Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Með ofurnæmnina í farteskinu

 

Það var ekki fyrr en ég las bók norsku englaprinsessunnar sem ég gerði mér grein fyrir því að ofurnæmni er ein af birtingarmyndum skyggnigáfunnar, svona einskonar orkulegt út um allt þriðja auga. Ég hef aldrei talið mig vera skyggna þó að ég sjái eitt og annað með innri sjóninni. Næmnina fyrir orku hef ég aftur á móti alltaf haft þó að ég hafi alls ekki gert mér grein fyrir því fyrr en hin seinni ár að það eru ekki allir svona. Sumir hafa kannski lokað á það með harðri skel og ég var vissulega ein af þeim sem reyndi það og reyndi að afneita því hversu viðkvæm ég er fyrir orku.

Mér hefur liðið best úti í náttúrunni frá því að ég var barn, ein með sjálfri mér fannst mér ég vera frjáls og ekkert væri að trufla mig en um leið og ég var komin í návist annarra þá fannst mér á einhvern hátt sem ég væri aðþrengd og ekki ég sjálf. Ég þakka fyrir að ég skildi fá að alast upp án alls þess áreitis sem börn þurfa að takast á við í nútímanum, ég veit ekki hvar ég væri stödd ef ég hefði þurft að hafa sjónvarp yfir mér öll kvöld og alla daga þegar ég var barn þar sem ég skynja mjög sterkt alla orku sem það sendir út, ég bókstaflega fer inn í sjónvarpsefnið og upplifi þær tilfinningar sem þar eru í gangi.

Með þessa ofurnæmni í farteskinu er oft erfitt að útskýra af hverju maður vill ekki fara á skemmtanir, af hverju maður forðast að fara á staði þar sem áfengi er haft um hönd, af hverju maður vill frekar vera heima með sjálfum sér heldur en að vera í félagsskap sem manni finnst engan tilgang hafa, af hverju maður vill eiga góða nágranna, o.s. frv. Það er vegna þess að ég skynja þær tilfinningar sem eru í gangi hjá fólki og oft verða meiri tilfinningasveiflur þar sem fólk kemur saman til að skemmta sér.

Þessu ofurnæmi fylgir líka ofurheyrn, þegar ég flutti í nýtt húsnæði fyrir um það bil ári síðan þá voru öll hljóð í umhverfinu algjörlega skerandi að mér fannst. Ég heyrði í rafmagninu, ég heyrði í ofnunum, ég heyrði allskyns hátíðnihljóð sem ég var ekki vön að heyra þar sem ég bjó áður. Ég hélt jafnvel að þetta hlyti að vera eitthvað sem fyrri eigendur hefðu alltaf heyrt en ekki minnst á, en þau könnuðust ekki við neitt og í dag er ég ekki lengur að heyra þessi hljóð, ég hef aðlagast þeim. Allur hávaði er mér mjög erfiður og mér finnst stundum eins og ég þurfi að halda fyrir eyrun þegar fólk talar hátt þó að því finnist það tala í eðlilegri tóntegund.

Það sem ég er að læra núna um þessar mundir er að hætta að dæma mig fyrir að vera svona, að þykja vænt um að ég hef þessa hæfileika og að ég skuli hafa ákveðið að nýta mér þá til þess að skynja umhverfi mitt með þeim hætti sem þessi tegund af skyggnigáfu hefur gefið mér.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is