Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Nýja tölvan

 

2. nóvember 2012

Þegar við fáum nýja tölvu, þá er hún hraðvirk og öll forrit virka hnökralaust. En um leið og við byrjum að nota hana – sérstaklega á netinu – safnast inn ýmsar skrár og óþarfa gögn sem hægja smám saman á vinnslunni. Eftir nokkur ár er tölvan orðin hægari á allan hátt. Við látum þetta pirra okkur en höldum samt áfram að nota hana eins og hún er, því hún er orðin hluti af lífi okkar. Við tökumst ekki á við að hreinsa hana og endurhlaða, því við óttumst að missa gögn sem hafa safnast inn í gegnum árin – gögn sem við þekkjum svo vel og teljum ómissandi hluta af lífi okkar.

Stundum neyðumst við þó til að hreinsa allt út, t.d. ef tölvan krassar. Ef við höfum ekki verið dugleg að taka öryggisafrit af myndum eða mikilvægum skjölum, getur verið að við missum allt. Þetta minnir okkur á mikilvægi þess að uppfæra og setja ný forrit í tölvuna annað slagið.

Þessi dæmisaga um tölvuna á líka við um okkur sjálf. Ef við tökum aldrei til í eigin hugarfari og orku, ef við hreinsum aldrei út gömul hugmyndakerfi eða venjur, þá förum við að líkjast gömlu tölvunni – hægfara, festumst í sama mynstrinu og eigum í erfiðleikum með að takast á við ný verkefni eða áskoranir.

Hugmyndakerfin sem við byggjum líf okkar á eru eins og gömlu forritin í tölvunni. Þau virkuðu vel þegar þau voru ný, en með tímanum safnast á þau óþarfa „skrár“ – hugsanir, vani og ótti sem við tökum ómeðvitað upp t.d. frá samfélaginu, fjölskyldunni eða fyrri lífa reynslu. Þetta hægir á okkur, heldur okkur föstum í sama gamla hringnum: matur á sama tíma, fréttirnar klukkan hálf sjö, sjónvarpið á kvöldin, háttatími, og svo vinnan daginn eftir. Þessi daglega rútína endurtekur sig aftur og aftur, án þess að við skoðum hana eða spyrjum okkur hvort hún sé enn í takt við það sem við viljum í raun og veru.

Þegar við drögumst svona áfram í vanabundnu mynstri, spyrjum við okkur kannski af hverju ekkert breytist í lífinu. En lífið breytist ekki fyrr en við þorum að skoða það, taka til í gömlu hugmyndakerfunum okkar og sleppa því sem þjónar okkur ekki lengur. Við þorum oft ekki að breyta vegna þess að það nýja krefst þess að við lærum eitthvað nýtt – og það getur vakið ótta.

En þegar við ákveðum að sleppa öllum gömlu hugmyndakerfunum sem halda aftur af okkur, þá erum við að vinna á sama hátt og þegar við hreinsum tölvuna: við fjarlægjum það sem er úrelt, uppfærum forritin og sköpum rými fyrir nýjar hugmyndir og sannfæringar. Þessar nýju hugmyndir eru byggðar á því sem við sjálf teljum rétt fyrir okkur, í stað þess að halda dauðahaldi í eitthvað sem var einu sinni okkar sannleikur en á ekki lengur við. Við höfum alltaf leyfi til að breyta um skoðun, losa okkur við gamla sannfæringu og taka inn eitthvað nýtt.

Með þessari tiltekt í eigin orku hjálpum við ekki aðeins sjálfum okkur að verða léttari og hraðvirkari – við hjálpum líka jörðinni. Við léttum á þyngslunum sem mannkynið hefur borið í gegnum árþúsundir og styðjum við þróun í átt til friðsældar og kærleika.

 

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband