Persónan og sálin
Á hverjum tíma í lífi mínu hef ég haft ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni – hugmyndir um hvernig hlutirnir ættu að vera og hvernig þeir ættu ekki að vera. Ég hef oft verið föst á skoðunum en ég hef smám saman mildast með árunum enda gefur lífið tækifæri til þess.
Það að stíga út úr því sem ég taldi öruggt og þægilegt hefur gefið mér nýja sýn á svo margt. Það hefur þó ekki alltaf verið þægilegt enda segir persónan mín að eitthvað sé ótryggt, erfitt og að ég standi mig ekki nógu vel. Á sama tíma er sálin mín sátt og segir að allt sé í himnalagi og gleðst yfir því sem hefur áunnist. Sálin lítur til aukins þroska og þekkingar sem hefur náðst við breytingarnar. Hennar sýn á hlutina er allt annað en hjá mér sem persónu, en við virðumst þurfa á hvor annarri að halda til þess að fullkomna heildina.
Þannig hefur persónan mín smám saman gefið eftir, losað um stífnina og fastheldnina. Sálin hefur fengið meira vægi, sérstaklega suma daga, þar sem innsæið og draumarnir hafa leitt í ljós að þeim er treystandi til að leiða mig áfram.
Persónan mín hefur mótast frá barnæsku. Hún hefur lært alls kyns hegðun, hvað er talið rétt og hvað rangt. Persónan hefur takmarkanir, mótaðar af því umhverfi sem hún þroskaðist í og þeim gildum sem samfélagið setur. Hún situr innandyra og horfir út í litadýrð lífsins, langar að taka þátt en dregur sig til baka því hún telur það ekki viðeigandi.
Sálin mín hefur aftur á móti engar takmarkanir. Hún stekkur út í lífið með gleði og eftirvæntingu, sér engar hindranir heldur einungis villtar víðáttur og stórkostleg tækifæri. Hún lítur á lífið sem marglitt, líf án takmarkana. Sálin sér heildarmyndina, hún er óttalaus og vill að ég treysti því að ég geti farið af stað, hoppað út í djúpu laugina, jafnvel tekið flugið. Hún vill að ég sleppi takinu á því sem ég áður taldi öruggt og þægilegt og treysti því að lífið muni færa mér allt sem ég þarf.
Persónan og sálin standa oft á gagnstæðum sjónarhólum. Persónan vill halda fast í hið kunnuglega, á meðan sálin vill treysta og sleppa taki. Persónan leysir málin út frá takmörkuðu sjónarhorni sínu, en sálin sér yfir allt. Persónan vill sitja áfram í flugvélinni, þótt hún hristist, á meðan sálin vill stökkva – því hún veit að fallhlífin mun opnast á leiðinni, og að hún mun svífa mjúklega til jarðar, tilbúin til að upplifa ný ævintýri.
~ JÞG
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is |