Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Grímurnar falla

 


Í gegnum ótal jarðvistir höfum við tilheyrt eða verið innan hópa sem hafa leitað þess andlega á einhvern hátt.  Forystan hópsins setti/setur þá hópnum einhvers konar reglur og siða-boðskap sem fólki þykir vissara að hlýða til þess að falla inn í hópinn. Ef reglunum var/er ekki fylgt þá er strax kominn ágreiningur og þá er reglubrjóturinn litinn hornauga, umtalaður eða útskúfaður. Þannig að til þess að fylgja og vera meðtekin í leikritinu þá voru settar upp ákveðnar grímur til þess að láta ekki sjást undir yfirborðið.

Oft höfum við látið til leiðast og verið í þeirri sannfæringu að við tilheyrðum hinum eina sanna trúarbragðahópi eða andlega hópi og að sú leið lægi að hinu æðsta markmiði, „að öðlast uppljómun, eða minnsta kosti himnasæluvist.“

Þá var einnig sannfæring í gangi að sá hópur sem við tilheyrðum gæti náð í fleiri sálir úr hinum hópunum sem þyrfti að bjarga með því að tala um fyrir þeim. Sá hópur sem við tilheyrðum hefði allar lausnir og ráð fyrir aðra og hinir væru að vaða í villu og væru í vondum málum.  

Þá hefur auðvitað áhrif að við fæðumst inn í ákveðna trúarbragða hópa eða andlega hópa og það þarf oft kjark og áræðni til þess að losa sig undan þeirri innrætingu sem hefst strax í barnæsku hvers lífs. Það verður líka oft til þess að fjölskyldur liðast í sundur og einhverjir úr henni verða settir utangarðs þar sem þeir eru ekki lengur að fylgja reglum hópsins.  Stundum tilheyrum við sama trúarbragðahópnum í mörgum jarðvistum og þá getur verið enn þá erfiðara að slíta þau orkunet sem hafa myndast í kringum samvitund hópsins.  

Það sem hefur þó verið að gerast undanfarin ár er að fleiri og fleiri eru að sjá í gegnum blekkinguna sem er í kringum trúarbrögð og einnig allskyns andlega hópa, því oft eru mjög fast mótaðar skoðanir og reglur einnig í andlegum hópum og mikill rígur á milli þessara hópa.

Sem betur fer eru margir að sjá að það þýðir ekki að deila við aðra um trúarbrögð eða andleg mál því hver og einn hefur sinn sannleika og það er engin lausn að deila um þann sannleika. Allir hafa sinn rétt á að hafa sinn sannleika í því sem þeir trúa og telja að sé þeirra leið að uppljómun, eða himnaríki.

Þrátt fyrir að boðskapur trúarbragða og andlegra hópa sé oftast um ást, frið, sameiningu og vellíðan í andlegri upplifun þá er það þó oft þannig að sundrung er bæði innan og utan hópanna.  Það er eins og það verði árekstrar í orkunni sem leiða til þess að fólk finnur að það er ekki lengur velkomið eða að það þolir ekki lengur við og það er oft þá sem grímurnar falla og leikritið er krufið til mergjar.

Kraftur orkunnar sem jörðin hefur verið að meðtaka síðustu ár í gegnum fótónuorkuna er að valda því að sérhver sál er að skoða út frá sínu hjarta og innsæi hvort hún sé á réttri leið. Hvort köllun hennar tilheyri hópnum og ef ekki þá yfirgefur hún hópinn og/eða hópurinn leysist upp.  

Hver manneskja getur verið með margar mismunandi grímur hverja utan yfir aðra þó þær séu byggðar á sama grunni enda getur hún hafa verið í öllum þessum hópum í gegnum fjölbreyttar jarðvistir.  Það kemur þó að því að við finnum að við getum verið frjáls hvert á sinn hátt þar sem frelsið felst í því að vera maður sjálfur án þess að þurfa grímu og leyfa líka öðrum að vera þeir sjálfir án þess að reyna að hafa áhrif á þá.


 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

 

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband