Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Að fæðast inn í nýtt hlutverk



Ferðalag sálarinnar er um að stíga stöðugt inn í ný hlutverk þar sem sálirnar fæðast aftur og aftur á jörðinni og fá til þess líkama sem henta þeim verkefnum sem þær hafa tekið að sér. Líkamar geta oft verið áþekkir eða borið með sér ákveðin einkenni sem endurtaka sig í gegnum lífin. Gjarnan er lifað innan ákveðins þægindaramma, líf eftir líf, með sama fólkinu. Ef aldrei er stigið út úr þeim ramma verða lífin keimlík og sömu sálir samferða í gegnum margar hringrásir.

Ef sálin ákveður hins vegar að brjótast út úr þægindarammanum þarf hún oft að takast á við djúpan innri ótta á meðan hún mætir gömlum mynstrum og vinnur að því að uppræta þau. Það getur verið afar krefjandi að gera hlutina öðruvísi, þar sem orka úr fyrri lífum tengd m.a. valdakerfum, uppgjöf, áföllum og erfiðleikum, leynist enn í orkusviðum sálarinnar.

Sálin og persónuleikar hennar fara í gegnum margvísleg þroskastig á einni jarðvist, þó sum þeirra séu í minna lagi. Þegar barn fæðist í jarðneskan líkama þarf það að takast á við ótal áskoranir á skömmum tíma og þroskabreytingarnar eru hraðar. Það er líkt og að ganga í gegnum vígslu eftir vígslu. Á þessu tímabili eiga sér stað mörg af þeim lærdómsferlum sem sálin ætlaði sér að upplifa og þar getur orka fyrri lífa hjálpað til, enda muna börn oft brot úr fyrri jarðvistum.

Á unglingsárunum er tekið enn eitt stórt stökk. Þá vaknar innri þrá eftir sjálfstæði, nokkurs konar vígsla fyrir fullorðinsárin. Á fullorðinsárum taka síðan hinir fjölmörgu persónuleikar að sér ýmis hlutverk sem styðja sálina í að þroskast í samræmi við það sem hún hefur ákveðið.

Oft tekur það sálina og æðra sjálfið langan tíma að sannfæra persónuleikana um að stíga út úr rótgrónum mynstrum. Það getur orðið til þess að sálin þurfi að fara enn einn hring í jarðvist. Ef vitað er fyrirfram að breytingarnar verði sérstaklega erfiðar, hafa stundum verið gerðir samningar í andlega heiminum við leiðbeinendur um stuðning og vernd þegar stór skref eru stigin í átt að lífsbreytingum.

Stundum verða einnig atburðir sem neyða manneskjuna til breytinga. Þá má segja að stigið sé inn í nýtt hlutverk, óháð aldri, því óvæntar umbreytingar geta átt sér stað jafnvel á barnsaldri. Undanfarin ár hafa orðið miklar og hraðar breytingar í heiminum, sem hafa leitt til þess að óvenjumargir eru að stíga inn í ný hlutverk, jafnvel „fæðast inn í ný hlutverk,“ á ný.

Sálin býr alltaf yfir eigin styrk og óttast í raun ekkert. Hún veit að sá hluti hennar sem dvelur í líkamanum er í ákveðinni gleymsku og meðvitundarleysi gagnvart þeim mætti sem hún býr yfir. Þetta stafar af því að mikil gömul orka hefur safnast upp í orkulíkömum og dregur úr meðvitund um raunverulegan kraft sálarinnar.

Undanfarin ár hafa sálir fengið mikla hjálp við að leysa upp þessa gömlu orku. Margir hafa fundið leiðir til að sjá í gegnum huluna sem skilur fólk frá því að vita og skynja sitt eigið ljós. Þetta má líkja við feluleik: allir fá aðgang að brotum af æðri visku, en enginn hefur alla myndina, þar sem hver og einn mótar sína eigin heild út frá hugmyndum, trú og reynslu hvers lífs.

Orkutíðni jarðar hefur jafnframt verið að hækka, sem styður þetta ferli. Það má því segja að sálir sýni ótrúlegt hugrekki með því að koma hingað til jarðar án þess að sjá í gegnum hulurnar frá upphafi.

Hlutverkin sem sálir taka að sér eru margvísleg. Sömu sálir eru oft samferða líf eftir líf, þó hlutverkin sjálf breytist. Samningar eru gerðir milli sálna, stundum er staðið við þá, stundum ekki, en í öllum tilvikum öðlast sálir dýrmæta reynslu og þroska í gegnum samskipti. Þetta leiðir gjarnan til sterkra tengsla, þar sem sálir þekkja hver aðra á orkunni, jafnvel þótt líkamarnir séu ekki þeir sömu.

Það má líta á lífið sem leiksvið þar sem leikarar taka að sér ólík hlutverk. Hver leikbúningur (líkami) og hver samleikari færir sálinni nýja reynslu í reynslubankann. Tilfinningabönd styrkjast og mikilvægt er að skoða þau og losa, ef ætlunin er að rjúfa hefðbundin mynstur.

Þótt sálir séu sprottnar af sama kjarna er hver þeirra einstök og sérstök. líkt og fingraför, þar sem ekkert mynstur er nákvæmlega eins. Á hverri stundu fæðist sálin inn í nýtt hlutverk, hvort sem er í lífi á jörðinni eða utan hennar. Hvert nýtt hlutverk dýpkar og þroskar skilning sálarinnar á sjálfri sér.


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband