Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Hvernig ég skynjaði Guð

12. mars 2009

Ég hef alla tíð trúað því að til sé orka sem er eitthvað meira og stærra en við skynjum í daglegu lífi. Þrátt fyrir að ég hafi ekki alltaf vitað hvernig átti að skilgreina hana eða hvernig hún virkar. Það var hughreystandi að vita að ég gæti talað við einhvern sem skildi mig fullkomlega og samþykkti mig eins og ég er. Ég þurfti aldrei að skammast mín fyrir neitt gagnvart þessari orku, því hún vissi allt um mig og elskaði mig skilyrðislaust.

Ég sé ekki Guð sem einhvern sem situr uppi í himingeimnum, á sama stað og tunglið. Guð er ekki “geimkall,” eins og sumir vilja segja. Þessi orka er miklu meira en það – hún er allt í öllu, bæði í okkur sjálfum og öllu í umhverfinu. Við erum umlukin henni og erum hún hvern einasta dag. Hún streymir stöðugt til okkar, og við drögum hana að okkur með hverjum andardrætti. Því meðvitaðari sem við erum um þessa orku, því sterkar finnum við fyrir henni.

Að skynja þessa orku sterkt er eins og að upplifa algjöra kærleiksvitund. Það er að elska allt og alla – líf og náttúru, fólk og dýr, jörðina og það sem er handan hennar. Þegar við tengjumst þessari orku, sem sumir kalla Guð, finnum við fyrir djúpum kærleika til alls. Þá hverfur hugmyndin um óvini; við sjáum aðeins yndislegar sálir á eigin leið til andlegs þroska. Þetta er tilfinningin sem ég upplifi þegar ég náði djúpri tengingu við þessa orku. Þá verður allt sem áður virtist mikilvægt í veraldlegum skilningi svo ótrúlega léttvægt. Hvort maður á hús eða farartæki skiptir ekki lengur máli, því maður finnur að það sem skiptir máli er einfaldlega að vera til, að njóta lífsins og trúa á að maður hafi allt sem maður þarf hverju sinni.

Tengingin við þessa orku færir mann nær skilningi á tilgangi lífsins. Þegar sá skilningur rennur upp fyrir manni verður lífið einfaldara, og verkefni sem áður virtust óyfirstíganleg verða eðlileg og auðveld.

Eftir að ég fór að opna orkustöðvarnar með markvissri öndun – þar sem ég beini athyglinni að hverri orkustöð fyrir sig – hef ég betur skilið þessa orku sem við köllum Guð eða alheimsorkuna. Þessa orku er hægt að draga inn í líkamann í gegnum allar orkustöðvarnar, en sterkasta tengingin næst oft í gegnum höfuðstöðina. Þegar maður andar henni markvisst inn, getur hún fyllt allan líkamann. Ef maður finnur fyrir sársauka eða óþægindum í líkamanum, er hægt að beina þessari tæru, hvítu, heilandi orku inn í þann stað og oft mildast eða hverfur sársaukinn. Þessi orka er ótrúlega mögnuð, en það þarf að vinna meðvitað að því að virkja hana, trúa á hana og leyfa henni að flæða frjálslega.

Til að ná sem bestum árangri hef ég lært að hefja öndunina í rótarstöðinni, sem hefur þéttustu tíðnina, og færa mig svo upp eftir orkustöðvunum, þar til ég næ höfuðstöðinni. Orkutíðnin hækkar eftir því sem farið er ofar, og með góðri jarðtengingu er hægt að opna fyrir sterka og hreina tengingu við þessa orku í efstu orkustöðinni.

Eitt sinn sat ég út í hrauni upp í Bláfjöllum að hugleiða þegar ég skynjaði í fyrsta sinn guðsorkuna á mjög sterkan og áþreifanlegan hátt. Mér fannst ég jafnvel sjá Guð sem veru, með innri sjón. Á þessum tíma hafði ég verið að senda fjarheilun í marga daga og hafði einbeitt mér að því að anda með orkustöðvunum.

Ég byrjaði, eins og vanalega, að anda inn í neðstu orkustöðina og færði mig upp eftir stöðvunum, einbeitt mér að hverri í einu þar til ég náði höfuðstöðinni. Þegar ég hafði andað þannig í dágóða stund, fór ég að skynja þessa hvítu orku á ótrúlega sterkan hátt. Orkan virtist nánast áþreifanleg. Um leið byrjaði ég að sjá, með þriðja auganu, risastóra veru með vængi – nánast eins og engil. Ég varð bæði hissa og forvitin og spurði samstundis: „Ha, Guð, ertu með vængi?“

Um leið og orðið „vængir“ hafði farið í gegnum huga minn, hurfu vængirnir. Þá heyrði ég hlæjandi svar frá verunni: „Hvernig viltu hafa mig?“ Þetta kom mér á óvart, en samt skildi ég í augnablikinu að Guð birtist okkur í þeirri mynd sem við viljum sjá hann eða hana– eða þeirri mynd sem hann/hún kýs að sýna okkur. Ef við ímyndum okkur Guð með vængi, birtist hann þannig. Ef við sjáum hann sem karlkyns, þá birtist hann þannig – og ef við sjáum hann sem kvenkyns, þá birtist hann þannig.

Guð er orka, en þessi orka getur tekið á sig hvaða mynd sem við erum tilbúin að skynja. Orkan sem ég fann þarna í Bláfjöllum var svo mögnuð að hún hafði djúp áhrif á mig. Ég hélt áfram að anda henni inn í allan líkamann í dágóða stund, þar til ég varð algjörlega eitt með henni. Öll vanlíðan og sársauki, bæði líkamlegur og tilfinningalegur, hurfu. Lífið sjálft var aðeins núið.

Eftir þessa upplifun leið mér einstaklega vel í tvo daga á eftir. Ég fann hvernig ég gat haldið áfram að anda orkunni inn með öllum líkamanum og skynjaði orku alls í kringum mig – fjalla, trjáa, steina og alls umhverfisins. Á þessum dögum fann ég greinilega að þessi tenging var ekki einungis bundin við mig. Allir hafa þessa orku og eru tengdir við hana hvert einasta augnablik. Öndunin er til staðar í öllum orkustöðvunum, þó að flestir séu ómeðvitaðir um það.

Það er hægt að anda að sér orku fjalla, jökla, trjáa, orkusteina, sjávar og alls annars– frá hverju því sem hugurinn getur ímyndað sér. Þessa orku má draga inn í einstakar orkustöðvar eða inn í allan líkamann í gegnum höfuðstöðina. Það sem gerir þessa reynslu einstaka er að þegar við hugsum eitthvað, þá verður það nánast samstundis hluti af okkar orku. Þess vegna er mikilvægt að vera meðvitaður um hvað maður hugsar vegna þess að þegar orkusviðið hefur verið víkkað þá verður maður opnari fyrir öllu í umhverfinu - allri orku.



Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband