|
Jafnvægið á milli hins andlega og veraldlega
20. janúar 2013
Það er afar mikilvægt að viðhalda jafnvægi á öllum sviðum þegar við göngum á andlegri braut. Sama hvert viðfangsefnið er, okkur líður alltaf best þegar jafnvægi ríkir á milli hins andlega og veraldlega. Þetta jafnvægi birtist meðal annars í samhljómi á milli karl- og kvenorku, innsæis og skynsemi, drauma (sköpunar) og þess efnislega.
Ef við dveljum of mikið í hægra heilahvelinu, sem tengir okkur við innsæið og það andlega, gæti það leitt til þess að við missum tengsl við veraldlegan raunveruleika. Við gætum þá orðið eins konar sveimhugar sem lifa í draumaveröld sem verður aldrei að veruleika, þar sem okkur skortir tengsl við efnisheiminn og framkvæmdagleði til að raungera drauma okkar.
Aftur á móti, þegar við tökum skynsemi vinstra heilahvelsins með í reikninginn, getum við betur látið drauma og markmið, sem við mótum í hugarorku og innsæi, verða að raunveruleika. Skynsemin hjálpar okkur að tengjast efnisheiminum og framkvæma það sem við sjáum fyrir okkur í hinu andlega.
Sköpunin hefst á því að sjá fyrir sér það sem við viljum kalla til okkar inn í efnisheiminn. Þetta getur verið allt frá efnislegum hlutum eins og bíl eða húsi til drauma um ferðalög, starf eða aukna fjárhagslega velgengni. Til þess að láta þessa drauma verða að veruleika er mikilvægt að vera jarðtengd/ur – í góðri tengingu við líkamann sérstaklega rótarstöðina og iljastöðina, þar sem tengsl við efnisheiminn eru sterkust. Ef þessi tenging er veik eigum við erfiðara með að skapa eða framkvæma í efnisheiminum, þar sem þessar orkustöðvar styðja okkur ekki til fulls.
Þeir sem vinna með andleg málefni og vilja alfarið afla tekna á andlegum grunni, þurfa að tryggja að þau séu vel jarðtengd. Þetta jafnvægi næst með því að samræma hægra og vinstra heilahvel – innsæið og rökhugsunina – og finna jafnvægi milli karl- og kvenorkunnar. Mýkt, innsæi og sköpun (kvenorka) þurfa að vinna í sátt við ákveðni, styrk og framkvæmdakraft (karlorku). Jafnvægi fæst með því að stíga jafnt í báða fætur, bæði í þann andlega og veraldlega - það er lykillinn.
Margir sem stíga inn á andlega braut leita að vellíðan og svörum við spurningum um lífið. Hugleiðsla er frábær leið til að ná slíkri tengingu, en það er mikilvægt að vera ekki alltaf í eins konar hugleiðsluástandi, þar sem það getur skapað ósamræmi við veraldlegar þarfir og lífið sjálft. Með því að vera vel jarðtengd ásamt því að dýpka tenginguna við andlegu orkustöðvarnar náum við meiri vellíðan og ánægju heldur en ef við tengjumst eingöngu andlegu sviðunum.
Ef líf okkar ætti eingöngu að snúast um hugleiðslu og andlegan þroska, hefðum við hugsanlega valið að fæðast á stað eins og Indlandi, þar sem þannig líf er algengara. En sem mannverur í nútímasamfélagi höfum við oft valið fjölbreyttari leið – líf þar sem við eigum fjölskyldur, veraldlegt starf, og umgöngumst fólk úr öllum áttum. Þessi blanda af andlegu og veraldlegu krefst þess að við lærum að samræma þessi tvö svið til að njóta fjölbreytileikans sem lífið býður upp á.
Með því að rækta jafnvægi á milli hins andlega og veraldlega getum við nýtt krafta okkar til fulls og upplifað lífið á dýpri og áhrifaríkari hátt. Þetta jafnvægi gerir okkur kleift að áorka margfalt meiru og njóta þess betur að vera manneskjur á þessari ferð í gegnum lífið.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|
|