|
Kennari minn Margaret McElroy
16. júlí 2016
Undanfarna daga hef ég svo sannarlega verið minnt á það hversu óviðbúin við erum oft þegar fólk sem við höfum kynnst, eða við þekkjum í gegnum einhvern annan ákveður að yfirgefa jarðneska líkamann. Á síðasliðnum þremur vikum hafa þrír einstaklingar sem ég hef kynnst misjafnlega mikið kvatt þennan heim. Einhvern vegin hafði enginn reiknað með að þau væru á förum, enda sjaldan sem við vitum af því fyrirfram þegar einhver kveður þennan heim skyndilega. Tveir fóru vegna slyss á meðan minn kæri kennari og vinkona til margra ára Margaret McElroy veiktist skyndilega og yfirgaf þenna heim eftir stutt veikindi.
Ég hef í gegnum þessa reynslu líka komist að því að það er ekki allt sem sýnist, fólk sem maður þekkir kannski mjög lítið, eða hefur einungis hitt í fá skipti getur verið eins og nánir vinir, eða ættingjar þegar svona gerist. Þó veit ég að þetta fólk heldur áfram í andlega heiminum, laust við efnislíkama og lægra sjálfið og getur gert vart við sig með margskonar hætti í gegnum orkulegar tengingar, spjall í orkunni og drauma.
Sú sem ég ætla nú fyrst og fremst að fjalla um er vinkona mín og styrkur leiðbeinandi Margaret McElroy sem kvaddi þennan heim 13. júlí síðastliðinn. Í 20 ár hefur Margaret helgað líf sitt því að miðla orku og boðskap meistara Maitreya í gegnu bréf eða myndbönd. Það voru einmitt þessi bréf sem leiddu til þess að ég kynntist Margaret betur, en bréfin sem hún miðlar orku og kennslu Maitreya er deilt á hennar eigin vefsíðu https://maitreya.co/maitreya-teachings/messages/. Ég fann strax hvernig orka meistarans Maitreya kom í gegnum orðin í textanum og það gaf mér ró, frið og vellíðan að lesa þessi bréf. Textinn í bréfunum er miðlaður og er einstaklega vel skiljanlegur og þar sem hann hafði samhljóm við minn skilning á lífinu þá beið ég spennt eftir hverju nýju bréfi. Bréfin byrjuðu að koma á netið árið 1999. Heilunarorkan sem fylgir bréfunum er mjög sterk og þægileg, kærleiksorka sem hefur mildan og mjúkan tón og fylla mann friðsæld og afslöppun og vissu fyrir því að allt er eins og það á að vera.
Margaret bjó í Ástralíu þegar hún byrjaði að deila bréfunum á netið, hún gerði einnig myndbönd sem myndu teljast frumstæð á okkar tímum. Þegar hún var að miðla orku Maitreya í djúpum trans á þessum tíma sat hún einfaldlega á eldhúskolli með hvítan auðan vegg á bakvið sig þar sem ekkert truflaði orkuflæðið. Ytri umgjörðin virtist öll vera frekar fátækleg, þó orkan væri hreint út sagt guðdómleg.
Þrátt fyrir að laðast mjög að kennslu og boðskap Maitreya þá var það ekki fyrr en árið 2006 sem ég lagði land undir fót og hitti Margareti, en þá var hún flutt til Seattle í Bandaríkjunum. Fyrsta námskeiðið sem ég fór á hjá henni var heilunarnámskeið þar sem hún kenndi orkuheilun og auðvitað var orkan hans Maitreya mjög sterkt inni á því námskeiði eins og öllum námskeiðum sem hún hélt. Ég hafði farið á mörg námskeið á þessum tíma og þar á meðal reikinámskeið, heilun fyrri lífa og innra barns heilun og þau höfðu haft sterk áhrif en ekki nærri eins og þetta. Þegar ég settist inn á þetta námskeið byrjuðu tárin að streyma vegna þeirrar ástar og væntumþykju sem ég fann umlykja mig í orkunni.
Það var í þessari fyrstu ferð minni til Margaret í Seattle sem ég kynntist einnig hinni einstöku og elskulegu vinkonu minni Jean Luo. Jean hefur aðstoðað Margaret við þessa vinnu síðasliðin 10 ár. Þegar ég hafði kynnst orkunni og Margaret af eigin raun þá ákvað ég að fá leyfi hjá henni til að þýða bréfin á íslensku. Bréfin hafa verið á vefsíðunni minni viskaoggledi.is síðan árið 2006, en auðvitað tók það tíma að þýða þau og koma þeim á netið þar sem þetta er fjöldinn allur af bréfum. Það eitt að takast á við að þora að spyrja hvort ég mætti þýða bréfin og deila þeim á mína vefsíðu var átak fyrir mig þar sem ótti minn um að vera ekki nógu ritfær á íslensku og nógu góð að þýða enskuna var ákveðin hindrun sem ég þurfti að takast á við.
Þegar ég er að þýða bréfin er orka Maitreya mjög sterk í kringum mig, ég finn það svo vel hvernig orkan er í þeim þegar ég skipti úr lestri á þeim og yfir í eitthvað allt annað svo sem fréttir eða annað lesefni. Orkumunurinn er ótrúlegur, enda er orkan í bréfunum eitthvað svo hvít, hrein og fíngerð. Það er oft óþægilegt að verða fyrir truflun af símtölum eða öðru vegna þess að ég verð svo næm á orku þegar ég er að þýða bréfin. Öll utan að komandi jarðnesk orka verður eitthvað svo þung og hörð. Ég man einu sinni eftir því þegar ég var að þýða bréfin og er búin að vera að því dálítinn tíma þegar ég finn allt í einu eins og það sé búið að leggja allan heiminn á herðarnar á mér. Það liðu varla nema nokkrar sekúndur frá því að þyngslin lögðust yfir mig þar til ég heyri símann hringja og símtalið var frá manni sem var á kafi í vinnu fyrir einn af stjórnmálaflokkum landsins.
Annað sem ég get nefnt í þessu dæmi með orku Maitreya og þýðingar miðluðu bréfanna er að ég hef stundum farið út í búð að versla eftir að hafa verið að þýða bréfin og orka Maitreya er komin sterkt inn í mína orku þannig að ég fæ einstaklega þægileg og góð viðbrögð hjá fólki sem er að afgreiða. Fólk skynjar orkuna og verður svo allt öðruvísi í framkomu við mig en áður, þó að ég þurfti yfirleitt ekki að kvarta yfir því. Það fer kannski að spjalla, eða kveður með miklum virtum eða þá að það brýst út einhver gleði og kátína í samræðum.
Ég get sagt með sanni að Margaret McElory hafi verið mikill áhrifavaldur í mínu lífi, hún hjálpaði mér ekki bara með miðlun Maitreya, heldur einnig kennslu í lífinu sjálfu. Með því að skrifa um sína lífsreynslu á mjög hreinskilin hátt, hefur hún hjálpað fjölmörgum að skilja að þó að maður sé miðill fyrir orku meistara þá á maður við sömu lífsvandamál að stríða og allir aðrir. Hún hefur eflaust hneykslað marga og fólki hefur fundist hún vera dramadrottning og segja frá hverju smáatriði í lífi sínu en það hefur eigi að síður hjálpað mörgum. Það hefur gefið skilning á því að það er engin undanskilin því að fara í gegnum djúpan og dimman dal þótt maður sé á andlegri leið að miðla jafn fallegri og kærleiksríkri orku og orka Maitreya er. Reyndar er það þannig að þessi milda og mjúka kærleiksorka knýr á dyr þar sem sársauki og önnur áföll liggja í undirvitundinni svo þau komi upp á yfirborðið.
Efst á síðu
Kennsla Maitreya
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is |
|