Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Álfar og huldufólk

 

1. janúar 2014

Þessi tími ársins hefur í gegnum aldir verið helgaður álfum, huldufólki og öðrum náttúruverum hér á landi. Því er ekki tilviljun að fyrsti pistill nýársins fjalli um verur sem lifa í fjöllum, fellum, vatni, mýrum og móum. Þær hafa fylgt okkur Íslendingum frá upphafi byggðar og sumar hafa eflaust verið til staðar löngu áður en mannfólk steig hér fyrst fæti á land.

Flest okkar þekkja sögur af álfum og huldufólki. Þær minna okkur á þá djúpu virðingu sem forfeður okkar og formæður báru fyrir náttúrunni og þeim verum sem þar búa. Um áramótin var sagt að álfar og huldufólk væru á ferð, í búferlaflutningum og því fylgdi hátíðleg stemning. Sagt var að þau færu um á fallegum hestum og í skrautlegum hestvögnum.

Áður fyrr var samband fólks við náttúruna nánara en við eigum að venjast í dag. Fólk ferðaðist gangandi eða ríðandi, í myrkri, stormi og snjó og var háð innsæi sínu, athygli og tengingu við umhverfið. Í slíkum aðstæðum er ekki erfitt að sjá fyrir sér að náttúruverur hafi komið fólki til hjálpar, jafnvel leitt það heim þegar skyggni var ekkert og leiðir horfnar.

Sumir gátu séð þessar verur, aðrir skynjað nærveru þeirra eða heyrt í þeim. Þannig er það enn í dag. Við erum misnæm á fíngerð svið náttúrunnar. Þeir sem rækta tengsl sín við hana, ganga með virðingu og opnum huga, geta fundið að náttúruverurnar láta á sér bera með ýmsum hætti. Á sumum stöðum finnum við jafnframt skýrt að við erum gestir og að þar sé óskað eftir friði og ró.

Víða um land eru álfabyggðir og staðir sem náttúruverurnar kjósa að halda helgum. Þar eru stundum staðarverðir, en einnig verur sem einfaldlega vilja engin samskipti við mannfólk. Að virða slík mörk er hluti af þeirri visku sem forfeður og formæður okkar kunnu og lifðu eftir.

Fjölmargar sögur eru til um hvernig náttúruverur hafa haft áhrif á framkvæmdir, svo sem vegagerð og húsbyggingar. Þar er oft lýst óútskýrðum atvikum: vélum sem bila, slysum sem verða og verkefnum sem ganga aldrei upp. Sagt er að sjaldan ríki friður í húsum sem reist eru í óþökk náttúruveranna.

Á hinn bóginn vita þeir sem sýna þessum verum virðingu að þær launa ríkulega fyrir velvild. Að taka tillit, hlusta og virða óskir þeirra hefur alltaf reynst fólki vel ekki bara í hinu veraldlega heldur einnig í orkulegu samhengi.

Þótt við köllum þessar frásagnir þjóðsögur, eru þær varðveittar af ástæðu. Þær geyma visku sem urðu til úr lífsreynslu, úr nánu sambandi mannsins við landið og náttúruna. Sú viska er ekki síður dýrmæt í dag, ef við gefum okkur tíma til að hlusta, nema og skynja þá veröld sem jafnan er okkur hulin.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband