Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Um höfund síðunnar

 

Frá unga aldri hef ég verið næm á orku og elska fátt meira en að dvelja úti í náttúrunni. Þegar ég var að alast upp hafði ég rými til að spá og spekúlera í lífinu og tilverunni í ró og næði. Í náttúrunni fékk ég tækifæri til þess að fara inn á við og fá svör við spurningum sem brunnu á mér. Strax sem barn fann ég hvernig svörin sem ég fékk var sannleikur fyrir mig þar sem þau hentuðu ekki öllum. Þannig lærði ég fljótt að hafa þau fyrir sjálfa mig.

Uppáhalds staðurinn minn var við sjóinn, þar sem ég gat dundað mér tímunum saman við að skoða lífríki fjörunnar, allavega lita steina og allt það sem náttúran hafði upp á að bjóða. Það var alltaf jafn spennandi að fylgjast með flóði og fjöru. Það var ævintýri að sjá hvernig fjaran breyttist með sjávarföllunum og verða vitni að því hvernig allt undrið mitt fór smám saman á kaf í sjó. Hámarkið var stórstraumsfjara, þar sem sjórinn náði stundum alveg upp á gróið land.

Veðrið skipti ekki máli – ég elskaði að vera úti sama hvernig viðraði. Snjór og kuldi höfðu ekki áhrif á mig og ég gat dvalið tímunum saman úti í snjónum, skoðað mynstur í frosnu vatni eða legið á svelli og horft á stjörnurnar og tunglið á heiðskýrum kvöldum. Skýin heilluðu mig líka, hvernig þau dönsuðu um himininn og mynduð allskyns undarlegar tákrænar myndir. Náttúran færði mér jafnvægi og orku þó ég hafi ekki áttaði mig á því fyrir en síðar að tengingin við hana var mín leið til að endurhlaða orkuna.

Árið 1999 kynntist ég boðskap frá meistara Maitreya, sem transmiðillinn Margaret McElroy miðlaði. Margaret sem bjó þá í Ástralíu sá um að koma boðskapnum á framfæri í gegnum netið. Bréfin sem hún miðlaði eru í stuttum og auðlesnum pistlum sem höfðu strax mikil og djúp áhrif á mig þar sem ég skynjaði ekki bara orðin í þeim heldur líka orkuna. Það var ekki fyrr en árið 2006, eftir að ég heimsótti Margaret til Seattle, að ég fann kjarkinn til að þýða bréfin og miðla þeim áfram á þessari vefsíðu. Maitreya kennir m.a. að við séum meistarar eigin lífs og að ekkert gerist fyrir tilviljun; við sköpum sjálf okkar líf.

Mitt fyrsta skref inn í heim andlegra mála var námskeið hjá miðlinum Sigurði Geir sem fjallaði um skyggnilýsingar, fyrri líf og heilun. Heilunin heillaði mig mest af öllu. Það var eitthvað við hana sem ég tengdist á dýpri hátt. Ferðlagið með honum og konunni hans til orkulegra staða í Bretlandi styrkti þennan áhuga minn enn frekar. Það varð til þess að ég fór að hafa áhuga á að læra meira um heilun.

Heilunarferðalag mitt byrjaði með Reiki-námskeiðum, þar sem ég losaði um fyrstu tilfinninga hindranirnar. Eftir fyrsta námskeiðið grét ég í heilan sólarhring, sem var merki um djúpa losun og upphaf ferlisins að heila æskutengdan sárauka. Skömmu síðar lærði ég einnig djúpslökunarmeðferðir, þar sem leitað er að minningum fyrri lífa eða æskunnar til þess að horfast í augu við orkuna og umbreyta henni. Það ferli fannst mér einstakt og þykir enn. Það var/er líkt og að horfa á bíómynd svo fjölbreyttar og ófyrirsjáanlegar eru minningarnar sem koma úr undirvitundinni.

Seinna lærði ég meira um orkuheilun hjá kennara með kennsluréttindi úr Barbara Brennan skólanum sem kenndi auk þess kennsluefni sem hún hafði sjálf þróað. Ég hef einnig lokið námi sem blómadropaþerapisti og svæðanuddari, þá nota ég ilmkjarnaolíur, kristalla, aura-soma, spil, og nú síðast söngskálar við heiluninni.

Það er svo margt sem hefur styrkt mig í minni leit að andlegum þroska og eitt af því var að fá að vita það strax á æskuárunum að ég er ekki bara þessi líkami og það nafn sem ég ber í dag. Ég er sál sem hefur eilíft líf sem er stöðugt að bæta við sig þroska og skilningi í lífinu - eða lífunum. Sálarnafnið mitt er Mah-ree-ZEE, sem þýðir „að sjá með berum augum“ eða sjá í gegnum blekkinguna. Þegar ég heyrði hvað sálarnafnið mitt þýddi þá skildi ég svo margt og þá m.a. af hverju ég var alltaf meðvituð um þá blekkingu sem jarðlífið er. Ég kem úr sálnafjölskyldu sem kallast "Vitund ljóssins," og hlutverk okkar er að hjálpa til við að hækka tíðnina á jörðinni og fleiri stöðum í alheiminum.


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is