|
Svörin hið innra
Það er svo margt í gangi núna sem veldur ruglingi og óvissu. Netið er fullt af misvísandi upplýsingum og það getur verið erfitt að greina hvað er raunverulegt og hvað er uppspuni. Hverju á að trúa og hverju á ekki að trúa. Fólk tekur afstöðu með ákveðnum málum og það verða deilur á milli vina, fjölskyldumeðlima og vinnufélaga. Þar er sagt að hvítt sé svart og svart sé hvítt og það veldur enn meiri ringulreið. Við gætum sogast inn í hyldýpi sýndarveruleika ef við höldum okkur ekki til hlés á meðan við meltum málið. Þar sem það er eiginlega gert ráð fyrir að við lifum í blekkingu og sjáum aldrei í gegnum hana. Við getum þó alltaf vitað að sannleikurinn kemur í ljós þó síðar verði.
Þrátt fyrir allt þá getum við fundið hugarró í þeirri trú að allt sem gerist hafi tilgang, þó að við skiljum hann ekki alltaf þegar við erum í miðri ringulreiðinni. Þegar við fáum misvísandi upplýsingar frá mörgum stöðum, getur verið freistandi að leita að svörum út á við. Þegar raunin er sú að það er betra staldra við, hægja á sér og leita inn á við. Innsæið okkar og æðra sjálfið, ásamt leiðsögn ljósvera sem með okkur ganga, munu veita okkur þau svör sem við þurfum á að halda. Kannski liggja svörin líka bara í því að vera hlutlaus áhorfandi. Það gæti verið einn möguleiki.
Enginn í hinu ytra umhverfi hefur allavega svörin fyrir okkur. Það er bara tíma - og orkusóun að hlusta á endalausan rökstuðning þeirra sem telja sig vita betur. Nú er tími og tækifæri að taka eftir draumunum okkar og leiðsögn sálarinnar. Þegar við höfum fengið upplýsingar sem næra okkur og við finnum í hjartanu að eru sannar þá getur verið gott að umgangast þá sem við samsömum okkur við ef við þurfum á því að halda.
Á þessum tímum er sérstaklega mikilvægt að viðhalda jákvæðni og forðast átök og deilur. Það er gott að halda fast í sýnina um betri, friðsamari heim. Best leiðin til þess er að halda áfram með sitt líf og lifa hvern dag í sátt við okkur sjálf. Það þarf ekki að vera flókið eða kosta mikið - einfaldir hlutir eins og að sinna daglegum verkefnum, hitta ástvini, eða staldra við og hugleiða með kaffibollann, geta fært okkur gleði og frið í hjartað.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|
|