Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Fyrstu frímínúturnar



Þegar fyrstu kennslustundirnar voru búnar var komið að löngu frímínútunum. Allir áttu að fara út. Hún hafði ekki enn náð að kynnast neinum og átti því engin tengsl. Hún fylgdi bara hópnum niður í kjallarann, að útiklefanum þar sem útifötin voru geymd.

Á leiðinni í langa ganginum heyrði hún skyndilega rödd:
„Þú ert ljót.“

Það var jafnaldra hennar sem sagði þetta. Einn af eldri krökkunum brást við og sagði:
„Maður segir ekki svona við aðra.“

Hún hafði aldrei áður heyrt þessi orð beint að sér. Aldrei höfðu foreldrar hennar, afi, amma eða systkin sagt að hún væri ljót. Hún hafði ekki einu sinni hugsað út í að fólk gæti verið ljótt. En orðin stungu hana djúpt, þótt hún skildi ekki alveg hvers vegna.
„Þetta er allt í lagi,“ svaraði hún þeirri eldri sem hafði varið hana.

Á leiðinni út hugsaði hún: Af hverju sagði ég að þetta væri allt í lagi? Er það í lagi að einhver segi að maður sé ljótur? Ætli ég sé það? Ég hlýt að vera það fyrst stelpan sagði það.

Jakkinn

Hún hélt áfram að útiklefanum, hugsi yfir þessum orðum. Þar klæddi hún sig í útifötin: leðurjakka og skó sem hún hafði fengið að heiman. Einhver ættingi hafði gefið systkinunum jakkann, og hún fékk að eiga hann og taka með sér í skólann.
Móðir hennar hafði þó verið efins um að nota hann sem yfirhöfn. En það var komið vor, byrjun maí, og líklega ekki von á vondu veðri.

„Þetta er strákajakki,“ sagði einhver við hana á leiðinni út.
Strákajakki? Hún hafði ekki hugsað út í það. Gat verið að þetta væri strákajakki?
Hún sneri við, fór úr jakkanum og gekk út á peysunni. Hún var hvort sem er svo hlý, að hún gat alveg verið þannig úti.

Ein á skólalóðinni

Þegar hún kom út voru allir sem hún hafði verið samferða horfnir. Þar stóð hún, alein. Hún vissi ekki hvað hún ætti að gera. Enginn sem hún hafði séð áður var í kring. Hún rölti eftir gangstéttinni fyrir framan skólann, þar til hún sá stelpurnar sem deildu með henni herbergi. Þær voru farnar að leika sér.

Hún stóð hjá og horfði á, þangað til henni var boðið að taka þátt. Hún vildi ekki troða sér inn í leikinn, enda vissi hún ekki alveg hvað þær voru að leika. Hún var ekki viss um að leikurinn væri skemmtilegur.

Frímínúturnar liðu þó fljótt, þótt henni fyndist tómlegt fyrir utan skólann. Þar var aðeins hellulögð gangstétt, plan fyrir bíla og fótboltamörk. Boltavöllurinn var strákanna, og hún kunni hvort sem er ekki fótbolta.

Heimþrá

Henni fannst allt svo gjörólíkt því sem hún þekkti að heiman. Þar gat hún hlaupið út í fjöru, upp brekku eða verið með dýrunum. Hér var aðeins afgirt skólalóð, hellulögð gangstétt og grasblettir. Engin fjara, engin brekka, engin leikföng, engin dýr.
Hún saknaði foreldra sinna, systkina, heimilisins og umhverfisins. Hér var bara skólinn, ókunnug börn sem hún þekkti ekki og henni fannst hún ekki tilheyra. Hún þráði að fara heim – en vissi að það var ekki í boði. Hún hafði enga leið til að láta vita hvernig henni leið.

Hún var gráti nær, en ákvað að láta ekki sjá það. Hún ætlaði ekki að gefa hinum krökkunum færi á að sjá hana gráta.

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband