Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá unga aldri hef ég verið næm á orku og fundið djúpa þörf fyrir að vera í tengslum við náttúruna. Þar fann ég rými til að vera ég sjálf, í kyrrð og næði, til að spá og spekúlera í lífinu og tilverunni. Í náttúrunni fór ég inn á við og fékk svör við spurningum sem brunnu á mér. Strax sem barn fann ég að þessi svör voru minn sannleikur, en ekki endilega sannleikur annarra. Þannig lærði ég snemma að hlusta á innsæið og bera virðingu fyrir því sem kom innan frá, jafnvel þótt því væri ekki alltaf deilt með öðrum.

Uppáhaldsstaðurinn minn var við sjóinn. Þar gat ég dvalið tímunum saman við að skoða lífríki fjörunnar, litríka steina og smá undur sem opnuðust aðeins þeim sem höfðu tíma til að staldra við. Flóð og fjara heilluðu mig, hvernig landslagið breyttist, hvernig undrið mitt, „fjaran“ fór smám saman á kaf undir sjó. Hámarkið var stórstraumsfjara, þegar sjórinn náði alveg upp á gróið land og ég fann fyrir djúpum krafti og lotningu gagnvart náttúrunni og hringrás lífsins.

Veðrið skipti mig litlu máli. Ég elskaði að vera úti, sama hvernig viðraði. Snjór og kuldi stoppuðu mig ekki. Ég gat verið tímunum saman úti í snjónum, skoðað mynstur í frosnu vatni eða legið á svelli og horft á stjörnurnar og tunglið á heiðskýrum kvöldum. Skýin drógu mig líka að sér, hvernig þau dönsuðu um himininn og mynduðu táknrænar myndir sem vöktu ímyndunaraflið. Náttúran gaf mér jafnvægi og orku, þó ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en síðar að þessi tenging var mín leið til að endurhlaða mig og finna sjálfa mig aftur og aftur.

Árið 1999 kynntist ég boðskap meistara Maitreya, sem hafði djúp áhrif á mig. Ég skynjaði ekki aðeins orðin heldur einnig orkuna á bak við þau, ástina, mildina og áminninguna um að við séum öll meistarar eigin lífs. Boðskapurinn hans minnti mig á að ekkert gerist fyrir tilviljun og að við sköpum sjálf okkar veruleika. Þessi skilningur opnaði nýja dýpt innra með mér og styrkti traustið á eigin innri leiðsögn.

Á leið minni hef ég upplifað að sár, minningar og tilfinningar koma upp þegar tíminn er réttur, ekki til að brjóta mig niður, heldur til að losna, mýkjast og umbreytast. Ég hef lært að hlusta á líkamann, orkuna og hjartað og að það er ekkert sem þarf að þvinga fram. Heilunin gerist þegar rými er skapað fyrir sannleikann, fyrir mildi og fyrir að vera með því sem er.

Eitt af því sem styrkti mig snemma var vitneskjan um að ég er ekki aðeins þessi líkami og þetta nafn. Ég er sál í stöðugum þroska, með reynslu sem nær lengra en eitt líf. Sú sýn hefur mótað það hvernig ég mæti sjálfri mér og öðrum með opnum huga, virðingu og djúpri hlustun.

Í Visku og gleði leiði ég ekki með svörum, heldur með nærveru. Ég skapa rými þar sem þú mátt vera nákvæmlega eins og þú ert og finna þinn eigin sannleika, á þínum hraða.

Gefðu þér tíma til að lesa þessi orð í ró og næði – hægðu á, andaðu djúpt og leyfðu dýpt þeirra að snerta þig.

J.Þ.G

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is