Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Fæðing inn í nýtt hlutverk


Á hverju lífsskeiði í jarðneskum líkama fæðumst við inn í ný hlutverk.  Við fæðumst sem lítil börn og fetum síðan þroskastig barnsins oftast í umsjón fullorðinna.  Þessi skref eru misjafnlega stór á meðan við erum ennþá lítil börn en síðan komumst við á unglingsárin þar sem við fæðumst inn það hlutverk að feta fyrstu skrefin í átt til aukins sjálfstæðis.  Við förum inn í ákveðin hlutverk í framhaldi af því þar sem sumir stofna sína eigin fjölskyldu mjög ungir á meðan aðrir halda áfram að feta sig áfram á eigin forsendum og því fólki sem er þeim samferða. 

Þannig fæðumst við síðan inn í hvert hlutverkið á fætur öðru til þess að læra og þroskast á því stigi sem við höfum ákveðið sem sál á leiðinni okkar. Stundum festumst við í þessum hlutverkum vegna þess að óttinn heldur okkur frá því að stíga þau skref sem þarf að stíga til að komast út úr þeim.  Þá höfum við val um að biðja leiðbeinendur okkar og hjálpendur um að hjálpa okkur áfram. Þannig að ef við stígum ekki skrefin sjálf þegar við höfum beðið um hjálpina, þá gerist eitthvað í lífinu sem veldur því að við neyðumst til þess að stíga þessi skref.  

Á þeim tímapunkti sem við erum á núna eru margir að finna að þeir eru að fæðast inn í alveg nýtt hlutverk. Hvað svo sem þetta hlutverk er eða hvernig það er tilkomið er algjörlega undir því komið hvað við höfum skapað eða beðið alheiminn um að færa okkur.

Margir hafa verið að fletta utan af sér gömlu lögunum sem hafa safnast utan á sálarkjarnann í gegnum þau ótal hlutverk sem sálin hefur tekið að sér í jarðneskum líkama á þessari jörð.  Það er mjög misjafnt hversu auðveldlega þetta gengur fyrir sig en eigi að síður hefur þetta gengið mjög hratt undanfarið og við erum sífellt að uppgötva meira og meira af því ferli sem sálin hefur þroskað sig á, í gegnum jarðlífin.

Eftir því sem við flettum fleiri lögum því stoltari getum við verið af því hugrekki sem við höfum haft sem sálir í jarðneskum líkama. Hlutverkin sem við höfum tekið að okkur eru svo mörg og mismunandi og oft á tíðum eru þau ekki auðveld. Í þessum hlutverkum höfum við mjög oft verið samferða sama fólkinu (sálunum) aftur og aftur og því hafa myndast mjög sterkar tengingar við þessar sálir. Fólkið eða sálirnar sem við höfum verið samferða í gegnum lífin hafa því komið að ótal hlutverkum gagnvart hvor annarri. Við höfum prófað að deila og skipta hlutverkum með ýmsum hætti. Allir hafa viljað öðlast sem dýpstu reynsluna til þess að sálin nái ákveðnum þroska til þess að geta skilið flest þau hlutverk sem okkur býðst að taka að okkur á jörðinni. Við getum hugsað okkur þetta eins og leiksvið þar sem ákveðnir leikarar taka að sér ákveðin hlutverk, en þeir leikarar sem hafa tekið að sér dýpstu og fjölbreyttustu hlutverkin á sviðinu eru þeir leikarar sem hafa mestu reynsluna.

Það sem við höfum mörg hver verið að fást við undanfarið er að skoða hvar við höfum leikið á móti ákveðnum leikurum á sviðinu og hvernig þau hlutverk hafa farið fram. Þegar við höfum skoðað það þá klæðum við okkur úr leikbúningunum og sleppum þeim tilfinningaböndum sem tengjast þeim og skoðum síðan hvað hvert leikrit sem við lékum færði okkur í þroska og skilningi. Engin hefur öðlast samskonar reynslu og einhver annar vegna þess að það er svo misjafnt hvernig við upplifum hlutverkin þó að við séum kannski að leika sama hlutverk og einhver annar hefur leikið áður þá er ekki víst að skilningurinn verði sá sami. Það er m.a. þarna sem mismunur okkar liggur í því að við erum hvert og eitt okkar einstakar sálir með mismunandi sálarþroska í farteskinu.  Við komum líka inn í jarðlífin sem sálir með mismunandi áhugasvið, þekkingu, langanir og ástríðu.

Þó að við tölum um að við séum að fæðast algjörlega inn í nýtt hlutverk um þessar mundir þá erum við jafnframt að fara inn í að geta nýtt okkur allan þann þroska og lærdóm sem sálin hefur öðlast í öllum þessum jarðvistum og einnig erum við að nálgast meira og meira þann grunnkjarna sem við erum í eðli okkar.

Þegar við höfum náð að klæða okkur úr þyngstu og erfiðustu leikbúningunum þá hættum við líka að leika í þessum gömlu hlutverkum vegna þess að það er það sem okkur hættir til að gera á meðan við erum enn í gömlu búningunum. Okkur hættir bæði til þess að sitja í hlutverkunum og vera í tilfinningunum þangað til við höfum gert okkur grein fyrir að við höfum leikið þessi leikrit áður og það er komið að því að sleppa hlutverkinu og klæða sig úr leikbúningunum, losa um tilfinningar og tilfinningabönd og þakka meðleikendum fyrir aðstoðina og stíga út af sviðinu. Þegar við höfum gert það þá förum við að sjá og skilja hversu marga hæfileika við höfum ræktað með okkur sem sálir og við förum líka að tengjast þeim uppruna kjarna og þeim ótakmarkandi möguleikum sem sú tenging gefur okkur.

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband