Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Leiðin sem Margaret McElory valdi að ganga

19. júlí 2006

Boðskapur Maitreya - miðlað af Margaret McElory

Margaret fékk bréf frá aðila sem spurði af hverju hún hefði ekki valið að vera andlegur kennari eins og Sai Baba eða einn af jógunum á Indlandi.  Þó hún hafi ekki svarað þessari spurningu þá ætla ég að gera það.

Til þess að vera heimskennari þá þarf ég að þekkja heim jarðarinnar.  Ég hef verið í andlegu víddinni í langan tíma. Þó að við höfum engan tíma í okkar heimi þá nota ég orðið „tími“ til útskýringar fyrir ykkur.  Við í andlega heiminum höfum tilhneigingu til þess að gleyma því hvernig lífið er í ykkar heimi. Við lifum í núinu og allt sem við gerum er gert í núinu.  Þið megið ekki misskilja mig, það táknar ekki að við gleymum ykkur og því sem þið eruð að gera. Það er ekki þannig, en við erum mjög upptekin af okkar vídd.  Í okkar heimi höfum við ekki (lægra) sjálf og því höfum við tilhneigingu til þess að gleyma því hvað (lægra) sjálfið gerir og hvernig það virkar. Við vitum líka að það er fylgst með ykkur af verndurum ykkar frá andlega sviðinu og öllum þeim sem vinna með ykkur á jörðinni frá okkar heimi, við grípum ekki inn í fyrr en við erum beðin um það.

Margaret kaus að dvelja á jörðinni, vera af þessum heimi, ganga í gegnum margskonar reynslu, eins og að eiga barn og þurfa að gefa það til ættleiðingar, fara í fóstureyðingu, vera skuldug, eiga í sambands erfiðleikum, hafa öflugt (lægra) sjálf, vanta öryggi, hafa lélegt sjálfsmat og ýmislegt fleira. Hún kaus að gera þetta til þess að ég gæti upplifað lífið á jörðinni í gegnum hana.  Þó að ég hafi aðeins verið með henni stuttan tíma af lífi hennar á jörðinni, þá hef ég verið með henni síðan hún fæddist, fylgst með og beðið eftir því að hún kláraði lexíurnar sínar svo að ég gæti hafið vinnu mína með henni á þann hátt sem okkur var ætlað. Það var ekki alltaf auðvelt fyrir hana þar sem hún hefur viljað komast hjá skuldbindingum sínum, en hún hélt alltaf áfram og núna erum við tilbúin að hefja vinnu okkar til að aðstoða jörðina.

Já hún hefði getað valið að verða jógi í ashram á Indlandi, en hún valdi það ekki. Í staðinn valdi hún að vera í heiminum með öllum hans sársauka, þjáningum, gleði, hamingju, átökum, friði og þess háttar. Hún valdi að upplifa marga hluti til þess að læra um lífið á jörðinni. Þetta er mér mikil hjálp því að þó að ég hafi samúð og kærleika til alls mannkyns vegna þess sem þau hafa valið sér, þá get ég ekki þekkt sársaukann, þjáninguna eða aðrar tilfinningar án þess að hafa upplifað þær. Margaret valdi að gera þetta til að hjálpa mér. Hún kaus að vera tilfinningavera og öðlast þessa lífsreynslu til þess að kynnast lífinu sjálfu.  Þegar ég finn til samúðar og kærleika vegna sálar þá finnur hún það líka. Við erum eitt í skilningi okkar á þessum málum eða vandamálum. Það er yndislegt að vinna með sál sem getur gert þetta.

Í okkar heimi höfum við aðgreinst frá jörðinni, en það táknar ekki að við vitum ekki af vandamálum ykkar eða verkefnum. Við vitum af þeim. Málið er að í okkar heimi getum við ekki tekist á við ykkar mál. Við getum gert það í gegnum miðil og þá aðeins þegar miðillinn okkar hefur hækkað tíðni sína til að tengjast okkur, þá getur sönn heilun átt sér stað á líkamlegum, huglægum og andlegum stigum. Margaret hefur valið að upplifa það sem hún gerði, hún ÞURFTI ekki að gera það, hún varð hissa á því. Þó að hún hafi fæðingarkort (stjörnukort) sem sýnir karma hennar og lífsleið þá þurfti hún ekki að gera þetta. Hún hafði skilið jarðlífið að baki sér en kaus að koma aftur til að aðstoða mig í vinnu minni og líka að kenna mörgum öðrum í leiðinni. Hún vissi þetta ekki sjálf fyrr en hún skrifaði það, en þetta er sannleikurinn og hann er aðeins hægt að segja núna vegna þess að hún hefur lokið þeim lexíum sem hún kaus að læra.

Til þeirra sem undrast á því af hverju Margaret valdi að taka þátt í jarðlífinu, þetta er ástæðan. Vegna vals hennar og vegna ákvörðunar hennar á því að taka þá endurfæðingu sem hún kaus þakka ég henni einlæglega, það sama gera allir meistararnir í okkar heimi. Hún veit það líka að hún hefur lokið sínum lexíum af því að nú er verið að launa henni fyrir alla sína hollustu og erfiðu vinnu á svo margan hátt.

Maitreya

 

Kennsla Maitreya

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is