Einmanaleiki
Einmanaleiki þarf ekki endilega að tengjast því að við séum ein. Við getum verið umkringd fjölskyldu og vinum, á fjölmennum vinnustað, í margmenni en samt fundið fyrir djúpum einmanaleika. Einmanaleiki er innri tilfinning sem tengist okkur sjálfum og hefur í raun ekkert með aðra að gera, þó við kunnum stundum að halda það. Ef þessi tilfinning er mjög sterk innra með okkur breytist hún ekki með nærveru annarra, þar sem hún á uppruna sinn djúpt innra með okkur, ekki úr ytri aðstæðum.
Það er einnig hægt að líða vel með því að vera ein með sjálfum sér, án þess að finna nokkru sinni fyrir einmanaleika. Þetta er oft vegna þess að tilfinningin er ekki virk á þeim tíma. Sumir upplifa aldrei einmanaleika, þrátt fyrir að vera oft einir, á meðan aðrir líða fyrir hana. Þeir einstaklingar sem finna hana sterkt kjósa stundum einveru til að stíga inn í þessa tilfinningu og takast á við hana. Þeir kunna að velja einangrun eða fækka samskiptum við aðra til að takast á við innri líðan - meðvitað eða ómeðvitað.
Þegar við upplifum einmanaleika getum við spurt okkur hvort tilfinningin myndi hverfa ef við værum í félagsskap annarra. Ef við ímyndum okkur að vera umkringd fjölskyldu, vinum eða vinnufélögum og það breytir líðaninni, þá gæti félagsskapur verið það sem við þurfum. En ef þessi sýn breytir engu, þá er þetta djúp tilfinning sem tengist innri orku. Í því tilviki getur verið gagnlegt að skoða hvaðan tilfinningin kemur og hverjar rætur hennar eru, til þess að leysa hana upp.
Ef við finnum aldrei fyrir einmanaleika, sama hvort við erum ein eða í félagsskap, þá erum við laus við þessa tilfinningu. Margir upplifa einmanaleika þegar þeir standa frammi fyrir aðstæðum þar sem þeir þurfa að vera einir eftir að hafa vanist því að vera umkringdir fólki. Ef einmanaleiki kemur fram af því að okkur leiðist þegar við erum ein og við þráum að vera í félagsskap, þá gæti það verið merki um að við þurfum að vinna með þessa tilfinningu innra með okkur.
Við getum þurft tíma til að horfast í augu við einmanaleikann, hvort sem það tekur einn dag, margar vikur, mánuði eða jafnvel ár. Margir upplifa þessa tilfinningu sterkast þegar þeir flytja til nýs lands, þar sem þeir þurfa að skilja við fjölskyldu, vini og gamalkunnar aðstæður. Þó samskipti við ástvini séu auðveldari í dag vegna tækninnar, er það aldrei það sama og að vera í sama rými með sínu fólki.
Þessi reynsla getur verið hluti af vegferð sálarinnar til að horfast í augu við innri tilfinningu um einmanaleika. Enda er einmanaleiki innri tilfinning sem snýst ekki um aðra, heldur um okkur sjálf eins og allar aðrar tilfinningar.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |