Fegurð ástarinnar
Ást í ástarsamböndum snýst um einingu tveggja sálna, þar sem karl- og kvenorka mætast í fullkomnu jafnvægi. Sálirnar renna saman í dansi sem engin máttur getur rofið, því orka er aldrei aðskilin. Þær hafa bundist böndum sem haldast þar til þær ákveða annað. Þetta eru tvær sálarorkur eða sálarkúlur (sólir) sem hafa kosið að hittast í jarðlífinu í jarðneskum líkama, þar sem þær minna hvor aðra á guðlega ást.
Þessi eining getur átt sér stað í ólíkum samböndum. Ef ekkert raskar tengingunni - ekki persónuleikar, félagslegar hefðir, erfðaminningar eða áföll úr núverandi eða fyrri lífum - gæti þetta ástand ástarinnar varað að eilífu. Þessar sálir yrðu samtengdar óháð því hvort þær deila sameiginlegum áhugamálum eða ekki. Þær myndu styðja hvor aðra og treysta á ástina, gefa hvor annarri svigrúm til að vaxa og þroskast í takt við eigin lífsáætlun. Í slíkri einingu reyndi hvorug sálin að stjórna hinni, í trausti þess að ástin sé ætíð til staðar, sama hvert lífið leiðir þær.
Þó er þetta ekki alltaf svona einfalt. Mannfólkið er enn að þróast í áttina að upplifa svona dýpt í ástarsamböndum, og á meðan við erum enn að vinna úr hindrunum sem fjarlægja okkur frá okkar sanna sjálfi, munu árekstrar halda áfram að koma upp. Þrátt fyrir það er ástin sá máttur sem dregur fólk saman; það eru samningar sem eru gerðir á milli sálnanna áður en þær fæðast um að deila hluta eða öllu lífinu saman.
Þegar þessar sálir horfast í augu í fyrsta sinn, kviknar neisti í hjartanu. Það er eins og innbyggður „radar“ sem minnir þær á hina guðlegu ást sem býr innra með þeim. Þessi tenging opnast þó ekki fyrir allar sálir sem hittast á lífsleiðinni, heldur aðeins þær sem hafa valið að deila lífinu saman.
Ástin er til staðar löngu áður en sálirnar mætast í efnisheiminum. Þær hafa þegar dansað saman í orkunni áður en þær hittast í jarðneskum líkama, og þegar þær loks mætast, vaknar þessi minning innra með þeim - þessi sterka þrá. Enn eigum við erfitt með að skilja hversu mikill máttur býr í ástinni. Hún er aðdráttaraflið sem dregur fólk saman vegna samninganna sem gerðir voru um að minna hvort annað á hina guðlegu ást sem býr hið innra. Ástarsambönd eru sterkasta leiðin til að minna á þann kærleikskraft sem sálin býr yfir.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |