Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Heilun

 

Heilun er víða

Heilun getur átt sér stað án þess að fólk kalli það heilun eða sé meðvitað um að heilunarorkan sé að flæða. Alls staðar þar sem fólk kemur saman verða orkuskipti það þarf ekki að vera að manneskjan sem tekur við heilunarorkunni sé meðvituð um hvað er í gangi og ekki heldur sá/sú sem orkan flæðir í gegnum. Allir hafa þann meðfædda eiginleika að orka flæðir í gegnum þá, ef það væri ekki orkuflæði og orkuskipti á milli fólks þá væri viðkomandi ekki LIFANDI.

Foreldri sem huggar barn sitt er að gefa heilun

Þú getur farið í klippingu og sá eða sú sem klippir þig getur verið góður heilari þú finnur það kannski sem vellíðan og slökun í stólnum en spáir kannski ekkert meira í það og ekki hún/hann heldur. Foreldri sem huggar barn sitt gefur barni sínu heilun, því orka heilunar er jafnframt kærleiksorkan, ástin til barnsins. Orkuskipti eru í raun alltaf óhjákæmilega í samskiptum fólks. Fólk er alltaf að meðtaka eða gefa orku allan sólarhringinn. Þar er engin undarteknin á, allir eru í þessari hringrás orkunnar. Fólk sem er næmt skynjar þessa orku, en þeir sem eru ekki næmir á orkuna hafa kannski enga hugmynd um hvað er í gangi en skynja það ef til vill sem þægilega nærveru eins og það er kallað.

Skilaboð og orka sem við meðtökum

Það er mikið um það að fólk sem segist ekkert spá í andleg mál sé bæði að heila og miðla án þessa að hafa hugmynd um það. Þeir sem vinna í andlega heiminum nýta hvert tækifæri til að koma skilaboðum og orku til mannfólksins og eru því oft að vinna í gegnum þetta fólk vegna þess að það er móttækilegt. Þá skipta trúarbrögð eða skoðanir ekki máli því þeir í andlega heiminum hafa ekki áhyggjur af því í hvaða trúfélagi hver og einn er eða hvort hann er yfirleitt í nokkru trúfélagi. Hver kannast ekki við að hafa sagt eitthvað og hugsað svo eftir á, hvaðan kom þetta og hvernig vissi ég þetta? Það er eins og hugmyndirnar skjótist upp í kollinn á leifturhraða og ef þær eru tjáðar eða nýttar þá koma þær sér vel fyrir þann sem á hlustar. Þetta er í raun dæmigerð miðlun.

Hlutir og húsnæði hafa mismunandi orku

Allir hlutir hafa orku og þannig hleðst það sem er í kring um okkur, upp með þeirri orku sem við látum frá okkur. Veggirnir í híbýlum okkar taka við orkunni sem er innan þeirra. Það finna flestir fyrir orku eða andrúmslofti eins og það er kallað. Fólk fer og skoðar íbúð sem það hefur hug á að kaupa en getur svo ekki hugsað sér íbúðina af því að það er eitthvað þarna sem því líkar ekki við en það er óútskýranlegt fyrir þá sem vita ekki að þannig er það sem orka eða hugsanir, orð og athafnir þeirra sem búa á staðnum hefur áhrif á það sem er innan dyra. Það er svo margt sem við sjáum ekki en eigum betra með að skynja. Sumir láta sig hafa það að kaupa íbúð sem þeir finna að hefur ekki góða orku og ákveða þá að rífa niður veggi, innréttingar og mála allt í hólf og gólf. Stundum duga þessar breytingar, en ég hef líka heyrt af því að hvað sem var gert til þess að breyta orkunni í íbúðinni hafi ekki dugað til. Eigandanum hafi alltaf liðið illa í þessari íbúð sem hún keypti þrátt fyrir að hafa skynjað þetta strax í upphafi. Oft tekst líka vel til og vistarverurnar taka algjörum stakkaskiptum orkulega séð.

Markviss hreinsun húsnæðis

Það er hægt að hreinsa staðnaða orku í húsum með ýmsu móti það má t.d nota til þess reykelsi, hvíta salvíu (Sage) eða hreinlega brenna eini eða aðrar hreinsandi jurtir. Það má líka nota hljóm söngskála, tingshaw/málmgjöll eða bjallna. Ganga um með þessi verkfæri og klingja í hornum og stöðum sem hafa tilhneigingu til að safna staðnaðri orku. Það er hægt að biðja þá í andlega heiminum að koma og vinna að hreinsuninni með okkur og færa þannig inn það sem okkur líður vel með. Það þarf ekki endilega að vera mjög hátíðlegt en ef fallega er beðið um aðstoð við hreinsunina er sú aðstoð veitt með mikill ánægju. Það er mikill misskilningur að við þurfum að hafa einhverja sérstaka menntun til að geta beðið þá í andlega heiminum um að hjálpa okkur við að hreinsa út staðnaða orku í okkar eigin vistarverum. Allt og sumt sem þarf er að biðja í huganum eða upphátt um aðstoð þeirra sem við viljum fá aðstoð hjá, þeir hafa góða heyrn þarna hinum megin og engin þörf er á að margsegja hlutina eða hrópa hátt. Það er líka mjög gott að spila róandi tónlist sem er gerð til að koma á jafnvægi í umhverfinu eins og geisladiska sem innihalda Feng Shui tónlist.

Landið og staðir hafa líka skynjanlega orku

Orkan er mjög mismunandi eftir stöðum það hafa allir staðir á jörðinni ákveðna orku þá er hægt að tala um land eða lönd sem heild en svo er hægt að fara ofan í smærri einingar svo sem ákveðna staði sem eru byggðir eða ekki byggðir. Það tala til dæmis margir um það hversu góð orkan er á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi. Ég finn alltaf mikla þörf hjá mér til að fara þangað að minnsta kosti tvisvar til þrisvar á ári og sitja þar í fjörunni og horfa á brimið og finna krafta jarðarinnar. Á þessum stað mætast frumkraftar jarðarinnar á einum stað s.s. eldur, vatn, loft og jörð. Það er sjálfsagt ekki eina skýringin á þeim mikla krafti sem býr þarna það á sér eflaust einnig þá skýringu að þarna hefur mikið verið sótt af andlega hugsandi fólki sem hefur staldrað við og hugleitt á staðnum en við það myndast ákveðin orka sem fylgir staðnum og í henni er gott að vera. Það finna sjálfsagt margir hvað það er gott að koma til Þingvalla en þar er einn af þessum stöðum sem hafa afgerandi góða orku sem hægt er að skynja með því einu að vera á staðnum.

Mismunandi staðir henta mismunandi fólki

Það er líka þannig að mismundi staðir hafa mismunandi áhrif á fólk það er t.d. ekki sama hvar við búum á hnettinum sum svæði eða lönd eru óhagstæð til búsetu fyrir suma en kjörsvæði fyrir aðra. Við þekkjum eflaust flest einhvern eða höfum heyrt af einhverjum sem líður alltaf illa á staðnum sem hann/hún hefur búið á í fjölda ára tekur t.d engan þátt í því sem er að gerast á staðnum en svo flyst viðkomandi í eitthvað annað bæjarfélag og þar byrjar manneskjan að blómstra fer að gera ýmislegt sem hún hefur aldrei gert áður. Þetta hefur með orku staðarins að gera, hvaða áhrifa hún hefur á manneskjuna.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur