Álfar – huldufólk og aðrar náttúrverur
1. janúar 2014 Þar sem þetta er sá tími ársins sem hefur verið helgaður álfum, huldufólki og öðrum náttúruverum hér á landi í gegnum tíðina, er ekki undarlegt að fyrsti pistill nýársins fjalli um þessar verur. Þær hafa fylgt okkur Íslendingum frá því að landið byggðist, og sumar hafa eflaust verið til staðar miklu lengur. Við sem búum hér á landi þekkjum flest sögur af álfum og huldufólki, sögur sem minna okkur á þá miklu virðingu sem forfeður og formæður okkar báru fyrir þessum verum. Á þessum árstíma, og þá einkum um áramótin, var sagt að álfar og huldufólk stæði í búferlaflutningum og það var mikið um dýrðir, vegna þess að sagt var að þau ættu fallega hesta og hestvagna. Áður en nútímatækni ruddi sér til rúms, var fólk nátengdara náttúrunni. Margir voru á ferli, hvort sem þeir voru gangandi eða á hestum, í allskyns veðrum og aðstæðum. Við getum rétt ímyndað okkur hversu oft þessar verur hafa komið fólki til bjargar, jafnvel veitt þeim leiðsögn heim í kafaldsbyl þegar skyggni var ekkert og engin sýnileg leið til að fylgja. Sumir gátu séð þessar verur, aðrir gátu einungis skynjað þær eða heyrt í þeim, og þannig er það enn í dag – við erum misnæm á nærveru náttúruveranna. Þeir sem hafa sterk tengsl við náttúruna og eru meðvitaðir um þessa verur, geta treyst því að þær muni hafa samband með einhverjum hætti. Við getum jafnvel fundið fyrir því að á ákveðnum stöðum vilja þessar verur ekki láta ónáða sig. Það er vitað að í álfabyggðum um landið eru sérstök svæði þar sem verurnar kjósa að vera í friði frá ágangi mannfólksins. Þar eru oft staðarverðir sem passa upp á staðina, en einnig verur sem einfaldlega vilja enga samskipti. Þegar rætt er um þessar náttúruverur, sem vilja ekki láta raska högum sínum, má nefna fjölmörg dæmi um hvernig þær hafa haft áhrif á framkvæmdir, eins og vegagerð eða húsbyggingar. Margir kannast við sögur um óútskýrð atvik á byggingarstöðum þar sem náttúruverurnar hafa gefið til kynna að þeim líki ekki það sem þar fer fram: fólk hefur slasast, vélar hafa bilað og bílar oltið. Þekkt er að það verður aldrei friður í húsum sem hafa verið reist í óþökk náttúruveranna. Í mörgum tilfellum hafa þessar verur komið skilaboðum sínum á framfæri til einstaklinga og beðið fólk að sleppa því að byggja á tilteknum stöðum. Þegar slíkar viðvaranir hafa verið hunsaðar, hefur það oftar en ekki leitt til þess að óvænt atvik hafa staðfest vilja náttúruveranna. En þeir sem sýna náttúruverunum virðingu vita líka að þær launa ríkulega fyrir velvild. Þannig er það ætíð mannfólkinu til hagsbóta að taka tillit til óska náttúruveranna. Þessar verur nutu virðingar meðal forfeðra okkar og formæðra, og við ættum ekki að efast um þær sögur sem hafa verið sagðar í gegnum tíðina. Þó að við köllum sögurnar þjóðsögur, þá eru þær varðveittar vegna þess að þær geyma einhvers konar sannleika – lífsreynslu sem var okkar forverum dýrmæt og okkur sjálfum líka, ef við viljum hlusta.
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
||||||||||||||||||||||