Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Orkubreytingar og heilun

 

17. desember 2020

Þessa dagana eru að koma allskyns upplýsingar til okkar úr öllum áttum. Í öllu því upplýsingaflæði sem við eigum aðgang að verðum við svolítið áttavillt og vitum varla hverju við eigum að trúa og hvað við eigum að gera til þess að missa nú örugglega ekki af neinu í öllum spenningnum. Það er mikill spenningur í gangi vegna ákveðinna dagsetninga þennan mánuðinn og hvað muni gerast þegar þessar dagsetningar renna upp. Við vitum innst inni að það gerist kannski ekki mjög margt sem er áþreifanlegt þó að margt sé að gerast í orkunni þessa dagana. 

Ég er sjálfsagt ekki mikið öðruvísi en aðrir og hef verið að renna yfir allskyns lesefni og myndbönd sem hafa verið í boði á netinu en eftir því sem ég horfi meira því meira hallast ég á að það hafi engin meiri eða betri svör við því hvað og hvort eitthvað muni yfirhöfuð gerast. Þá get ég líka hallast að því að kannski hafi allir rétt fyrir sér á einn eða annan hátt. En af hverju ættum við að þurfa að vita hvað geti gerst á morgun, eftir þrjá daga eða eftir mánuð? Hver er það sem spyr og af hverju er verið að spyrja? Er eitthvað að óttast eða er eitthvað að hlakka til? Hverju missum við af á meðan við erum með athyglina fram í tímann á ákveðna dagsetningu, jú, við missum af því sem er að gerast núna, akkúrat núna, því þegar það eru breytingar, orkulegar breytingar þá byrja þær löngu áður en einhver ákveðin dagsetning verður.

Við vitum hvernig það er með fulla tunglið hvernig það er farið að hafa áhrif á okkur löngu áður en það verður svo endanlega fullt. Það gerist reyndar líka á nýju tungli að við förum í ákveðnar tiltektir og látum það gamla fara áður en það kemur nýtt tungl eða þannig hef ég að minnsta kosti upplifað það og það skemmtilega við það er að það gerist alveg ósjálfrátt, ómeðvitað. Það bara gerist án þess að ég sé að hugsa nokkurn hlut um það eða tengi það tunglinu, ekki fyrr en tunglið er orðið fullt eða þá að það er komið nýtt tungl þá loksins fatta ég þetta með áhrif tunglsins.

Næstkomandi mánudag stefnir í það að tvær stjörnur, eða plánetur sýnist verða mjög nálægt hvor annarri og við það myndast eins og ein mjög stór stjarna á himininum. Þessi samstaða mun reyndar ekki sjást með berum augum hér á landi nema í mjög stuttan tíma. Tíminn sem best er að sjá hana er um kl. 17:00, 21. desember 2020 og ef hún sést þá mun hún sjást í suðvestri mjög neðarlega á sjóndeildarhringnum í örstuttan tíma. 

Margir virðast vera mjög spenntir fyrir þessari plánetuafstöðu vegna þess að hún hefur ekki orði með þessum hætti í um það bil 800 ár. Pláneturnar júpiter og satúrnus eru ekki bara í samstöðu á þessum tíma heldur eru þær líka að fara úr áhrifum jarðar frumefnisins yfir í áhrif loft frumefnisins sem segir okkur að það verði meira um grósku í hugmyndum á næstunni. 

Það virðist vera að fólk sé mikið að leita eftir svörum fyrir sjálft sig með því að hlusta á allskyns miðla sem telja sig vera að horfa á tímalínur fram í tímann. Ég hef meira að segja upplifað það að fólk sé svolítið örvinglað og sé mikið að skoða og horfa til himins til þess að leita eftir táknum og merkjum um það sem er að gerast. Fyrir mitt leyti þá er ég afskaplega róleg yfir því sem er að gerast og held að það besta sem við gerum hvert og eitt sé að setjast niður og fara inn á við í leit að svörum fyrir okkur. Við getum vitað það að ef við spyrjum þá fáum við svör, frá okkar æðra sjálfi, sálinni eða leiðbeinendum. Það sem kemur yfirleitt alltaf til okkar í þessum svörum er að allt verði í himnalagi og veröldin haldi áfram að vera til svona nokkurn vegin eins og við erum að upplifa hana nákvæmlega núna. 

Það sem við getum aftur á móti verið alveg viss um þessa stundina og þá meina ég núna er að við erum böðuð í heilunarorku, orkan er sterk enda erum við að veita kristorkunni mikla athygli og það sem við veitum athygli vex og dafnar og við erum að njóta góðs af því akkúrat núna.

 

 

 

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband