|
Kristorkan
28. nóvember 2012
Kristorkan, eins og við köllum hana, er stórkostleg orka sem hefur ekkert með trúarbrögð að gera. Hún er komin til jarðar til að hjálpa okkur að losa okkur úr viðjum egósins, óttans og lægri þátta sem hafa haldið mannkyninu í þjáningu og vanlíðan í árþúsundir. Þessi orka gefur okkur tækifæri til að stíga upp í hærri tíðni kærleika og sáttar, þar sem við getum upplifað frið og einingu í hjartanu.
Börn eru einstaklega næm á orku, lesa okkur eins og bók – þau skynja jafnvel minningar eða orku úr fyrri lífum sem við sjálf getum verið ómeðvituð um. Þau vita, jafnvel án þess að við segjum orð, hvað er að gerast í orkusviðinu okkar.
Það sem við höfum nefnt Kristorku er því ekkert nýtt, heldur sama orka og mannkynið átti kost á að upplifa fyrir um það bil 2.000 árum. Orkan er ekki bundin við eina sál eða persónu, heldur snýst hún um hreina, óskilyrta ást. Sú sál sem bar þessa orku uppi að mestu á sínum tíma kom til jarðarinnar til að miðla kærleika, friði og einingu. Kristorkan sjálf hefur alltaf verið til staðar en hún varð áþreifanlegri þegar hún holdgerðist í líkama andlegs meistara.
Kristorkan sjálf er hins vegar ekki bundin nafni eða persónu. Ef við finnum óþægindi gagnvart orðinu „Kristorka“ gæti það tengst fyrri lífa minningum eða þeirri orku sem trúarbrögðin hafa innrætt okkur. Þegar við sleppum þeirri orku, og öllu því sem okkur hefur verið innrætt í gegnum trúarbrögðin, þá skiptir það ekki lengur máli hvað þessi orka er kölluð. Það sem skiptir máli er að við leyfum henni að snerta okkur og leiða okkur í átt að kærleika, sátt og einingu.
Kristorkan sem streymir nú til jarðar er einstök að því leiti að hún er ekki bundin við eina persónu, heldur bera milljónir manna og kvenna orkuna uppi um allan heim. Í raun er þetta orka sem allir hafa aðgang að þar sem kraftur Kristorkunnar lýsir upp myrkrið hið innra og ytra.
Þó að það sé almennt álitið að það hafi aðeins verið ein sál sem hélt kristorkunni uppi fyrir 2.000 árum, þá var raunin sú að miklu fleiri sálir tóku þátt í því verkefni. Karlar og konur, hver á sinn hátt, báru með sér kærleiksorkuna og unnu að því að miðla henni til mannkyns. Hins vegar þorðu aðeins fáir að stíga fram og tala opinberlega, því óttinn við ofsóknir var gríðarlegur. Það sama á við núna: margar sálir sem eru meðvituð um sína andlegu leið og hafa það hlutverk að miðla ljósi, þora ekki að stíga fram vegna djúpstæðs ótta sem situr eftir frá fyrri lífum.
Þessi ótti, sem er geymdur í orkukerfum okkar, tengist oft reynslu fyrri lífa þar sem við höfum verið ofsótt, útskúfuð eða jafnvel tekin af lífi fyrir að miðla okkar sannleika. Þó að við séum nú í öðru samfélagi og öðrum aðstæðum, getur þessi orka haldið aftur af okkur, og við höfum tilhneigingu til að fela andleg áhugamál okkar og hæfileika. Gegnsæið sem fylgir kristorkunni gerir það að verkum að ekkert er lengur hægt að fela – allt sem hefur verið dulið mun koma upp á yfirborðið.
Við lifum á tímum þar sem leyndarmál tilheyra fortíðinni. Allt sem við höfum reynt að fela – hvort sem það er skömm, sektarkennd eða gömul orka úr fyrri lífum – kemur nú upp á yfirborðið. Kristorkan býður okkur að líta á þessa orku með kærleika og skilja að það sem við höfum gengið í gegnum, bæði í þessu lífi og öðrum, var einfaldlega reynsla sem sálin okkar þurfti að upplifa til að læra og þroskast.
Þegar við horfum til baka á reynslu okkar, þá finnum við oft eitthvað sem við erum ekki stolt af. En í stað þess að dæma okkur sjálf eða aðra, getum við fundið samkennd. Við höfum öll gengið í gegnum ólík hlutverk í mismunandi lífum, og það er einmitt þessi reynsla sem gerir okkur kleift að finna samúð með öðrum. Með því að sleppa ótta og skömm getum við upplifað það frelsi sem fylgir því að lifa í sátt við okkur sjálf og aðra.
Kristorkan minnir okkur á að við erum svo miklu meira en jarðneskir líkamar. Við erum eilífar sálir með óendanlega möguleika, tengdar hvor annarri og uppsprettunni. Í þessu ferli skiptir ekki máli hver boðberinn er – það er boðskapurinn sem er mikilvægur. Þessi boðskapur snýst um kærleika, frið og einingu allra sálna. Við erum öll tengd, og þegar við tökum á móti þessari orku og leyfum henni að leiða okkur, upplifum við hið sanna eðli okkar – og það er ást.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|
|