Það sem við gerum okkur oft ekki grein fyrir er að innan í reiði býr gífurleg orka. Þegar reiði brýst út, kemur hún eins og höggbylgja sem hefur áhrif á fólkið og umhverfið í kring. Sem fullorðin finnum við oft fyrir óþægindum þegar við verðum vitni að reiði annarra – en fyrir börn, sem eru viðkvæmari, getur þessi reynsla verið djúpstæð og áfallavaldandi.
Þegar reiði brýst út í nærveru barna – til dæmis á milli fólksins sem þau elska og treysta, eins og foreldra – verður orkan sem myndast næstum áþreifanleg. Börnin lenda í höggbylgjunum og þar sem þau hvorki skilja aðstæðurnar né geta flúið þær, fyllast þau oft ótta og vanlíðan. Stundum gráta þau – ekki endilega vegna þess sem er sagt, heldur vegna þess að þau finna orkuna svo sterkt.
Ef reiðin beinist að barninu sjálfu, getum við aðeins ímyndað okkur hversu djúpt sárið nær. Þessar bylgjur reiði má líkja við jarðskjálfta – ekki hreyfingu í jörðinni, heldur í orkunni sem umlykur barnið. Þau sem eru næmari geta jafnvel fundið fyrir kulda eða þyngsli í loftinu.
Ef fullorðnir finna fyrir óþægindum gagnvart þessari orku, getum við verið viss um að börn upplifa hana enn sterkar. Börn taka allt inn á sig og skortir oft bæði skilning og orð til að tjá hvað þau eru að upplifa. Þau sitja eftir með tilfinningar annarra, þar til einhvern daginn seinna á lífsleiðinni finna þau leið til að losa þær úr eigin orku.
Á bak við reiði eru alltaf sár og ótti. Reiði er veggur sem við reisum til að verja þau sár sem búa innra með okkur. Þegar við sjáum reiði brjótast fram, getum við reynt að muna að hún er oft aðeins ytri birtingarmynd djúprar innri vanlíðunar. Sú meðvitund ein og sér getur hjálpað okkur að horfa með samúð á manneskjuna – og við getum veitt okkur sjálfum sömu samúð ef við finnum reiði rísa innra með okkur.
Þegar við verðum reið, erum við líka að senda skilaboð út í umhverfið: „Komdu ekki nálægt mér.“ Við erum að reyna að verja okkur fyrir frekari sársauka, viljum ekki að aðrir sjá sárin eða viðkvæmnina sem leynist undir yfirborðinu. Oft er stutt á milli reiði og tára – margir óttast að sýna reiði því að þar á bak við bíða tárin.
Það þarf hugrekki til að sleppa þessum varnarveggjum. En þegar reiðin og sársaukinn fá að flæða – og við náum að gráta sársaukann út – fer hjartað smátt og smátt að opnast.
Óttinn við að verða særð(ur) aftur heldur oft fólki í fjarlægð, án þess að við gerum okkur grein fyrir því. En þegar við loks erum tilbúin að horfast í augu við sárin okkar, líta undir yfirborðið og heila það sem þar býr, þá þurfum við ekki lengur að verja sársaukann með reiði – og við getum farið að tjá okkur með meiri mýkt, hlýju og nærgætni.
|