Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Einfaldleiki blómadropa

 

Blómadropar eru í raun og veru kraftur náttúrunnar í vökvaformi sem heldur þó þeirri tíðni sem hver planta gefur. Það er mjög einfalt að búa til blómadropa en til þess þarf smá þolinmæði og vilja til þess að fara út í náttúruna og velja þær jurtir sem við viljum setja þær í vatn og síðan á flöskur. Blómadropar geta hjálpað okkur í lífinu ef við kjósum að nýta okkur þann kraft sem náttúran gefur okkur með þessum hætti.

Til þess að búa til blómadropa þarf einfaldlega að týna blóm þegar þau eru í fullum blóma. Það er misjafnt á hvaða tíma sumarins blóm blómstra og til þess að finna það út eru til fjöldinn allur af bókum og svo má auðvitað fletta því upp á netinu.

Þegar blómadropar eru búnir til þá þarf hreint vatn, glerskál eða krukku, hugleiðslu og smá þolinmæði á meðan vatnið er að taka í sig tíðni blómsins. Áður en blómið er slitið upp er gott að byrja að tengja sig inn á náttúruna og það blóm sem á að týna til þess að fá að vita hvaða blóm er tilbúið til þess að gefa okkur tíðnina sína. Þá er hægt að setjast í nálægð þess og byrja að klippa blómgaða hlutann af og setja hann í vatnið í skálinni með hreina vatninu. Þegar það hefur verið gert er gott að láta þau liggja í vatninu í ákveðin tíma og á meðan er hægt að sitja í þögn og hugleiða á hvaða tíðni og orku það muni færa okkur. Stundum þurfum við ekki einu sinni að fara út í náttúruna það er hægt að gera blómadropa í garðinum heima ef við höfum t.d. aspartré, morgunfrú, graslauk eða önnur tré eða jurtir sem vaxa í garðinum.

Það er talað um að gera blómadropablöndu þegar sólin skín en þar sem það er mjög bjart hér á landi og oft fáir sólardagar þá er það ekkert skilyrði. Það er heldur er aftur á móti ágætt ef það er sól, sérstaklega ef við tökum alla þrjá klukkutímana í að hugleiða á blómið á meðan beðið er eftir að tíðni þess skili sér í vatnið. Þegar blómavökvinn er tilbúin þá er hann settur á glerflöskur (ekki plast) og síðan er hann þynntur út með meira vatni, því meiri þynning, því meiri virkni samkvæmt smáskammtafræðinni. Til þess að blómavatnið geymist sem best er sett smá eðalkoníak út í vatnið en það virkar eins og rotvarnarefni, þannig er hægt að geyma dropa í mörg ár.

Það getur verið skemmtilegt að gera blómadropa þar sem það tengir mann ennþá betur við náttúruna og þá krafta og orku sem hvert blóm gefur. Þegar droparnir eru gerðir er gott að hafa í huga að virðing við náttúruna og slíta ekki óþarfa mikið af blómum upp. Höfum það í huga að það þarf ekki nema nokkra knúpa til að búa til góða blöndu.

Blómadroparnir voru fyrst uppgötvaðir og þróaðir af lækni sem hét Edward Bach en hann fór að taka eftir því þegar hann var að vinna með fólk að blóm gátu haft áhrif á líðan þess og þá sérstaklega tilfinningalega líðan. Hann uppgötvaði líka að sjúkdómar eða líkamleg vanlíðan tengist alltaf tilfinningum.

Blómadropar hafa verið notaðir með góðum árangri frá því að Bach uppgötvaði þá fyrst í kringum 1930 þó að eflaust hafi þeir verið notaðir frá örófi alda. Það gæti t.d. verið að blóm hafi verið sett í vatn og vökvinn hafi síðan verið drukkinn t.d. sem te og þannig hafi tíðniáhrif blómsins virkað á þann sem drakk, en tíðni blómsins er aðeins að virka ef blómið hefur verið sett í vatn á meðan það er í blóma lífsins. Ef blóm eru þurrkuð og drukkin sem te þá er ekki sama tíðnin í því og við blómavatnið. Tíðnin í blómavatninu er viðkvæm þannig að það þarf að passa að setja ekki puttana ofan í vatnið eða láta neitt vera í snertingu við það nema að það sé alveg tandur hreint.

Edward Bach uppgötvaði mátt blómanna í upphafi með því að setjast í nálægð þeirra og skynja þá krafta sem þau gáfu honum. Hann uppgötvaði þá að hann gæti nýtt krafta þeirra á sama hátt í lækningaskyni fyrir skjólstæðinga sína. Á sama hátt getum við ef við viljum finna og nýta okkur tíðni og virkni blómanna sest við hliðina á þeim í náttúrunni. Þegar það er gert þá kemur einnig til áhrifa lita, ilms, tengingar við blómadífurnar og orku blómanna á orkusvið okkar.

Það hafa verið unnar 38 blómadropategundir í Bach blómadropunum og hver tegund vinnur á mismunandi sviðum. Til þess að taka nokkur dæmi þá vinnur Öspin til dæmis á ótta sem á sér engar skýringar, ótta sem engin ástæða virðist vera fyrir.

Eikin er fyrir fólk sem stendur uppi sama hvað á dynur og gefst ekki upp fyrr en það hreinlega dettur niður örmagna. Þetta er fyrir þá sem hafa nagandi samviskubit ef þeir verða veikir af því að aðrir reiða sig á þá.

Mimulus /apablóm er hægt að taka inn þegar fólk veit ástæðuna fyrir óttanum. Ef það er til dæmis ótti við að tala á fundum, koma fram á opinberum vettvangi, ótti við það sem leynist í myrkrinu, ótti við dýr eða að fara í flug og þess háttar.

Vervain getur verið gott að taka inn þegar fólk hefur mjög stífar skoðanir og reynir með sannfæringar krafti sínum fá aðra á sömu skoðun, þeir sömu geta átt erfitt með að hlusta á sjónarmið annarra og eru oft undir miklu álagi og streitu þar sem þeir eiga erfitt með að gefa eftir og slaka á. Þessir blómadropar eru mjög góðir fyrir börn sem eiga erfitt með að slaka á, þurfa að vera stöðugt á ferðinni, droparnir hjálpa þeim að kyrra hugann og að róa sig niður.

Það eru til svokallaðir áfalladropar í Bach blómadropasettinu en þá er fimm tegundum blandað saman í eina flösku, í áfalladropunum er bæði til sprey og krem, hvoru tveggja má nota útvortis, en dropana má bæði taka inn og bera beint á sig. Það er líka hægt að búa til sína eigin blöndu í spreyi ef einhver á nokkrar tegundir af blómadropavatni.

Það eru líka til áfalladropar í íslensku blómadropunum, ef fólk lendir í aftanákeyrslu og fær hálshnykk þá er gott að bera Lífsbjörgina á svæðið sem hefur orðið fyrir hnjaski og taka hana jafnframt inn á nokkurra mínútna fresti. Þetta á við um hvaða áföll sem er hvort sem það eru börn eða fullorðnir sem verða fyrir þeim. Lífsbjörgin hentar í öllum þeim tilfellum sem fólk lendir í áfalli því með því að taka hana inn þá er verið að losa áfallið úr orkunni. Lífsbjörgin getur hjálpað til þegar manneskja, eða dýr er í taugaáfalli, eða sjokki. Það er hægt að nota blómadropana á ýmsan hátt, það er hægt að taka nokkra dropa beint í munninn undir tunguna, það er hægt að setja nokkra dropa í vatn, ávaxtasafa, eða te og drekka þá þannig, það deyfir líka bragðið af koníakinu að setja þá útí annan vökva. Þá er hægt að láta dropana falla beint á líkamann þar sem fólk finnur til verkja eða eymsla svo sem í baki, hálsi liðum eða við beinbrot eða tognun eða við annars konar líkamleg einkenni svo sem eftir fall eða byltu. Það er hægt að búa til bakstra og setja á viðkomandi svæði, það er líka hægt að setja dropana í krem og olíur og bera þá þannig á svæði sem þurfa á meðferð að halda.

Það geta allir haft gagn af blómadropum, bæði börn og fullorðnir og það er alveg sama hvernig ástand manneskjunnar er, þeir hafa til dæmis engin áhrif á lyf eða annað sem er verið að taka inn. Það er auðvitað mjög einfalt að prófa hversu vel þeir virka ef fólk er með líkamleg einkenni einhversstaðar til dæmis ef fólk er með eitlabólgu í hálsi þá er mjög gott að nudda þeim á hálsinn. Ef það eru verki í baki þá er gott að setja dropa þar sem verkurinn er. Jafnvel slæman höfuðverk er hægt að laga með því að láta nokkra dropa t.d. "áfalladropana í Bach" falla beint ofan á höfuðið í stað þess að taka verkjalyf. Það er hægt að setja dropana út í baðvatnið ef maður vill baða sig upp úr orkunni þeirra en það þarf ekki nema nokkra dropa út í vatnið kannski 1- 5 dropa.

Það er hægt að gefa dýrum blómadropa, en dýrin eru mjög næm á þessa orku og droparnir eru mjög fljótir að hafa áhrif á þau. Það er hægt að gefa öllum dýrum þessa dropa það má setja þá í vatn og draga það upp í sprautur og sprauta þannig upp í dýrin en svo er líka hægt að gefa þeim beint í vatnið. Þá er ekkert betra að gefa marga dropa heldur en fáa 3, 5 eða 7 dropar er fínt.

Ég hef prófað margskonar blómadropa og er yfirleitt mjög ánægð með virkni þeirra. Hver tegund hefur sína tíðni og sérsvið en þeir eru líka misjafnir að upplagi.

Áströlsku blómadroparnir eru líka mjög athyglisverðir þeir hafa mikla og góða virkni og í þeim eru margar blómategundir sem við höfum ekki í hinum blómadropasettunum. Það eru til margs konar dropar af öðrum gerðum.

Ef fólki langar að efla skynfærin og innsæið þá er gaman að finna hvernig hver tegund blóma er að virka á orkuna og skoða síðan eða lesa hvað aðrir hafa uppgötvað með virkni blómsins. Þegar þið farið að skoða og lesa ykkur til um dropana þá munið þið eflaust sjá að nánast hver einasta tegund getur passað fyrir ykkur. Við erum í stöðugri þróun sem sálir í líkama þannig að það er mjög misjafnt hvaða dropar passa fyrir okkur á hverju tímaskeiði.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 


© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur