Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Endurheimtu styrkinn þinn

 

Þegar við lærum að sættast við okkur sjálf og sýna þakklæti fyrir það sem lífið hefur fært okkur, endurheimtum við styrkinn sem býr hið innra. Þetta á ekki aðeins við um reynslu úr þessu lífi, heldur einnig um minningar úr öðrum jarðvistum – brot sem kunna að birtast í draumum, hugleiðslum eða fyrri lífa dáleiðslu. Með því að horfast í augu við týndu brotin okkar og samþykkja þau, getum við heilað sársauka fortíðarinnar og fengið orkubrotin okkar til baka.

Sársaukafullir atburðir, sem valda skömm eða niðurlægingu, geta haft djúp áhrif á okkur og haldið okkur föstum í mynstrum endurtekins sársauka. Þessar minningar draga úr okkur orku, jafnvel löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað. Það verður hringrás í huga og tilfinningum þar sem viðbrögðin verða alltaf eins, óháð breyttum aðstæðum. Lífið er fullt af áreitum sem geta vakið slíkar minningar, en við höfum vald til að breyta viðhorfi okkar til þeirra.

Þegar við horfum á reynslu okkar frá nýju sjónarhorni getum við séð hana sem tækifæri til þroska og umburðarlyndis. Við viðurkennum styrk okkar og sjáum hvernig sálin hefur vaxið í gegnum erfiðleikana. Þetta umbreytir sársauka í visku og sjálfstraust. Að segja við sig: „Þú stóðst þetta af þér. Þú ert sterk/sterkur,“ þú hefur mátt og visku til að heila djúpan sársauka.

Að samþykkja sjálfan/sjálfa sig, með öllum sínum svokölluðu göllum og mistökum, skapar innri ró. Þetta ferli felur í sér að leyfa sér að upplifa erfiðar tilfinningar og losa orkuna sem fylgir þeim. Með því hverfa smám saman tilfinningar eins og skömm, reiði og sektarkennd. Þessi umbreyting krefst þess að við sýnum okkur ástúð og þolinmæði.

Ef við höfum sært aðra eða upplifum sektarkennd gangvart öðrum, getum við líka notað þessa aðferð. Með því að samþykkja og læra af mistökum endurheimtum við orkuna okkar aftur.

Þegar hugurinn reikar að neikvæðum minningum, er mikilvægt að beina honum meðvitað að jákvæðum þáttum, eins og brosi eða gleði sem tengist sömu reynslu. Þannig umbreytum við orkunni og finnum styrkinn sem í því liggur.

Innri heilun gerist þegar við lærum að horfa á fortíðina án dóma, leysum smám saman upp gömul mynstur og sættum okkur við það sem var. Með óskilyrtum kærleika og sátt verða sárin heiluð og við upplifum nýtt frelsi og áður óþekktan kraft.

JÞG

 

 


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband