Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Við getum huggað okkur sjálf

 

18. október 2012

Það sem við köllum þunglyndi, eða depurð eru tilfinningar sem liggja oft mjög djúpt í sálarminninu/undirvitundinni og eru komnar upp til að minna á sig í yfirborðsorkunni til þess að hægt sé að viðurkenna þær, skoða, vinna úr þeim og sleppa. Það getur verið erfitt að þola þessar tilfinningar þegar þær koma upp og þá líðan sem þeim fylgja og þar með að þola þann part af okkur sjálfum sem líður illa, þess vegna reynum við oft að forðast þessar tilfinningar og hundsa þær þegar þær koma upp.

Það er þó mikil blessun þegar þær loksins láta sjá sig upp á yfirborðinu vegna þess að þá erum við tilbúin að leysa þær upp og sleppa þeim. Við getum reynt að finna hvar þær liggja og viðurkennt þær fyrir okkur sjálfum og reynt að fara alveg inn í tilfinninguna og upplifa hana og losa hana þannig upp. Hvað er hún að segja? Hvar er hún í líkamanum? Ef við gerum það, tökum þá eftir því hvort það koma myndir upp í huganum á því augnabliki sem við reynum að finna út hvað þær eru að segja. Hvort við fáum myndirnar og svörin núna eða síðar,eða hvort við fáum svörin í draumi skiptir ekki öllu máli. Það getur verið að við fáum svörin í draumi vegna þess að þegar við erum í þeirri vanlíðan sem þunglyndi og depurð fylgja þá eigum við ekki svo auðvelt með að heyra svörin í dagvitundinni, vegna þess að skýjahulan/þungu hugsanirnar liggja oft yfir höfðinu, og blokkera því höfuðstöð, ennisstöð/þriðja augað og rótarstöð, tenginguna við jörðina.

Ef við getum gert eitthvað sem tengir okkur betur við jörðina til dæmis eins og að fara út að ganga eins lengi og við mögulega treystum okkur til þá hjálpar það við að komast betur inn í líkamann og jarðtengjast og þannig náum við okkur úr hringhugsunum hugans og tilfinninga. Það getur líka hjálpað til að fara upp að tré og standa við það, snúa bakinu í það og hugsa okkur að við séum eins og tréð, með rætur sem liggja djúpt ofan í jörðina, það eitt jarðtengir og um leið á hugurinn erfiðara með að spinna upp söguþráðinn sem við erum búin að hlusta svo oft á á meðan við erum í þessari tilfinningu.

Ef við getum aftur á móti verið á staðnum og skoðað með sjálfum okkur hvaða tilfinning kemur upp þegar við höfum beint athyglinni allri að þeirri líðan sem við erum að upplifa og SPYRJUM okkur sjálf (það er mikilvægt) af hverju okkur líður svona? Ef við finnum að tilfinningin er á ákveðnum stað í líkamanum þá getum við þakkað henni fyrir að koma upp á yfirborðið og við getum þakkað henni fyrir að hún skuli vera tilbúin að koma í ljós svo að við getum sagt henni að hún megi yfirgefa líkama okkar og orku og leysast upp og fara.

Þá er einnig gott að þagga niður í huganum þegar hann kemur með neikvæðar sögur og hryllingsmyndir fyrir framtíðina með tilheyrandi tilfinningarússíbana að fara með jákvæðar staðhæfingar, stoppa vanamynstur hugans um leið og það byrjar að spinna. Það er líka hægt að fara inn í dulvitundina með hugann og séð okkur sjálf sem lítið barn og skoðað hvernig þessu barni líður, þetta er þitt eigið barn (þú) og þú getur hugsað þér að ef barninu líður ekki vel þá getur þú komið til þess sem fullorðin einstaklingur og huggað barnið og talað við það með ástúðlegum orðum, eins og þú myndir hugga lítið barn sem þú þekkir. Þú ert barnið og þú ert sá fullorðni sem huggar, þú getur gert þetta að leik þar sem þú ferð og hittir barnið aftur og aftur í huganum (þess vegna daglega) og sérð hvernig því líður og hvernig líðan þess breytist.

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur