Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Innsæið og hvernig má efla það

 

Við vitum að til þess að við getum náð ákveðnum árangri þá þurfum við að æfa það aftur og aftur þangað til það tekst. Þetta á líka við um innsæið, til þess efla innsæið þá þurfum við að taka eftir þeim skilaboðum sem það sendir okkur og fylgja þeim. Hlusta á skilaboðin sem það sendir hvern dag, hvert augnablik, þegar það vekur athygli okkar á því sem fyrir augu og eyru ber og einnig í gegnum innri sjón og skynjun. Stundum tölum við um að fá eitthvað á tilfinninguna. Þetta snýr líka að draumum, hvernig við tökum eftir draumum og túlkum þá. Það er líka um að hafa tilfinningu fyrir einhverju, eitthvað í hjartanu segir okkur hvað er rétt. Það myndast hiti eða gleði í hjartanu þegar við finnum að það er rétt. Stundum eru áhrifin svo sterk að það er hreinlega eins og það steypist yfir mann heilunarorka þegar ákörðun hefur verið tekin sem passar við vilja sálarinnar.

Við getum fengið svör við öllum okkar spurningum ef við kjósum það, en til þess að fá svör þá þurfum við að spyrja. Það er nóg að láta í ljós að við viljum fá svör við einhverju, með því að hugsa það, eða skrifa það niður og senda það þannig út í orkuna. Við þurfum ekki að senda það til annarra, eða spyrja aðra. Svörin geta komið á svo mismunandi vegu. Það getur dottið bók í hendurnar á okkur með upplýsingunum sem við leituðum eftir. Einhver segir eitthvað og við höfum fengið svarið. Við erum að keyra um og við sjáum svarið skrifað á skilti. Við heyrum einhvern hvísla að okkur svarinu, eða jafnvel hrópa hátt svo það sé nú alveg öruggt að við heyrum það.

Við erum dálítið gjörn á að yfirgefa okkur sjálf með því að efast um okkar eigið innsæi. Með því að telja að aðrir hafi svörin fyrir okkur. Svörin við okkar spurningum, framtíð og stefnu í stað þess að hlusta á okkar eigin æðri visku sem berst okkur í gegnum innsæið. Þegar við förum að trúa því að aðrir viti betur, sjái betur, þekki betur okkar eigin framtíð, langanir og þrár, þá erum við farin að víkja frá okkur sjálfum, frá þeirri gjöf sem innsæið er okkur. Þeir sem hafa gott innsæi eru með það vegna þess að þeir hafa lært að trúa og treysta innsæinu sínu.

Það getur þó verið virkilega skemmtilegt að fá aðra til að lesa fyrir sig í framtíðina, í gegnum spil, bolla eða eitthvað annað og fá að vita eitthvað sem við teljum að geti passað fyrir okkur þá stundina, eitthvað spennandi sem er handan við hornið eða mun gerast í framtíðinni. Verum samt meðvituð um að um leið erum við að gefa öðrum það vægi að við treystum þeim betur fyrir því sem við höfum þó sjálf ákveðið að fara í gegnum. Með því að treysta algjörlega á innsæi annarra og treysta því og trúa sem sagt er þá erum við um leið að vanmeta okkar eigið innsæi. Það væri eins og að segja við einhvern sem væri að æfa með okkur hundrað metra hlaup, æi, viltu ekki frekar hlaupa þetta fyrir mig á þessari æfingu, þú ert svo miklu betri í því en ég.

Það er líka gott að vera meðvituð um að lestur og spár eru kannski meira sem leikur og skemmtun, þó oft megi taka á því mark sem sagt er og vissulega er gaman þegar eitthvað kemur gjörsamlega á óvart vegna þess að spádómurinn rætist. En það má líka horfa til þess að í hvert skipti sem einhver spáir fyrir okkur, eða les, þá er það eins og staðan er þá stundina. Daginn eftir gæti allt verið breytt, við hefðum gert óvæntar breytingar þvert á þá áætlun sem fyrir var og þar með væri spáin líka orðin gjörbreytt ef það yrði lesið fyrir okkur aftur.

Það er líka mikilvægt að vera meðvitaður um að við hleypum fólki misjafnlega langt inn í orkuna til að lesa fyrir okkur. Það gerist oft alveg ómeðvitað að við lokum fyrir orkulestur hjá sumum, á meðan við hleypum öðrum lengra inn í orkuna. Það er þessi lokun sem veldur því að stundum er ekki hægt að lesa orkuna hjá fólki og þá verða sumir jafnvel óttaslegnir og halda að það sé eitthvað slæmt að fara að gerast í lífi þeirra.

Ef skilaboðin sem við fáum í lestri hjá öðrum enduróma við okkar eigið hjarta þá eru þau örugglega rétt fyrir okkur annars ekki og við getum líka breytt hlutunum, því þó að einhver spái fyrir okkur þá höfum við frjálsan vilja og huga til að skapa nýja útkomu. Maitreya segir í sínum pistlum að það sé egóið sem spyrji og vilji vita vegna þess að egóið treysti ekki. Egóið vill vita hvað er framundan til þess að geta undirbúið sig á einhvern hátt fyrir það sem koma skal. Það gæti jafnvel viljað breyta því sem spáð er, ef því líkar ekki spádómurinn. Það vill vera við stjórnvölin, vera við stýrið, finna að það sé öruggt og að það sé ekkert óvænt sem geti komið upp á í lífinu.

Æðra sjálfið eða sálin okkar veit alveg hvernig við höfum planað framtíðina og því þurfum við einungis að vera meðvituð um hvaða skilaboð innsæið og leiðbeinendur er að senda í gegnum umhverfið, samskipti og drauma.

Ef við viljum styrkja og skerpa okkar eigið innsæi þá þurfum við að ákveða að hlusta á rödd hjartans, vera full af trausti og trú þegar við fáum leiðbeiningar og skilaboð í gegnum innsæið og draumana og fara eftir því. Innsæið leiðir okkur áfram á mjúku nótunum vegna þess að það er æðra sjálfið og sálin sem stýrir innsæinu og hvað við fáum að vita hverju sinni. Við getum líka verið viss um að æðra sjálfið lætur okkur alltaf vita það sem við þurfum að vita hverju sinni. Þar sem æðra sjálfið er alltaf í núinu þá mun það sjaldan gefa okkur upplýsingar fyrir framtíðina nema að það komi okkur að góðu gagni.

"Á því augnabliki sem þú ferð að fylgja einhverjum þá hættir þú að fylgja sannleikanum." Krishnamurti

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim