|
Höfnunartilfinningin
Það kemur að því í lífinu að við finnum að sárið sem býr djúpt innra með okkur vill loksins verða séð.
Tilfinningar sem við höfum geymt árum saman fara að banka á dyrnar og biðja um að vera viðurkenndar, ekki til að dæma, heldur til að heila.
Höfnunartilfinningin er ein þeirra. Hún birtist á marga vegu, en ávallt með sama undirliggjandi boðskap: „Sjáðu mig. Finndu mig. Elskaðu mig.“
Höfnunartilfinning hefur fylgt mér svo sterkt í gegnum lífið að hún hefur nánast orðið líkamlega áþreifanleg. Ég hef oft upplifað að mér hafi verið hafnað, að ég sé öðruvísi, ekki samþykkt í hópinn, og að ég megi ekki vera eins og ég er. Stundum finnst mér eins og allir vilji mótmæla því hvernig ég er, hvað mér finnst og hvernig ég skynja heiminn.
Höfnunartilfinningin birtist ekki aðeins í þeirri upplifun að vera hafnað, heldur einnig í þeirri tilfinningu að ég eigi ekkert gott skilið. Hún hefur haft djúp áhrif á sjálfsmynd mína og gert mér erfitt fyrir að vera stolt af því sem ég hef gert vel. Ég finn einnig fyrir henni gagnvart nánustu fjölskyldu minni og því sem þau hafa náð að gera vel.
Þetta hefur stundum komið fram eins og vanþakklæti eins og ég kunni ekki að meta það sem vel er gert, og að ég eigi erfitt með að taka á móti því sem mér er gefið. Með þessu fylgir djúp skömm: skömm yfir því að eiga erfitt með að þiggja, njóta og leyfa mér að vera glöð og þakklát. Undirrótin er sú tilfinning innra með mér að ég eigi það ekki skilið.
Ég hef verið snillingur í að hafna eigin tilfinningum. Ég hef forðast þær eins og heitan eldinn og bælt þær niður um leið og þær komu upp á yfirborðið. Að viðurkenna þær og leyfa mér að finna þær hefur verið mér átak, en smám saman er ég að læra að beina athyglinni inn á við.
Ég reyni að upplifa tilfinningarnar í gegnum líkamann, leyfa þeim að koma og viðurkenna að ég hef verið særð. Ég geri mér grein fyrir að ég hafi frosið í sársaukafullum aðstæðum, þess vegna eru þær þarna enn. Þær lifa áfram vegna þess að ég hafði ekki getu til að horfast í augu við þær þegar þær urðu til. Hugurinn rifjar þær upp annað slagið og heldur þeim lifandi; hann kann ekkert annað á meðan þær eru til staðar.
Stundum er einfaldlega of sárt að viðurkenna erfiðar tilfinningar. Þá er auðveldara að bæla þær niður og hafna þeim. Þannig höldum við stundum áfram í gegnum lífið sérstaklega þegar áreiti og aðkast eru hluti af daglegri tilveru, til dæmis þegar við erum börn og höfum ekki enn þróað færni til að vinna úr því sem við upplifum.
Höfnunartilfinningin birtist á ótal sviðum. Við erum aldrei alveg ánægð með það sem við sköpum; sama hversu fallegt það er, þá finnst okkur alltaf að það sé ekki nógu gott.
Hún getur komið fram í því að við erum ekki sátt við húsið sem við búum í, bílinn sem við ökum eða kaffið sem við hellum upp á. Hún brýst út alls staðar og við skiljum ekkert í því af hverju þetta er svona.
Við teljum hana oft dulda, en í raun er hún það ekki. Þegar hún er til staðar endurspeglast hún í öllu sem við gerum og upplifum. Við höfnum ekki aðeins okkur sjálfum, heldur einnig þeim sem við elskum og öllu því góða sem við eigum.
Við segjum það ekki upphátt við myndum aldrei viðurkenna að við höfnum börnum okkar, foreldrum, mökum eða vinum, því við elskum þau. En samt berum við þessa orku innra með okkur. Hún verður sterkust þegar við erum meðal annarra.
Við gætum hafnað því að eignast barn, maka eða vini. Við gætum hafnað því að leyfa okkur að njóta lífsins, að taka á móti ást og gleði. Við gætum jafnvel hafnað húsinu sem við búum í, menntuninni sem við höfum aflað okkur eða starfinu sem við vinnum við. Jafnvel þótt við höfum þetta allt, getur tilfinningin verið sú að við eigum það ekki skilið.
Höfnunin birtist líka í námi og starfi sem sú tilfinning að við gerum aldrei nógu vel. Það þarf ekki að endurspegla raunveruleikann: við gætum verið með hæstu einkunnir eða frábæra frammistöðu í starfi, en samt trúað að það sé ekki nóg. Þannig heldur höfnunin áfram að grafa undan okkur.
Ég sjálf hef lengi verið snillingur í að hafna tilfinningum mínum. Ég lærði það snemma, en ég hef líka lært að skrifa um þær, tala um þær og nú er komið að því að upplifa þær. Ég leyfi þeim að sigla út úr orkukerfinu, út úr líkamanum.
Ég hafnaði þeim svo sterkt að í mörg ár gat ég ekki grátið ekki einu sinni þegar sorgin var djúp. Líkaminn geymdi þær fyrir mig, svo ég gæti grátið síðar. Ég gat ekki sagt frá þegar einhver særði mig eða beitti mig ofbeldi ekki fyrr en löngu síðar.
Til þess að heila þessa tilfinningu hefur lífið sent mér fólk sem ber sömu orku innra með sér. Í kringum mig hefur fólk speglað höfnunina, sýnt mér hvernig hún birtist út á við. Ef ég hefði aðeins fundið hana innra með mér, hefði mér reynst erfiðara að skilgreina hana og átta mig á því að hún er ekki bara mín hún býr í ótal öðrum.
Höfnunartilfinningin, eða sjálfsfyrirlitningin, tengist annarri orku fórnarlambshlutverkinu. Þegar við förum inn í höfnunina setjum við upp varnarveggi gagnvart öðrum. Við höfnum áður en okkur verður hafnað, svo við þurfum ekki að finna til. Þannig lokum við okkur inni, jafnvel frá gleðinni sem felst í að vera á meðal fólks.
Tilfinningin getur orðið svo sterk að við einöngrum okkur og segjum: „Þetta er hvort sem er leiðinlegt,“ eða „þau vilja hvort sem er ekki hafa mig með.“ En undir þessum orðum býr óttinn við að vera hafnað.
Við berum þessa tilfinningu í hljóði en hún er ekki jafn dulin og við höldum. Þegar við erum innan um annað fólk, finna þeir sem sjálfir glíma við höfnunina fyrir henni. Þeir skynja hana eins og hún beinist að þeim, þó ekkert sé sagt. Við speglum tilfinningar hvers annars jafnvel þær sem við reynum að fela.
Á meðan höfnunartilfinningin er enn til staðar, geislar hún út í orku okkar. En við höfum vald til að breyta því. Þegar við lítum inn á við, finnum við að undir sársaukanum býr þrá eftir ást, eftir okkar eigin samþykki á því hver við erum.
Þegar við opnum hjartað fyrir ást og sjálfsmildi, opnast nýjar dyr. Þá uppgötvum við að við höfum í raun aldrei verið aðskilin, hafnað eða öðruvísi, við höfum alltaf verið partur af sama ljósinu.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|