![]() |
||||||||||||||||||||||
|
Endurheimtu styrkinn þinnÞegar við förum að sætta okkur við og þykja vænt um okkur sjálf fyrir það sem við höfum farið í gegnum í lífinu þá endurheimtum við styrkinn okkar. Það sama gildir ef við höfum farið í gegnum fyrri lífa minningar í draumi, hugleiðslu eða í fyrri lífa upplifun. Við endurheimtum styrkinn okkar með því að sætta okkur við og þykja vænt um þá persónu sem við vorum, eða erum. Atburðir og atvik sem hafa verið okkur erfið og við höfum flokkað sem vondar upplifanir förum við að sjá á annan hátt. Eitthvað sem við höfum helst ekki viljað horfast í augu við eða kannast við, verður allt í einu svo dýrmætt af því að við sjáum hversu hugrökk og mögnuð við vorum að geta komist í gegnum það. Með því að horfast í augu við og upplifa erfiðar minningar er hægt að breyta viðhorfi og því sem við köllum orkumynstur sem hefur fylgt okkur lengi, jafnvel í mörgum lífum. Þegar þetta er gert þá hættum við að sjá okkur sem þolendur og fórnarlömb og tökum þetta á annað stig með yfirsýn æðra sjónarhorns. Þegar við horfum á reynsluna út frá æðra sjónarhorni og tökum ábyrgð, þá fer okkur að þykja vænt um reynsluna og okkur sjálf vegna þess að við völdum hana til þess að læra af henni og þroskast í jarðneskum líkama sem sál. Þegar við skoðum liðna atburði með þessum hætti þá er ekki þar með sagt að reynslan hafi ekki verið sár og erfið á meðan á henni stóð. Atburðir geta hafa verið mjög erfiðir og það sem hefur jafnvel aukið enn meira á erfiðleika tilfinninguna, er að hugurinn hefur dregið minninguna upp aftur og aftur og þar með tilfinninguna sem henni fylgir. Þannig höfum við skapað ákveðna hringrás sem oft er viðhaldið í gegnum lífið og það er sú hringrás sem við viljum rjúfa til þess að halda á vit nýrra tíma og upplifana. Það er svo stórkostlegt að uppgötva að það er hægt að breyta, breyta líðan og breyta því sem við sköpum fyrir okkur í framtíðinni. Þegar við horfumst í augu við hvað var sárt við gamlar minningar þá getum við heilað sársaukann. Þegar við drögum fram minningar barnsins eða fullorðna einstaklingsins þá getum við notað okkar eigin setningar til að hugga og hughreysta og segja okkur hvað við erum elskuð þrátt fyrir það sem við fórum í gegnum. Það að horfa, hughreysta og elska og eiga samtal er svo mikilvægt vegna þess að við erum svo oft að hafna okkur sjálfum vegna reynslunnar. Við forðumst að tala um hana eða erum föst í því að tala um hana, út frá því hvernig við upplifðum hana á þeim tímapunkti sem hún gerðist. Í stað þess að dæma okkur endalaust fyrir að lenda í þessum aðstæðum t.d. sem börn, þá er svo gott að elska barnið og eiga við það samtal hversu vænt okkur þykir um það. Við getum ekki breytt því sem var en við getum breytt viðhorfi okkar til okkar sjálfra þegar við stóðum í þessum sporum. Þessi samtöl getum við endurtekið eins oft og við viljum eða þar til tilfinning fyrir vanmætti, skömm, höfnun, sársauka, reiði, sektarkennd eða öðrum tilfinningum er alveg horfin. Þessa aðferð er líka hægt að nota á aðstæður þar sem við finnum fyrir skömm, sektarkenndar, vanmætti eða öðrum tilfinningum yfir því sem við höfum sjálf gert öðrum. Þannig er smám saman hægt að sættast við allt sem hefur mótað okkur og kennt í lífinu og þannig náum við að safna orkunni okkar saman. Það er nefnilega þannig að þegar hugurinn heldur áfram að rifja upp á neikvæðan hátt þá erum við um leið að draga vitundina frá okkur sjálfum að gerandanum og þannig erum við á vissan hátta að yfirgefa okkur sjálf. Þegar hugurinn sér að það er einungis jákvæð minning tengd atburðinum s.s. við sem fallegt brosandi barn með lýsandi ljós engla í kringum sig þá erum við um leið búin að draga vitundar athyglina að okkur sjálfum á jákvæðan hátt. Við getum fundið það strax hvernig þessi vinna hefur áhrif með því að fara aftur inn í sömu minninguna svolítið seinna og finna þá hvernig tilfinningin tengd atburðinum hefur breyst. Að elska það sem er, er leiðin okkar inn í styrkinn.
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|||||||||||||||||||||