Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Höfundur síðunnar

 

Næmni mín á orku hefur fylgt mér alla tíð og sem barn elskaði ég fátt meira en að dvelja löngum stundum úti í náttúrunni og spá og spekúlera í lífið og tilveruna.

Uppáhalds staðurinn minn var við sjóinn, þar gat ég dundað mér tímunum saman við að skoða lífríkið í fjörunni. Þangið með mismunandi áferð, lykt og lit og allskyns steinar af öllum gerðum og stærðum voru endalaust rannsóknar verkefni.

Flóð og fjara var fyrirbæri sem ég fylgdist vel með, enda mikill munur á sjávarföllum. Á fjöru var hægt að ganga þurrum fótum um fjöruna en í stórstreymi fór fjaran undir sjó. Skeljar, kuðungar og fuglarnir voru partur af lífinu og ég elskaði þegar margæsin, krían, stelkurinn og lóan komu á vorin. Ég er fædd og uppalin í sveit við sjávarsíðuna á Snæfellsnesi.

Ég elskaði að vera úti og fór út í hvaða veðri sem var, snjór og kuldi voru ekki að stoppa mig. Tímunum saman gat ég leikið mér í snjónum og við að skoða mynstur í frosnu vatni. Þá fannst mér dásamlegt að liggja á svelli þegar það var komið niða myrkur og horfa upp á heiðskýran himinninn alsettan stjörnum. Það var ekki verra að hafa tunglið líka sjáanlegt enda er tunglbirta einhver sú magnaðasta birta sem til er. Reyndar þótti mér gaman að horfa á skýin og hvernig þau breyttust stöðugt í allavega mynstur.

Ef ég hefði ekki farið í heimavistaskóla og kynnst fullt af krökkum þá hefði ég sennilega orðið mikill einfari vegna þess að mér leið oftast best þegar ég var ein í töfraveröld náttúrunnar í mínum eigin hugrenningum. Í skólanum átti ég ekki kost á því þannig breyttist margt þegar ég byrjaði í skóla og fór að vera dögum saman að heiman innan um aðra krakka. Heimavistaskólalífið og lífið heima í sveitinni voru gjör ólíkir heimar og það mótaði mig fyrir lífstíð þar sem ég hef alltaf sótt bæði í það að vera innan um fólk og einnig að vera ein.

Seinna meir þegar ég skoða æskuna og þegar ég varð eldri og fór sjálf að búa í sveit þá sá ég að sótti alltaf í náttúruna til að endurhlaða og hreinsa orkuna mína. Ég sæki reyndar enn þá í náttúruna til þess sama þó að ég hafi flutt á höfuðborgarsvæði enda finn ég alltaf einhverja staði sem verða mínir uppáhalds orkuhleðslu staðir.

Það sem var aftur á móti upphafið að stofnun þessarar síðu var miðlaður boðskapur úr andlega heiminum til mannkyns frá meistara Maitreya. Boðskapurinn var í stuttum og auðlesnum pistlum sem var síðan dreift á netið. Ég byrjaði að lesa bréfin 1999 en ég hafði ekki kjark í að biðja um að fá að þýða bréfin á íslensku og setja þau á þessa síðu fyrr en árið 2006. Boðskapurinn kom í gegnum transmiðilinn Margaret McElroy en hún bjó þá í Ástralíu.

Fyrir mig var þetta upphafið af mikilli breytingu á því hvernig ég hugsaði og sá lífið. Maitreya boðar það að við séum meistarar eigin lífs og að það sé ekkert sem gerist fyrir tilviljun vegna þess að við sköpum sjálf það líf sem við lifum. Allt sé þetta samningar á milli sálna sem koma hérna í jarðlífið aftur og aftur. Þessi lífsspeki fannst mér reyndar enduróma vel við mína innri sannfæringu um lífið og tilveruna. Eitthvað sem ég hafði smám saman náð að byggja upp í einveru stundum mínum í náttúrunni. Göngurnar urðu oft æði langar en svo settist ég niður eins og í hugleiðslu ástandi og fékk ótal svör við spurningum mínum og pælingum.  

