Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Styrkurinn endurheimtur

 

17. apríl 2014

Við endurheimtum styrkinn okkar meðal annars með því að sætta okkur við og þykja vænt um okkur sjálf vegna þess sem við höfum farið í gegnum í lífinu.

Það snýr líka að því að þykja vænt um okkur og sætta okkur við það sem við höfum farið í gegnum í fyrri lífum og þá skiptir ekki máli hvers konar lífi við höfum lifað.

Þetta felur í sér að horfa á atburði og atvik í lífinu sem þroskandi og gefandi og þar með að sættast við það sem gerðist hvort sem það hefur áður verið flokkað sem gott eða vont.

Til þess að endurheimta aftur sinn eigin kraft er gott að breyta því viðhorfi sem við höfum haft til erfiðrar reynslu og hætt að líta á okkur sem þolendur og fórnalömb og taka reynsluna upp á næsta stig og sjá hana út frá æðra sjónarhorni. Út frá æðra sjónarmiði sjáum við okkur taka ábyrgð á því sem við höfum farið í gegnum í lífinu, eða lífunum, atburðir gerðust vegna okkar eigin ákvarðana sem þroskuðu okkur og styrktu sem manneskjur og sálir.

Það er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið sárt og erfitt á meðan á því stóð en við getum breytt líðaninni í nútímanum gagnvart erfiðum atburðum með því að fara aftur á bak í tíma í huganum og sjá okkur sjálf á þeim tímapunkti sem við upplifðum erfiðleika. Ef það hefur verið á meðan við vorum ennþá börn þá köllum við barnið fram í huganum og segjum þessa einföldu setningu við barnið (okkur sjálf), „fyrirgefðu að ég skildi yfirgefa þig þegar þú fórst í gegnum þessa reynslu" það erum við sem yfirgáfum okkur sjálf og stóðum ekki með okkur og hugguðum þegar þetta gerðist (kannski kunnum við það ekki þá, en við kunnum það núna). Segjum líka við barnið "fyrirgefðu að ég skildi láta þig fara í gegnum þetta", vegna þess að við völdum það sjálf og enginn annar. Segjum síðan við barnið eða ef við höfum verið fullorðin þegar atburðurinn gerðist, "ég elska þig, þakka þér fyrir.“ (Þetta er aðferð sem kallast Opono pono). Við getum líka notað okkar eigin setningar til að hugga barnið eða þann fullorðna á þann hátt sem við kjósum, en umfram allt verum góð við einstaklinginn "okkur" þegar við köllum okkur sjálf fram í minningunni. Hættum að dæma okkur fyrir það hvernig við tókumst á við aðstæðurnar og höfum hugsað um þær hingað til. Við getum ekki breytt því sem var sagt og gert, en við getum breytt viðhorfinu til þess og sérstaklega viðhorfinu til okkar sjálfra þegar við stóðum í þessum sporum.

Þessa samtöl við okkur sjálf í fortíðinni má endurtaka eins oft og hver og einn kýs eða þar til áhrif vanmáttar, höfnunar, skömmustutilfinningar, sektarkenndar, sársauka eða annarra tilfinninga fer að dvína. Þessa aðferð er líka hægt að nota á aðstæður sem þú finnur fyrir skömmm og/eða sektarkenndar yfir því sem þú gerðir öðrum.

Þegar þú hefur farið með þessa staðhæfingu nokkrum sinnum þá byrjar þú að finna til ástar og elsku til þín og þar með að heila atburðinn eða viðhorfið til hans innra með þér. Með þessum hætti getum smám saman náð að sættast við allt sem hefur mótað okkur og kennt í lífinu og þannig er hægt að safna okkar eigin orku aftur saman, þannig að hugurinn sé ekki alltaf að draga okkur inn í gamlar upplifanir og hafa þannig áhrif á það hvernig okkur líður.

Við getum fundið það strax hvernig þessi vinna hefur áhrif með því að fara aftur inn í sömu minninguna svolítið seinna og finna þá hvernig tilfinningin tengd atburðinum hefur breyst.

Það er þá hægt að taka upp þessa möntru og fara með hana fyrir okkur sjálf-eða fyrir innra barnið, tala við innra barnið og segja: „Fyrirgefðu að ég skildi yfirgefa/hafna þér, ég elska þig þakka þér fyrir.“ Með þessari möntru náum við smám saman að yfirvinna þá tilfinningu sem kemur með minningunni og þar með hættir hugurinn/ lægra sjálfið að leiða okkur inn í hana.

Í lífinu förum við oft í gegnum erfiðar aðstæður sem við köllum svo vegna þess að við ætlum að læra ákveðin atriði, við ætlum að ná ákveðnum þroska og visku í gegnum reynsluna sem við myndum ekki öðlast með öðrum hætti. Þegar við förum að sjá á bakvið aðstæður og sjáum hvað við höfum lært af þeim og hvað þær hafa þroskað okkur þá hættum við að líta á okkur sem valdalaus peð og fórnarlömb. Við förum að byggja upp þá tilfinningu innra með okkur að við höfum sjálf valið að læra þessa lexíu vegna þess að við þurftum á því að halda, við þurftum að fara í þetta fag vegna þess að það gaf okkur kennslu í því sem við þurftum á að halda í framtíðinni.

Þegar við höfum heilað sáraukann og breytt viðhorfunum þá verður það styrkurinn okkar. Þar sem styrkurinn felst í því að við höfum sjálf valið lexíuna og kennarana og það vorum við sem settum leikritið upp og lékum í því á þann hátt sem við gerðum vegna þess að þannig færði það okkur nær þeirri persónu sem við erum í dag. Ég veit það að minnsta kosti að það breytti miklu fyrir mig að hætta að líta á mig sem fórnarlamb aðstæðna og breyta viðhorfum til þeirra og sjá mig sem sterka að hafa getað farið þá leið sem ég fór til þess að þroska ákveðna eiginleika sem ég er gædd í dag.

Til þess að losa út gömul vanaviðbrögð við löngu liðnum atburðum þar sem við bregðumst við á ákveðin hátt þegar minning kemur upp er gott að segja við okkur sjálf, "ég elska þig alveg jafn mikið þó að þú hafir gert þetta", "sagt þetta", eða einhver hafi sagt þetta við þig. Þetta litla atriði hjálpar okkur inn í það frelsi að minningar liðinni atburða leysast smám saman upp og við verðum algjörlega frjáls að vera við sjálf.

Þú getur lært að elska þá reynslu sem þú hefur farið í gegnum með því að mantra jákvæðar staðhæfingar. Þegar þú hefur breytt líðaninni þá ferðu að finna til þakklætis til þess sem er, til þakklætis fyrir það stóra og smáa sem hefur komið inn í líf þitt. Þakklætið er góð tilfinning sem leiðir okkur inn í það að verða þakklát fyrir það sem lífið hefur kennt okkur og þar með að finna til þakklætis og elsku til okkar sjálfra. Ást til þín og þess sem þú hefur farið í gegnum í lífinu er leiðin að því vera í þínum fulla styrk. Að elska það sem er hverju sinni og atburði úr fortíðinni er leiðin inn í styrkinn.


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband