ánægju.

Jófíel færir okkur líka húmor með gleði og hlátri, við getum beðið hana um að létta orkuna og andrúmsloftið hvar sem við erum stödd. Jófíel getur framkallað nokkurs konar hláturduft sem er eins og silfurregn eða regnbogalit regndrífa sem fær fólk til að gleðjast innilega og hlæja. Þannig er hægt að létta andrúmsloftið á þeim stöðum sem við erum á ef það er þörf á því, það er ótrúlegt hvað þetta getur virkað vel. Ef það er verið að finna fyrir skammdegis þunglyndi er gott að kalla á Jófíel og biðja hana að létta orkuna í umhverfinu, gefa inn gleði og léttleika orku í staðinn.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hennar Jófíel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Jófíel núna þá biður þú hana einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Jófíel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hana um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hún geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

Kassíel

Erkiengillinn Kassíel er silfurhvít, hún er engill friðsældar, hógværðar og þakklætis. Orka þessa engils er mjúk og fíngerð en afar öflug, hún hefur róandi áhrif á þá sem eru í nærveru hennar, það er gott að kalla á hana fyrir börnin þegar þau eru að fara að sofa.

Kassíel færir okkur jafnvægi þegar við höfum verið í sveiflukenndu ástandi, þar sem við sveiflumst t.d. úr mikilli gleði yfir í dýpstu sorg, þar sem hlátur breytist í grát. Þegar það gerist þá getum við kallað hana inn til að hjálpa okkur að milda, mýkja og hægja á sveiflunum, þannig að að okkur líði betur og við finnum frið innra með okkur.

Finndu friðsældina innra með þér, þú ert í friðsældinni á þessari stundu, þegar þú lest þessi orð erkiengilsins Kassíel. Losaðu út ótta og finndu þess í stað frið og öryggi, sátt og vellíðan. Allt er eins og það á að vera, trúðu því að þú eigir allt það besta skilið, alltaf.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hennar Kassíel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Kassíel núna þá biður þú hana einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Kassíel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hana um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hún geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

 

Zadkiel

Erkiengillinn Zadkiel birtir sig oft með fjólubláum lit. Orkan hans geislar af gleði, ást, frelsi og samúð. Honum hefur verið veitt leyfi til að útdeila fjólubláa loganum sem er gerður til þess að hjálpa til við að losa okkur við það sem er ekki að lengur að þjóna því besta fyrir okkur. Með því að setja í logann allt það sem við viljum losa okkur við þá getum við umbreytt lífi okkar og þar með fengið inn nýjungar og meira frelsi og gleði.

Zadkiel er sagður geta hjálpað okkur að elska okkur svo mikið að við getum fyrirgefið, en við þurfum að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum til þess að finna frelsið í því að þurfa ekki að burðast með gamlar minningar og sorgir. Það er ekki alltaf auðvelt að stíga það skref að fyrirgefa en Zadkiel getur hjálpað okkur að stíga fyrstu skrefin í þá átt með því að lyfta orkunni sem tengist þeim atburðum og viljanum til að sleppa. Ekkert er of slæmt til þess að geta fyrirgefið, ekkert er of lítið til þess að geta fyrirgefið, það er gott að geta sleppt og þurfa ekki að burðast með þá poka sem fylgja reiði og gremju. Þegar við höfum stigið þetta skref þá finnum við fyrir friði og létti.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans Zadkiel.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Zadkiel núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Zadkiel viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 


 

 

Metatron

Erkiengillinn Metatron er talin vera nokkurs konar konungur englanna, vegna þess að hann getur hjálpað okkur mannfólkinu að tengjast æðra sjálfinu og guðsneistanum hið innra sem hið ytra.

Metatron er sagður vera sá sem hefur yfirumsjón með akasíu skránum en þar eru skráðar allar upplýsingar um okkur frá því að sálin varð til og fram að þeim tíma sem við erum á núna.

Akasíu skrárnar geyma m.a. öll göng um okkur í þeim ótal jarðvistum sem við höfum tekið á jörðinni. Við eigum greiðan aðgang öllum jarðlífum sem við höfum lifað hér á jörðinni í núverandi jarðvist en í öðrum jarðvistum höfum við einungis haft aðgang að 7- 8 jarðlífsskrám. Ef við viljum fá að sjá eitthvað ákveðið líf eða af hverju eitthvað er eins og það er í lífinu þá getum við beðið Metatron erkiengil um að leyfa okkur að fá að sjá í akasíuskrána hvað er að valda þessu.

Þá er Metatron talin geta hjálpað okkur að skapa jafnvægi í karl - og kvenorkunni hjá okkur. Það hafa allir í sér báða þessa þætti, karl - og kvenorku eða, yang og yin. Það er sagt að karleðlið sé í hægri hlið líkamans en kveneðlið í vinstri hlið líkamans. Þá er hægt að tengjast kven - og karlorkunni í gegnum ída og pingala orkubrautirnar sem eru sitt hvoru megin við hryggjarsúluna, karl - og kvenorkuna má einnig skynja í öllum orkustöðvum líkamans.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans Metatron.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Metatron núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Metatron viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 

 


 

 

Melkísedek

Erkiengillinn Melkísedek er af sumum talin vera faðir englanna. Ljósið hans er alveg hvítt, eða silfurhvítt. Mikill heilunarkraftur og þéttleiki orkunnar fylgir erkienglinum Melkísedek. Í allri tengingu við englana þar sem ég hef haldið námskeið eða verið með hugleiðslu með englunum þá hefur það alltaf verið Melkísedek sem hefur mætt mínum innri augum kvöldið áður til þess að staðfesta að hann ætlar að vera með í þessu verkefni. Melkísedek hefur sterk áhrif á umhverfið þegar hann mætir á svæðið hann getur t.d. hjálpað okkur með opnun á orkustöðvarnar og flæðið innan þeirra.

Melkísedek aðstoðar við þróun heimsins og ekki bara þróun heimsins heldur alls alheimsins. Margir sem eru á leið til uppljómunar þekkja eflaust til þessa engils vegna þess að hann hjálpar til við að vekja fólk til þess sem því er ætlað að gera. "Óttist ekki að halda áfram þar sem ég er hér til að leiðbeina ykkur að ljósi þróunarinnar. Ég er Melkísedek. Hann hefur þekkingu á leyndardómum "Lífs blómsins" eða Flower of Life, en það er tákn sem hefur fundist á helgum stöðum víða í heiminum.

Slakaðu á, lokaðu augunum, hlustaðu á andardráttinn. Finndu hvernig þú ert umvafin/n orkunni hans Melkísedek.

Ef þú vilt tengjast erkienglinum Melkísedek núna þá biður þú hann einfaldlega um að koma og vera hjá þér hér og nú. Melkísedek viltu koma og tengjast mér núna og viltu leyfa mér að finna að þú ert með mér. Taktu eftir því hvernig þér líður..... er eitthvað að breytast? ............Finnur þú hvernig orkan umvefur þig?.........Viltu biðja hann um eitthvað, spyrja um eitthvað... Hvað viltu að hann geri fyrir þig, þú átt valið........

 

 


Englar í umferðinni

Þegar ég fór að kynnast englunum betur og hvað þeir geta gert þá fór ég að biðja þá um að veita mér hjálp í umferðinni. Þá bið ég verndarengla um að vera fyrir framan og aftan bílinn minn og allt í kring um hann. Ég bið þá um að passa að hægja á bílum fyrir aftan mig ef þeir koma of nálægt og ég bið þá um að passa að ég hægi tímanlega á mér fyrir aðra sem eru fyrir framan mig. Með þessu er ég að biðja þá um að aðstoða mig á allan hátt en auðvitað þarf ég líka að passa upp á það hvernig ég keyri. Ég get ekki keyrt eins og mér sýnist og treyst svo algjörlega á að englarnir passi mig. Ég bið þá að minna mig á ef ég keyri of hratt, er ekki með hugann við aksturinn, eða að vara mig við ef það eru hættur framundan. Ég get alveg sagt ykkur það hér og nú að það er oft bankað í öxlina á mér ef hraðamælirinn er farinn að sýna óþarflega háar tölur hjá mér. Ég bið lika um þessa vernd þegar ég er með öðrum í bíl, það er að segja bið engilinn að vera fyrir fram og aftan bílinn. Ég legg verndina sem sagt í hendurnar á englunum og reyni svo að keyra skikkanlega, það er mitt framlag til öryggis míns og annarra í umferðinni. Auðvitað geta alltaf orðið óhöpp og slys en ég get þá allavega sagt að ég gerði það sem ég gat til að vernda mig og aðra.

 

 


 

Tenging við englana

Þó að við tölum um engla sem karl - eða kvenkyns þá eru þeir í raun og veru kynlausir þeir hafa ekki ákveðna karllega orku eða kvenlega orku. En stundum tökum við okkur til og kvengerum þá eða karlgerum þá en það er líka val hvers og eins hvort og hvernig það er gert.

Það er auðvitað endalaust hægt að biðja englana um eitt og annað sem getur hjálpað okkur í lífinu það sem ég set hérna fram er bara lítið brot af því sem hægt er að biðja þá um. Þó að ég setji ákeðin atriði inn hjá hverjum og einum þá er það ekkert bundið við þann engil, það má biðja hvaða engil sem er um hvað sem er, við þurfum bara að láta hugmyndaflugið ráða.

Það er hægt að kalla á englana hvort sem við erum úti í náttúrunni, í búðinni, vinnunni, skólanum, keyrandi, eða heima við eldhúsborðið. Það er bara hvar okkur þykir þægilegast að vera og hvað viljum við biðja englana um að hjálpa okkur með, þeir eru alltaf tilbúnir til að veita alla þá aðstoð sem við óskum eftir hvort sem það er að nóttu eða degi, ekkert verkefni er of stórt og ekkert verkefni er of lítið í þeirra augum.

 


 

 

Efst á síðu

Pýramídahugleiðslan

Ýmislegt

Heim

 

 

 


© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur

 
Seljalandsfoss