|
Meistararnir
Meistarar eru sálir sem lifðu á jörðinni í líkama og glímdu við lífið á sama hátt og við erum að gera í dag. Þeir hafa unnið sig í gegnum flestar hindranir sínar og tekist á við karma sem þeir sköpuðu í jarðlífinu. Því er sagt að þeir séu uppljómaðir og þurfi ekki lengur að fæðast á jörðinni. Uppljómun felst aðallega í því að sjá smám saman í gegnum blekkingarheim jarðlífsins. Þess vegna er talað um uppljómun. Uppljómaðir meistarar vinna í hærri víddum en við sem eru í jarðlífinu og eru reiðubúnir að hjálpa okkur í gegnum innsæi og æðra sjálfið. Þegar meistarar birta sig í orkunni, geta þeir tekið á sig einhvers konar líkamlega ásýnd, sem gerir okkur kleift að greina á milli þeirra. Þó að margir meistaranna séu óþekktir, þá þekkjum við aðra undir nöfnum, s.s. Maitreya, St. Germain, Lady Nada, Quan Yin, Hathor, Lady Isis, Maríu Magdalenu, Maríu mey, Sofia, Hillarion, Jesú, Búdda, Lord Lanto, Lady Venus, Ashtar, Maha Cohan, White Eagle, Kumara, El Morya, Djwhal Khul, Serapis Bay, Lady Portia svo nokkrir séu nefndir. Fólk vaknar til vitundar um að það vill ekki lengur láta segja sér hvernig á að lifa, heldur leitar að því sem er því fyrir bestu og verður meðvitað um að það er eigin meistarar. Fjarskipti verða auðveldari og við verðum einnig meðvituð um hugform, tilfinningar og ýmislegt annað í orkunni. Á meðan orkutíðnin er að hækka frá þriðju til fimmtu víddar sveiflumst við stöðugt á milli þessara vídda. Það er mögulegt að upplifa sveiflur milli þriðju, fjórðu og fimmtu víddar á sama degi. Allt mannfólk er samsett af sálum sem koma frá hinum guðlega kjarna, frá sama kjarnanum. Í raun erum við öll eitt, ein vitund. Þó að fólk komi inn í þetta jarðlíf með mismunandi áætlanir, þá eru sumir meðvitaðri um guðskjarnann eða meistarann innra með sér og sækjast eftir að efla upplifun þeirrar tengingar. Aðrir eru á sinni leið í efnislegum heimi og eru ánægðir með það. Enginn getur sagt til um hvort sálin sem lifir eingöngu í efnislegum heimi eða sú sál sem sækist eftir tengingu við guðsneistann í sér sé komin lengra í jarðnesku þroskaferli. Margar myndir eru til af meisturunum, en þær eru aðeins túlkanir þeirra sem mála eða teikna þær út frá eigin innsæi. Þó að myndirnar séu ekki fullkonmnar, er hægt að styðjast við þær ásamt nöfnum þeirra til að tengja sig við þá og finna orkuna þeirra. Meistararnir eru uppljómaðar sálir, þau hjálpa okkur að vaxa og hækka orkutíðnina á jörðinni. Þau eru í hærri víddum og bjóða okkur leiðsögn sem við þurfum á að halda í okkar ferðalagi á jörðinni. Með því að tengjast orkunni þeirra, hvort sem er með nöfnum, myndum eða styttum getum við fundið innri leiðsögn og orðið meðvituð um eigin styrk. Þó að við séum öll á mismunandi ferðalagi erum við samofin í þessari guðlegu vitund. Við erum öll meistarar í eigin lífi og ferð okkar er ekki aðeins persónuleg, heldur einnig hluti af stærri, sameiginlegri reynslu.
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur |
|||||||||||||||||||||