Það var ástæða fyrir því að ég fór á fyrsta námskeiðið mitt í andlegum málum, þó að ég nefni það ekki hér. Það var Sigurður Geir miðill sem hélt það námskeið. Fram að því hafði ég haldið mér fjarri því sem mætti kalla andlegt þó að ég hafi lesið bókina eftir Einar á Einarsstöðum um tvítugsaldurinn. Fyrsta námskeiðið mitt hjá Sigurði var um hlutskyggni, skyggnilýsingar, fyrri lífa upplifanir og heilun. Þó að mér hafi fundist allt þetta mjög spennandi þá var það samt heiluninn og fyrri lífin sem mér fannst mest spennandi. Það var eitthvað við heilunina sem heillaði mig og sá áhugi dýpkaði enn frekar þegar ég fór með Sigurði Geir og Guðfinnu Sverrisdóttur í ferðlag á orkulega staði í Bretlandi.

Heilunin heillaði mig enda af nógu af taka hjá sjálfri mér sem þurfti að heila úr æskunni þar sem heimavistaskólinn hafði verið mér erfiður og sársaukafullur. Það var þó alls ekki allt sársaukafullt og erfitt og það hef ég náð að upplifa æ oftar hin seinni ár þar sem gleði og skemmtilegar samverustundir með yndislegum krökkum hafa sífellt orðið sterkari minning.

Ég hóf heilunarnámið á að fara í reiki 1. 2. og 3. það var mikil upplifun að fara í reikið. Það losnaði um fyrsta tilfinningavegginn hjá mér og ég man að eftir fyrsta stigið þá grét ég í heilan sólarhring stanslaust. Fljótlega eftir það fór ég á námskeið þar sem ég lærði að leiða fólk inn í djúpslökun þar sem leitað var að áfalla minningum tengdum innra barninu (á öllum aldri) og fyrri lífum. Það fannst mér alltaf skemmtilegast og finnst enn þá, það er oft eins og að horfa á bíómynd. Í heiluninni finnst mér líka koma til mín fólk sem er að spegla mín eigin innri áföll, eða sársauka. Stundum veit ég ekki einu sinni að ég hafi þennan sársauka en ég upplifi mjög djúpt á meðan verið er að umbreyta honum í dýrmætan skilning og þroska.

Seinna átti ég eftir að læra um orkuheilun hjá kennara sem hafði kennsluréttindi úr Barbara Brennan skólanum þó að hún kenndi margt úr þeim skóla þá hafði hún líka bætt við sínu eigin kennsluefni.

Þá hef ég verið með opnar hugleiðslur með erkienglunum ásamt því að leiða fólk inn í undirvitundina í djúpslökun í heilun og hópheilun á námskeiðum. Ég er blómadropa þerapisti úr Blómadropaskóla Kristbjargar. Ilmkjarnaolíur og Bach flower blómadropar hafa líka fylgt mér á lífsleiðinni í heilun ásamt kristöllum, steinum og aura-soma olíum. Núna á þessu ári 2024 hef ég síðan orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast heilunar olíur frá Egyptalandi en það er eitt af því magnaðast sem ég hef upplifað í olíunum.

Svona í lokin þá má við þetta bæta að ég hef alltaf verið sannfærð um að við erum ekki bara þessi líkami og ég var mjög ung þegar ég hugsaði með sjálfri mér „að þeir geti tekið líkamann minn en ekki sálina.“ Ég man hvað mér létti við þennan skilning þó að ég viti svo sem ekki hvað ég var að vitna í þarna sem unglingur. Þar sem hef lengi verið fullviss um að ég er ekki bara líkami í einu jarðlífi og heiti nafninu Jónína Þorbjörg þá þótti mér afskaplega vænt um að fá að vita sálarnafnið mitt og hvað það þýðir. Samkvæmt því sem ég fékk að vita er að sálarnafnið mitt er Mah-ree-Zee sem þýðir að sjá með berum augum. Þegar ég heyrði hvað sálarnafnið mitt þýddi þá skildi ég svo margt m.a. af hverju ég var alltaf meðvituð um að líf í líkama á jörðinni er ekki allt sem sýnist. Ég kem úr sálnafjölskyldu sem kallast "Vitund ljóssins" en hlutverk þeirra sálna er að hjálpa til við að hækka tíðnina á jörðinni og fleiri staða í alheiminum.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is