Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

Viska Maitreya 

 

Þessi vefsíða var í upphafi gerð til að koma á framfæri miðluðum boðskap frá andlegum kennara sem er kallaður meistari Maitreya. Það er talið að hann hafi verið sá sem stóð að baki Jeshua (Jesú) þegar hann færði jarðarbúum Krist orkuna og Krist vitundina og kannski er þetta sama vitundin.

Boðskapurinn sem Maitreya hefur miðlað í gegnum Margareti McElroy og ég hef þýtt yfir á íslensku eru aðgengileg á þessari síðu.

Margaret McElroy var þekkt sem miðill í annarri jarðvist og upphafskona Guðspekifélagsins. Í þeirri jarðvist miðlaði hún inn visku margra uppljómaðra meistara svo sem Maitreya, St. Germain,  Maha Cohan og fleiri. Í þeirri jarðvist hafði hún boðskapinn svo flókinn að fáir skildu hvað hún var að miðla frá meisturunum.  Hún kom því aftur í jarðvist sem miðill og helgaði líf sitt því að miðla inn visku, þekkingu og orku meistara Maitreya. Í þetta skipti hefur hún sett boðskap hans fram á einfaldan og skilmerkilegan hátt þannig að hann er auðskilin fyrir alla.

Maitreya hefur sagt að það skipti ekki máli hver hann er, það sem skipti máli er boðskapurinn eða skilaboðin og hvernig þau geti aðstoðað fólk við að endurheimta það sem margir meistarar og spekingar hafa bent á í gegnum tíðina að við erum hvert og eitt, okkar eigin meistarar.

Það sem vakti áhuga minn á boðskapi Maitreya var hversu mikið hægt var að skynja kærleiksríka orku efnisins í gegnum vefsíðu sem Margaret hélt úti ásamt þáverandi eiginmanni sínum. Hún byrjaði að deila miðlaða efninu út á vefsíðu í kringum 1999 eða rétt fyrir aldamótin.

Boðskapurinn sem var í ofur stuttum texta, stundum varla hálf blaðsíða var eitthvað svo einfaldur og hrífandi en þó svo kröftugur og áhrifamikill. Það eitt að lesa bréf í róleg heitum og taka efni þess inn gaf mér alltaf ákveðna vellíðan, ró og innri frið. Boðskapurinn endurómaði líka oftast við það sem mér fannst vera minn sannleikur. Það var ekki alltaf sem ég náði að skilja hvað meint var í fyrstu yfirferð, en skilningurinn kom oftast þegar ég las yfir aftur og stundum svolítið seinna.  

Það tók mig um það bil sex ár að fá kjark og áræðni til að fá leyfi hjá Margareti til að þýða bréfin á íslensku og setja þau á þessa vefsíðu. Þau hafa verið aðgengileg síðan árið 2006 á vefsíðunni. Alltaf hafa farið fram smá endurbætur á textanum og miklar framfarir hafa orðið í því að geta þýtt texta, því hægt er að hafa aðgang að svo miklu textaþýðingum í dag sem ekki var hægt áður fyrr.

Meistari Maitreya náði að miðla inn orku og efni á mjög hárri tíðni þannig að þegar ég var t.d. í návist þeirra þá fann ég svo sterkt fyrir kærleiksorkunni að ég táraðist. Þegar Margret var að miðla Maitreya þá vék hún alveg úr líkamanum og Maitreya kom inn og tjáði sinn boðskap og umbreytti orkunni með orkunni sinni. Bréfin og boðskapurinn hafa hjálpað mörgum og hef ég oft fengið bréf frá fólki sem segir að þessi boðskapur hafi bjargað þeim og hjálpað á svo margan hátt og þess vegna er síðan mín ennþá aðgengileg með boðskap Maitreya ásamt ýmsu öðru.  

 

Efst á síðu

Kennsla Maitreya

 

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur