Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Höfnunartilfinningin


Höfnunartilfinning hefur fylgt mér svo sterklega í gegnum lífið að hún hefur nánast orðið líkamlega áþreifanleg, í vöðvum og í orkunni. Margoft hef ég upplifað að mér hafi verið hafnað, að ég sé öðruvísi, ekki samþykkt í hópinn og að ég megi ekki vera eins og ég er. Stundum finnst mér eins og allir vilji mótmæla því hvernig ég er, hvað mér finnst og hvernig ég skynja heiminn.

Höfnunartilfinningin birtist ekki aðeins í þeirri upplifun að vera hafnað heldur líka í þeirri tilfinningu að ég eigi ekkert gott skilið. Þetta hefur haft áhrif á sjálfsmynd mína og gert mér erfitt fyrir að vera stolt af því sem ég hef gert vel. Ég finn einnig fyrir þessari tilfinningu gagnvart nánustu fjölskyldu minni og því sem þau hafa náð að gera vel. Þetta hefur oft komið út eins og ég sé vanþakklát – að ég kunni ekki að taka við því sem mér er gefið eða sem mér hefur verið fært í lífinu. Með þessu fylgir einnig djúp skömm – skömm yfir því að eiga erfitt með að þiggja, að taka á móti og njóta, vegna þess að ég tel mig ekki eiga það skilið.

Ég hef verið snillingur í að hafna eigin tilfinningum. Ég hef forðast þær eins og heitan eldinn og oft bælt þær niður um leið og þær komu upp á yfirborðið. Að viðurkenna þær og leyfa mér að finna fyrir þeim hefur verið mér átak, en ég er þó smám saman að læra að beina athyglinni inn á við. Ég reyni að upplifa mínar eigin tilfinningar í gegnum líkamann, leyfa mér að finna þær þegar þær koma og viðurkenna að ég hef verið særð og þess vegna séu þær þarna. Þessar tilfinningar eru enn til staðar vegna þess að ég hafði ekki getu til að horfast í augu við þær þegar þær urðu til.

Stundum er það einfaldlega of sárt að viðurkenna erfiðar tilfinningar, og þá er auðveldara að bæla þær og hafna þeim. Þannig höldum við stundum áfram í gegnum lífið, sérstaklega þegar áreiti og aðkast er hluti af daglegri tilveru – þegar við erum börn og höfum ekki færni til að vinna úr því sem við upplifum.

Þessi tilfinning birtist á ótal sviðum. Við erum aldrei ánægð með fötin okkar, sama hvað við eigum. Við finnum okkur aldrei fullkomlega sátt í því húsnæði sem við búum í eða með bílinn sem við ökum. Við erum jafnvel ósátt við kaffið sem við lögum, þó það sé ekkert verra en kaffið sem aðrir búa til. Höfnunartilfinningin er alls staðar, falin hið innra, en samt svo sterk og áhrifamikil.

Höfnunartilfinningin er svo dulin – eða það höldum við. En í raun er hún það ekki. Þegar hún er til staðar, þá kemur það fram í öllu sem tengist okkur. Við höfnum ekki aðeins okkur sjálfum heldur einnig þeim sem við elskum, öllu sem við eigum og öllu sem við gerum. Við segjum það ekki upphátt, við tölum ekki um það opinberlega að við höfnum barninu okkar, foreldrum okkar, öfum og ömmum, maka eða vinum. Við vitum að við elskum þessa einstaklinga af öllu hjarta og myndum aldrei segja það, en engu að síður berum við þessa tilfinningu innra með okkur. Hún verður sterkust þegar við erum meðal annarra.

Við gætum hafnað því að eignast barn, maka eða góða vini. Við gætum hafnað því að leyfa okkur að njóta lífsins, eignast hús, sækja okkur góða menntun eða starfa við vinnu sem veitir okkur ánægju. Jafnvel þótt að þetta sé allt í okkar lífi, getur verið að okkur finnist við ekki eiga það skilið, við séum ekki þess verð eða séum ekki nóg. Höfnunin birtist einnig í skóla og vinnu – við höfum sífellt tilfinningu um að við séum ekki að gera nógu vel. Þetta þarf ekki að vera raunverulegt; við gætum verið með hæstu einkunnir en samt trúað að við höfum ekki staðið okkur nógu vel. Við gætum verið framúrskarandi í starfi en samt efast um eigin getu og hæfni. Þannig er höfnunin sífellt að grafa undan okkur.

Ég sjálf er til dæmis snillingur í að hafna tilfinningum mínum. Ég hef lært það í gegnum árin, en ég hef líka lært að skrifa um þær, tala um þær – og núna er komið að því að upplifa þær, leyfa þeim að sigla út úr orkukerfinu og líkamanum. Ég hafnaði tilfinningum mínum svo sterklega að í mörg ár gat ég ekki grátið, ekki einu sinni við mjög sorglega atburði. Ég hafnaði þeim svo fast að líkaminn þurfti að geyma þær fyrir mig, svo ég gæti grátið síðar. Ég hafnaði því þegar einhver var vondur við mig, særði mig í orðum eða beitti mig líkamlegu ofbeldi. Ég gat ekki sagt frá því, ekki fyrr en löngu seinna.

Til þess að losa út alla þessa höfnunartilfinningu hef ég fengið fólk inn í líf mitt sem ber sömu tilfinningu innra með sér. Allt í kringum mig hefur fólk speglað þessa tilfinningu, sýnt mér og leyft mér að finna hvernig hún birtist út á við. Ef ég hefði aðeins upplifað hana innra með mér, án þess að sjá hana speglast í öðrum, hefði mér reynst erfiðara að skilgreina hana, átta mig á henni og átta mig á því að hún er ekki bara mín – heldur býr hún í ótal mörgum öðrum.

Höfnunartilfinningin, eða sjálfsfyrirlitningin, á eina tilfinningu sem er samofin henni og það er fórnarlambshlutverkið. Þegar við förum inn í höfnunartilfinninguna setjum við upp varnarveggi gagnvart öðrum. Við höfnum áður en okkur verður hafnað, vegna þess að við viljum ekki eiga á hættu að upplifa höfnun. Þannig útilokum við jafnvel annað fólk, útilokum gleðina í lífinu sem fylgir því að vera á meðal fólks. Tilfinningin getur orðið svo sterk að við lokum okkur af og einöngrum okkur. Þá kemur fórnarlambið til sögunnar. Við segjum við okkur sjálf að þetta sé hvort eð er svo leiðinlegur hittingur, að okkur þyki ekkert gaman með þessu fólki, og jafnvel að þessu fólki þyki ekkert gaman að hafa okkur með. En raunin er sú að undir niðri liggur óttinn við að vera hafnað.

Við berum þessa tilfinningu í hljóði, en hún er samt til staðar – og hún er ekki jafn dulin og við höldum. Þegar við erum innan um annað fólk, finna þeir sem sjálfir glíma við höfnunartilfinningu fyrir henni. Þeir skynja hana eins og höfnun gagnvart sjálfum sér, jafnvel þótt ekkert sé sagt eða gert. Við speglum tilfinningar hvers annars, jafnvel þær sem við viljum ekki viðurkenna.  

Á meðan höfnunartilfinningin er þarna ennþá þá geislar hún út í orkunni okkar, en við höfum þó vald til að breyta því. Með því að taka eftir því hvernig hún birtir sig og vinna með hana af ást og skilningi þá smám saman getum við heilað hana. Þegar við gefum okkur sjálfum rými til að heila, opnast nýjar dyr – dyr að meiri sjálfsást, frelsi og dýpri tengingu við aðra."

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband