|
Dómarinn
20. ágúst 2013
Myndum við samþykkja það ef einhver byði okkur dómara sem fylgdi okkur hvert fótmál? Dómara sem væri stöðugt að setja út á allt og alla – klæðaburð, útlit, líkamsburð, hegðun, tjáningu og fleira. Hann myndi ekki aðeins dæma aðra heldur líka okkur sjálf. Hann væri sífellt að finna að okkur, benda á líkamann, fasið, jafnvel hugsanir okkar. Og það er ekki allt – þessi dómari myndi líka gagnrýna umhverfið í heild sinni: grasið, húsin, fuglana, bíla, og allt sem tengist lífinu.
Við erum líklega sammála um að við myndum aldrei samþykkja slíkan fylgdarsvein. Það hljómar ekki vel. Engu að síður höfum við flest slíkan dómara í lífi okkar – innra með okkur. Þessi rödd gagnrýnir stöðugt allt sem við sjáum, upplifum og gerum, og þó hún geri okkur óánægð, þá höldum við áfram að leyfa henni að ráða ferðinni.
Hver er þessi fylgdarsveinn sem við höfum gefið svo mikið rými í lífi okkar? Hvers vegna látum við hann stjórna? Erum við sátt þegar hann bendir á „ljótu skóna“ sem konan á sem gengur fram hjá okkur, eða „illa greidda“ hárið á manninum sem situr þarna? Hvað um þegar við horfum í spegil og heyrum hann segja: „Ég lít hræðilega út, andlitið er þrútið og eyru hafa stækkað.“ Hversu oft á dag heyrir þú þessa rödd?
Ef við viljum minnka áhrif þessarar raddar, þurfum við fyrst að verða meðvituð um hana. Þegar við heyrum hana, getum við reynt að stoppa hana og spurt okkur sjálf: „Er þetta það sem ég vil trúa? Er þetta rödd kærleikans eða óttans?“ Þessi rödd dómarans hefur ef til vill fylgt okkur frá barnæsku og jafnvel gegnum fyrri líf. Hún hefur eflst og fest sig í sessi sem hluti af okkur, þrátt fyrir að hún sé ekki í takt við okkar sanna sálarkjarna, sem er bara hrein ást.
Dómarinn er hluti af varnarviðbrögðum okkar. Hann reynir að verja sárin okkar með því að beina athyglinni frá okkur sjálfum yfir á aðra. Hann byggir varnarvegg sem við teljum okkur þurfa til að vernda það sem við óttumst að aðrir sjái – það sem við teljum ófullkomið. En með því að hlusta á dómarann styrkjum við aðeins þessa veggi og höldum áfram að fela okkur.
Er ekki kominn tími til að leyfa okkur að vera við sjálf, óhrædd og óháð þessari gagnrýnu rödd? Við getum persónugert dómarann, lært að þekkja rödd hans og sagt honum kurteislega: „Nei, takk. Ég ætla ekki að hlusta ekki á þig.“ Í staðinn getum við valið að horfa á það jákvæða í heiminum. Fagnað því hversu einstök við erum og sjá fjölbreytnina sem fegurð, frekar en eitthvað til að dæma eða gagnrýna.
Lífið verður mun skemmtilegra þegar við losum okkur við dómarann.
Gefum honum frí – langt frí.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|