|
Ímyndunarveruleiki barna
Þegar börn fæðast þá eru þau ekki bara ósjálfbjarga með litlar hendur og forvitin augu heldur bera þau með sér visku sálarinnar.
Sum börn koma inn í lífið með einstakan hæfileika til að skapa sinn eigin ímyndaða veruleika. Þau geta verið mjög ung þegar þau byrja að móta og lifa í þessum heimi. Börnin halda þessum ímyndaða heimi sínum algjörlega fyrir sig og fólkið í kringum þau veit oft ekkert hvað fer þar fram. Þau sjá að börnin virðast „eins og í öðrum heimi“ eða annars hugar og eiga stundum í djúpum samræðum við ósýnilega vini, en átta sig ekki á að börnin hafa sjálf skapað þessar persónur og leikendur sem þau eiga í samræðum við.
Eins og ég sé þetta, er ástæðan fyrir þessum meðfædda hæfileika barnanna djúpstæð. Við vitum að börn eru ekki bara börn þau eru meðvitaðar sálir. Og það eru sálirnar sem vita að barnið muni eiga erfitt með að höndla þann veruleika sem blasir við þegar það kemur til jarðar. Það verður til þess að barnið fer að skapa sinn eigin heim með persónum og leikendum, svo langt sem hugmyndaflug þess nær. Það gerist þegar það áttar sig á að heimurinn sem það hefur komið inn í er einhæfur, litlaus og harðneskjulegur.
Barnið sem býr til þessa ímynduðu veröld byrjar oft mjög snemma að nýta sér þessa hæfileika. Það þróar eigin persónur og skapar sinn eigin heim. Það býr jafnvel til sitt eigið heimili innan veggja þess raunveruleika sem það elst upp á. Það skapar sína eigin persónu, sem fær útlit, nafn, aldur og kyn og verður aðalpersónan í þessum ímyndaða heimi. Barnið getur einnig valið að vera allt önnur persóna en það sjálft, ef það vill upplifa sig sem einhvern annan í eigin leikriti.
Auk aðalpersónunnar skapar barnið fjölda annarra persóna sem verða virkir þátttakendur í þessum heimi, það eru foreldra, ömmur, afa, systkini, vinir, skólafélagar og síðar í lífinu jafnvel vinnufélaga, kærastar eða kærustur, allt eftir því sem þroski og ímyndunarafl barnsins leyfir.
Þegar börn skapa sér svona ímyndaðan heim, gera þau það oft til að flýja aðstæður sem þeim finnst annað hvort litlausar og tilgangslitlar, eða svo erfiðar að þau ráða illa við þær. Í slíkum tilfellum verður hinn ímyndaði heimur eins konar huggari og heilari fyrir barnið.
Það er eins og þau séu meðvituð sem sálir að þau muni þurfa einhvers konar haldreipi til að komast í gegnum fyrstu ár lífsins. Með því að skapa sinn eigin heim getur barnið haldið betur í minninguna um þá ást, mildi og kærleika sem það kemur með úr hinum andlega heimi úr minningarsjóði þeirrar andlegu víddar og heima sem það er að koma úr.
Í þessum ímyndaða heimi eru aðstæðurnar allt öðruvísi þar eru vinaleg samskipti, hlýja og mild orka. Þar ríkir meiri ástúð á milli fólks og samskiptin eru mýkri, hlýrri og full af kærleika. Samböndin milli ímynduðu persónanna eru oft miklu kærleiksríkari en þau sem barnið upplifir í raunveruleikanum.
Í þessum heimi heldur barnið í djúpa vitneskju sem sálin ber með sér, að á milli fólks geti ríkt hlýja, gleði og kærleikur jafnvel þó að ytri aðstæður segi annað. Ef aðstæður í lífi barnsins einkennast af hörku, skorti á hlýju eða öryggi, þá býr það sér til eigin veruleika til að höndla reynsluna. Þar finnur það rými til að draga sig inn í sinn eigin heim og hlúa að tilfinningum sínum í öruggu og ástúðlegu umhverfi sem það hefur sjálft skapað.
Foreldrar hafa stundum miklar áhyggjur þegar börnin sýna þessa hæfileika, þar sem þau sjá þau annars hugar, í hróka samræðum eða leikjum þar sem enginn annar virðist sjáanlegur. En í raun er engin ástæða til að óttast þetta ástand. Þegar barnið fær næga athygli, öryggi og ást í hinum raunverulega heimi, þá minnkar þörfin fyrir hinn ímyndaða heim og hann hverfur smám saman.
Í raun og veru er því engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Þegar börnin þurfa ekki lengur á hinum ímyndaða heimi að halda til að komast af í lífinu, þá hverfur þessi leikur, sem þróaðist í upphafi barnæskunnar, af sjálfu sér.
Lengst af skammaðist ég mín fyrir að vera „sú skrítna“ eins og enginn annar hefði upplifað lífið á þennan hátt. Þessi heimur minn var ósýnilegur öðrum, og enginn vissi hvað raunverulega var í gangi. En fyrir mig var þetta lífsnauðsynlegt athvarf, leið til að halda í minninguna um það hver ég er sem ljósvera.
Það var í þessum heimi sem ég fann öryggi, mýkt og þá næringu sem barnið innra með mér þráði svo heitt. Að geta skapað eigin innri veröld fulla af ást og töfrum var ekki bara leikur heldur djúpstæð þrá eftir að lifa í veruleika þar sem ást og eining ríkir.
Nú sé ég þetta sem gjöf og vona að fleiri börn fái að halda í sína innri ímynduðu veröld, þar til þau eru tilbúin að færa þá töfra inn í okkar ytri heim.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|