|
GULLEYJAN ÍSLAND
Við, sem erum svo lánsöm að hafa valið að fæðast og búa á þessari yndislegu eyju, gerum okkur oft ekki grein fyrir hversu heppin við erum í raun og veru. Við erum blessuð að hafa fæðst á þessu fallega eldfjalli, lengst norður í höfum.
Ástæður þess að við völdum að fæðast og búa hér eru margar. Við höfum meðal annars valið það vegna náttúrunnar, veðurfarsins, nálægðar við sjóinn, fámennisins, náttúruaflanna og tengingarinnar við frumkrafta jarðarinnar.
Á þessu landi elds og ísa erum við sterklega tengd frumkröftunum. Við tengjumst frumkröftum jarðar í gegnum landið, frumkröftum vatnsins í gegnum sjóinn, árnar, lækina, vötnin, regnið og snjóinn. Við tengjumst frumkröftum eldsins með stöðugum áminningum frá hverum, hraunum og eldgosum víðsvegar um landið. Við tengjumst einnig frumkröftum loftsins, þar sem logn er sjaldgæft og fuglalífið blómstrar í okkar nánasta umhverfi. Öll þessi tengsl halda okkur meðvituðum um þá frumkrafta sem búa líka hið innra og mynda grunninn að lífi okkar.
Við erum blessuð með snjóinn, sem er eins og hreinasti kristall sem breiðir sig yfir landið og hreinsar og heilar bæði okkur og náttúruna. Sjórinn er einnig hreinsandi með sínum reglulegu flóða - og fjörurútínu. Það vita allir hversu heilandi það er að standa við sjóinn, hlusta á öldurnar, finna lyktina eða horfa á öldurótið. Vetur, sumar, vor og haust – hver árstíð hefur sína einstöku krafta og við erum djúp tengd veðrinu og árstíðunum og því sem þær bjóða upp á hver og ein.
Síðan er það sólin, sem við fáum ekki alltaf að sjá vegna skýjanna. En þegar hún skín, elskum við hana heitt og þyrpumst út til að njóta hennar. Þegar himinninn er heiðskýr minnir alheimurinn okkur á hvernig við erum í raun og veru, þegar sálin skín eins og sólin, án skýja, án tilfinninga og hugsana.
Skýin, sem hylja sólina mestan hluta ársins, minna okkur á þykkan skýjahjúpinn sem umlykur sálina – það sem við köllum tilfinningaleg áföll og gamlar minningar. Við höfum fæðst á þessari eyju til að láta veðurfarið minna okkur á þessar tilfinningar, sem við höfum komið með okkur til að losa út.
Ekki er tilviljun að svo margt andlegt fólk hefur fæðst á þessari gulleyju í norðri. Síbreytilegt veðurfar neyðir okkur til að sveiflast í tilfinningum okkar, að vera meðvituð um þær og læra að þetta er leiðin að ákveðnu markmiði. Hver kannast ekki við að hafa gengið út í rok og rigningu og fundið hversu hreinsandi og endurnærandi það er fyrir sál og líkama? Hér á eyjunni er það tækifæri, því það væri ekki nærri því eins hreinsandi að ganga út í logni og sólskini, þar sem allt er stöðugt dag eftir dag. Þó er það yndislegt þegar við fáum góðviðrisdaga með logni og sól, þar sem við getum leyft okkur að vera og njóta.
Við erum einnig minnt á að þó landið sé hrjóstrugt og karlorkan oft áþreifanleg, þá höfum við líka myrkrið, tunglið og stjörnurnar, sem minna okkur á hina djúpu kvenlegu mýkt. Dimmblár himinn á löngum vetrarkvöldum minnir okkur á tengingu okkar við alheiminn, hið óendanlega og guðdómlega allt sem er. Við getum látið okkur líða inn í þann alheim og orðið meðvituð um óendanleika hins eilífa, sem ekki verður útskýrt.
Það má með sanni segja að við erum komin hér á þessari eyju í líkama til þess að MUNA HVER VIÐ ERUM.
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|