Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Hvaðan kemur ástarskýið?

 

27. janúar 2018

Mörgum sinnum hef ég skrifað um ástina og hvernig ég hef upplifað hana í mínu lífi. Hvernig önnur manneskja hefur með nærveru sinni kveikt á (eða hjálpað mér að muna) minn guðlega kjarna.

Flest þekkjum við þá tilfinningu að vera ástfangin og finna hvernig eitthvað undursamlegt kviknar í brjóstinu á okkur sem lætur okkur líða eins og við svífum á bleiku skýi. Hvernig minningin um okkar sanna sjálf, okkar æðri þátt, verður allt í einu ljóslifandi og greinileg.

Ég hef velt þessari undursamlegu tilfinningu dálítið fyrir mér, hvernig þetta verður til, þetta bleika ský, hvaðan kemur þessi tilfinning? Kemur hún frá hinum aðilanum vegna þess að hann elskar mig svo mikið, eða kemur þessi tilfinning kannski frá mér sjálfri?

Þar staldraði ég við og fannst það einmitt vera þannig. Já ég gat samþykkt það fyrir mig að þannig hlyti það að vera, þessi tilfinning gæti ekki komið annars staðar frá en mínu eigin hjarta, því annars gæti ég ekki upplifað hana svona sterkt. Það gæti ekkert fyrir utan mig látið mér líða svona, þetta væri komið frá mér sjálfri, en annar aðili væri samt kveikjan að því.

Ég hélt auðvitað að engin hefði hugsað þetta svona og það kom mér því verulega á óvart þegar ég las bók nokkrum dögum eftir uppgötvun mína að þar stóð nákvæmlega það sama, að tilfinningin sem við finnum þegar við erum ástfangin komi frá okkur sjálfum, ekki öðrum.

Þegar ég las þetta í bókinni þá hugsaði ég, fékk ég hugmyndina úr bókinni áður en ég las hana vegna þess að efni bókarinnar var farið að tala við mig, eða var það vegna þess að ég þurfti að fá staðfestingu á þessari hugmyndafræði minni með lestri bókarinnar. Jæja skiptir ekki máli, en í bókinni segir reyndar að við getum alveg eins upplifað þessa tilfinningu ein með sjálfum okkur og það finnst mér ekki síður spennandi.

Einhvern vegin finnst mér það geti þá verið innra barnið sem kveikir þessa tilfinningu með okkur og að í gegnum það munum við ná að elska okkur sjálf á sama hátt og við elskum aðra og það sé þá leiðin til þess að minna okkur á það hver við erum. Þannig geti allir virkjað guðsneistann hið innra sama hvort þeir hafa annan aðila í efninu sér við hlið, eða eru einir.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is