Fæðing inn í nýtt hlutverk
Sálirnar fæðast aftur og aftur inn í ný hlutverk á jörðinni og fá til þess ákveðna gerð af líkama sem henta í þau hlutverk. Líkamarnir geta oft verið nokkuð áþekkir eða með ákveðin einkenni sem eru gegnum gangandi í lífunum. Oft er lifað í ákveðnum þægindaramma líf eftir líf með sama fólkinu.
Ef aldrei er stigið út úr þægindarammanum þá verða lífin nokkuð keimlík og sama fólkið er samferða margar hringrásir. Ef sálin hefur ákveðið að brjótast út úr þægindarammanum þá þarf hún oft að takast á við mikinn innri ótta á meðan tekist er á við gömlu mynstrin og þau upprætt. Það getur oft tekið verulega á að gera hlutina öðruvísi því orkan úr öðrum lífum sem tengist valda mynstrum, uppgjöf, áföllum og erfiðleikum leynast í orkunni.
Sálin og persónuleikar hennar fara í gegnum margvísleg þroskastig í einni jarðvist þó að sum stigin séu svo smá að varla er tekið eftir þeim. Þegar barn fæðist inn í jarðneskan líkama þarf það að takast á við svo margt á stuttum tíma og þroska breytingarnar eru mjög hraðar. Það er eins og að fara í gegnum vígslu eftir vígslu. Það er á þeim tíma sem margt af því sem sálin ætlaði að læra og upplifa gerist það er þá sem fyrri lífa orka hjálpar til þar sem börn muna oft úr sínum fyrri lífum. Þegar unglingsárum er náð er tekið enn eitt stórt stökk, það vaknar einhver innbyggð þrá til sjálfstæðis, það er nokkurs konar vígsla fyrir fullorðinsárin. Á fullorðinsárum eru það síðan hinir mörgu persónuleikar sem taka að sér mörg hlutverk sem styðja sálina í að þroskast í samræmi það sem hún hefur ákveðið.
Það getur oft tekið sálina og æðra sjálfið langan tíma að sannfæra persónuleikana að stíga út úr fastmótuðum mynstrum og það veldur því að sálin þarf að fara annan hring í jarðvist. Ef sálin hefur vitað að breytingin yrði mjög erfið þá hafa stundum farið fram samningar í andlega heiminum við leiðbeinendur um að hjálpa til og vera á vaktinni þegar á hólminn er komið að gera breytingu. Stundum gerist líka eitthvað sem neyðir manneskjuna til breytinga. Það má þá segja að verið sé að stíga inn í nýtt hlutverk óháð aldri því stundum verða óvæntar breytingar á barnsaldri. Það hafa orðið margar óvæntar breytingar í heiminum undanfarin ár þannig að það er mjög mikið um að fólk sé að fara inn í ný hlutverk (fæðast inn í ný hlutverk).
Sálin hefur alltaf sinn eigin sálarstyrk og hún óttast ekkert, hún veit að sá partur af henni sem dvelur í líkama er í ákveðinni gleymsku og meðvitundarleysi yfir þeim mætti sem hún býr yfir. Það er vegna þess að mikið af gamalli orku hefur safnast upp í orkulíkömum og hindrar þannig meðvitund um hversu mikill máttur sálarinnar er í raun og veru. Sálir hafa fengið mikla hjálp undanfarin ár við að leysa upp þessa gömlu orku þar sem margir hafa fundið leiðina að því að sjá í gegnum huluna sem heldur fólki frá því að sjá og vita. Það má líta á þetta eins og nokkurs konar feluleik, allir fá að vita einhver brot af æðri visku en engin veit allt eða hefur aðgang að öllum sannleikanum vegna þess að hver og einn er í einhvers konar heilmynd sem hefur orðið til í gegnum hugmyndir og trú hverju sinni í jarðvistum. Orkutíðni jarðar hefur líka verið að hækka í leiðinni af margskonar völdum og það hefur svo sannarlega hjálpað til. Hver og einn sem sér í gegnum blekkingar hulurnar hefur svo mikil áhrif á það stigmagnandi ljós sem við erum hluti af hvern dag. Það má því segja að sálir sýni ótrúlegt hugrekki að koma hingað til jarðar án þess að sjá í gegnum hulurnar.
Hlutverkin sem sálirnar taka að sér eru í mörgum útgáfum. Sömu sálirnar eru samferða líf eftir líf þó að hlutverkin séu ekki þau sömu. Það eru samningar á milli sálna og ýmist er staðið við þá eða ekki, en þó að ekki sé staðið við samning þá er ljóst að sálir öðlast djúpa reynslu og þroska í öllum samskiptum. Oft verður þetta til að það skapast sterkar tengingar á milli sálna, sálir þekkja hvor aðra á orkunni þó að líkaminn sé ekki sá sami.
Það er hægt að hugsa sér lífið eins og leiksvið þar sem leikarar taka að sér mismunandi hlutverk. Hver leikbúningur (líkami) og leikari (annar aðili) færir sálinni nýja reynslu í reynslubankann. Tilfinningabönd styrkjast og þau þarf að skoða og losa ef ætlunin er að breyta hefðbundnum mynstrum. Þó að sálir séu komnar af sama kjarna þá er sérhver sál einstök og sérstök eins og fingraför, þar sem ekkert fingrafar er með sama mynstri.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|