Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Vitundirnar

 

29. desember 2025

Það er margt að gerast í orkunni þessa dagana að við komumst varla hjá því að skynja það. Tilfinningar sem hafa legið djúpt eru að koma upp á yfirborðið og gömul mynstur eru að losna. Margir finna að eitthvað hefur breyst og er enn að breytast, jafnvel þótt erfitt sé að setja það í orð.

Það sem mig langar að fjalla um í þessu bréfi eru upplifanir sem ég og fleiri hafa verið að ganga í gegnum á síðustu mánuðum. Í mínum orkulegu upplifunum hef ég fengið að sjá það í nýju ljósi hvernig ákveðin orka, sem við nærum með huga og tilfinningum, getur orðið að sjálfstæðri vitund í orkukerfunum okkar.

Það er ekki aðeins ein vitund, heldur margar vitundir sem hafa áhrif á og stjórna, því hvernig við bregðumst við ólíkum aðstæðum í lífinu. Hver vitund er nánast eins og persóna sem lifir með okkur. Hún hefur rödd, hún talar stundum innra með okkur og stundum tjáum við okkur í samræmi við þá orku sem hún geymir. Þessar vitundir geta orðið ansi kröftugar og ráðandi.

Ég er ekki að tala um orku sem er okkur utan að komandi, heldur vitundarorku sem við sköpum sjálf á einhverjum tímapunkti í lífinu. Stundum hefur hún eflaust fylgt okkur á milli lífa.

Þessi orka skapast við áfall eða áföll. Það er eitthvað sem gerist sem særir okkur djúpt og við náum ekki að höndla það eða vinna úr því þegar áfallið á sér stað. Oft er það vegna þess að við höfum verið á barnsaldri eða mjög ung og ekki fengið tilfinningalegan stuðning eða áheyrn sem hefði verið nauðsynlegur til þess að vinna úr reynslunni.

Það er þá sem hugurinn fer að skapa einhvers konar vitund eða orku sem verður skjöldur eða staðgengill, verndarkerfi sem bregst við af miklum krafti þegar svipuð áföll koma upp síðar. Innan hverrar vitundar geta verið undirvitundir sem hafa sín sérstöku hlutverk í að verja sárin.

Þegar vitundin verður til bælum við tilfinninguna niður og reynum að þagga niður í óþægindunum. Þá tekur hugurinn yfir, því hann man hvað gerðist og byrjar að endurtaka ákveðna hugsana hringi. Þannig verður ákveðið rof við okkur sjálf, við okkar innri kjarna og við skynjunina á því hvernig áfallið hafði áhrif á líkama og orku.

Í orkunni birtist þetta oft þannig að við verðum dálítið utan við okkur sjálf. Við forðumst eigin líðan með því að lifa í samræmi við væntingar annarra. Þetta er ekki eitthvað sem við þurfum að skammast okkar fyrir, þetta er það sem við sköpuðum til þess að lifa af. En þegar við förum að sjá mynstrið opnast möguleiki á að velja öðruvísi og hætta að næra vitundina.

Undanfarið hef ég orðið meðvituð um það hversu margar vitundir ég hef sjálf skapað í orkunni minni og mig langar að deila því hvernig ég uppgötvaði það. Sú vitund sem hefur haft mest áhrif í mínu lífi er það sem ég kalla fórnarlambsvitund, eða varnarvitund. Hún er sú vitund sem t.d. leitar vorkunnar og forðast ábyrð.

Ég þekki hana mjög vel í mínu lífi, enda nærði ég hana lengi af mikilli samviskusemi, þar til ég fór smám saman að átta mig á því hvernig ég gerði það.

Hægt og rólega fór ég að taka eftir því hvernig fórnarlambsvitundin birtist endurtekið í lífi mínu. Ég fór að fylgjast með hegðun hennar og ákvað að nota hvert tækifæri sem hún tók yfir röddina mín og líðan að fara inn á við og kanna hvað það var sem kveikti á henni. Þar kom margt í ljós. Með aukinni vitund minnkaði krafturinn í henni, vegna þess að ég fór að þekkja innri triggerinn sem virkjaði hana.

Það sem er mikilvægt að vita er að við erum ekki þessar vitundir. Þær eru lifandi orkusamsetningar í orkukerfunum okkar sem reyna að vernda okkur. Sumir kalla þær hliðarvitund, lægra sjálf eða implant. Þetta er ekki einungis hugform eða orka sem fylgir ákveðnum brautum í heilanum, heldur sjálfstæð orkuvera með form, hlutverk og sjálfsmynd sem mótast af sársauka.

Á þessum umbreytingartímum sem við lifum núna hef ég nýtt mér það að vinna markvisst með mín áföll og tekið þátt í ýmiss konar orkuvinnu með fólki sem starfar á svipuðum nótum og ég. Í eitt skipti fór ég í heilun þar sem sérstaklega var unnið með orkuna sjálfa og losun hennar.

Ég lá á meðferðabekk þegar allt í einu losnaði risastórt implant frá mér, líkt og ský sem losnar úr skýjabólstri. Það fór ekki út úr herberginu heldur fór það að dansa í kringum okkur. Að lokum vorum bæði ég og meðferðaraðilinn farin að vinna í því að losa þessa vitund, eða implant út úr rýminu.

Vitundin sem var risastór, hafði komið sér fyrir í einu horni herbergisins. Við reyndum að leiða hana í ljósið og út úr rýminu með ýmsum aðferðum. Þá varð mér ljóst hversu sjálfstætt líf þessi vitund hafði átt, þrátt fyrir að hafa verið hluti af mér svo lengi.

Þegar ég skynjaði hana í horninu var eins og ég gengi inn í hana. Hún var heit, næstum eins og mannvera og þá er ég að tala um orku. Hún virtist sorgmædd og hún vildi ekki sleppa. Það var einhver söknuður í henni yfir því að ég vildi hana ekki lengur. Í minni eigin meðvirkni fann ég jafnvel til vorkunsemi gagnvart henni.

Hún færði sig milli horna í herberginu og við fylgdum henni aftur og aftur, þar til við héldum að hún væri farin. Ég var djúpt snortin yfir þessari reynslu. Hvernig gat orka, sem hafði nýlega losnað frá mér, orðið að sjálfstæðri veru? Að minnsta kosti upplifði ég það þannig. Hún var hvorki ógnandi né vond og ég fann enga ótta, vegna þess að ég vissi að hún hafði svo lengi verið hluti af mér sjálfri.

Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar sem ég áttaði mig á því hvað þetta hafði verið. Þetta var fórnarlambsvitundin sem hafði fylgt mér svo lengi. Ég var hætt að næra hana og þess vegna varð hún að yfirgefa mig og mína orku.

Þetta er ekki eina vitundin sem hefur losnað úr orkunni minni, en hún var sú sem mér varð mest um og varð skýrasta dæmið fyrir mig um hvernig orka er sköpuð og hversu raunveruleg hún getur orðið.

Ég veit líka að ég er ekki ein um að losa svona vitundir það eru mjög margir að þessu í þeirri umbreytingaorku sem nú er í gangi.

Við getum jafnvel litið á það sem leik að losa svona vitundir, sem leið til að uppgötva hversu marglaga við erum í raun. Að sjá og skilja faldar hliðar á okkur sem urðu til í sársauka vegna þess að við þurftum öryggi og vernd sem ekki var hægt að fá á annan hátt. Þegar við skiljum á hvaða grunni þessar vitundir byggja þá missa þær smám saman hlutverk sitt að standa vaktina.

Vitund sem hættir að fá næringu losnar frá í orkunni, ekki með átökum, heldur þegar tíminn er réttur. Í því rými sem myndast fáum við aftur að tengjast okkar innri kjarna, sem er alltaf glaður, lifandi og frjáls.


Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband