Jarðarstjarnan
Jarðarstjarnan er u.þ.b. 30 cm neðan við fæturnar og hún er svört og hvít (Yin og Yang) karl -og kvenorka. Þessi orkustöð tengir okkur beint við jarðarorkuna og þaðan inn í jarðarkjarnann, (hjarta jarðar). Það er í þessari orkustöð sem allir hæfileikar okkar í lífinu liggja eins og fræ í mold þangað til við erum tilbúin að leyfa þeim að spíra og síðan að vaxa og dafna. Í hvert skipti sem við göngum langar göngur úti í náttúrunni og ég tala nú ekki um ef við erum berfætt þá erum við að hjálpa þessari orkustöð að þróast. Ef við tökum ferlið aðeins lengra og erum með vitundina tengda við orkustöðina um leið og við göngum þá erum við að efla orkustöðina enn frekar. Þessi orkustöð tengir okkur ekki bara við jarðarorkuna heldur við allt sem á jörðinni dvelur þar með við dýrin, fuglana, trén, fjöllin, hraunið, grasið, blómin, steinana, ár og læki. Hún tengir okkur líka við blómaálfana, álfana, huldufólkið, fjallatífurnar, blómadífurnar, trjádífurnar og þær náttúruverur sem eru verðir orkulegra staða, eða heilagra orkuhliða jarðarinnar. Náttúruverurnar og hinir heilögu verðir orkuhliðanna eru þakklátir þegar við göngum hljóðlega um og tökum okkur tíma til þess einungis að VERA. Við sem göngum mikið í náttúrunni eða höfum verið í náttúrunni við leik og störf þekkjum svo vel þá tilfinningu þegar við verðum eitt með jörðinni og alls þess sem er í kringum okkur þá stundina. Við finnum að allt í einu er eins og allt breytist og verði miklu skýrara og við verðum full af orku og það er eins og líkaminn verði virkilega LIFANDI og kraftmikill. Það gæti hafa gerst þegar við vorum á göngu upp á fjalli, felli, við á, foss, sjó eða gengum á strönd. Horfðum á sólarlagið, sólarupprásina, eða tunglið og stjörnurnar. Allt í einu er eins og við séum stödd í draumi og ekkert annað skiptir máli en það sem við erum að gera þá stundina. Þögnin verður allsráðandi innra með okkur þrátt fyrir fuglasöng, gutlið í læknum, fossa-eða sjávarnið. Við verðum bara eitt með jörðinni og förum í takt við ritma hennar og andardrátt. Við verðum hluti af vindinum, logninu, regninu, snjókornunum, sólarlaginu, tunglsljósinu, stjörnunum, skýjunum eða einhverju af þessari eilífðar fegurð. Við fyllumst auðmýkt og þakklæti. Blómið í jarðarstjörnunni hefur verið vakið og um leið og það kviknar þá kveikir það ljósið í öllum hinum orkustöðvunum. Þegar við opnum fyrir tenginguna við jarðarstjörnuna þá opnum við líka fyrir orkustöðvarnar sem eru neðan á iljunum og þar með bætum við og styrkjum jarðtenginguna. Orkutengingu okkar til að vera til staðar í líkamanum. Það er erkiengillinn Sandalphon sem er verndari jarðarstjörnunnar þannig að ef við viljum þá getum við kallað á hann og beðið hann að leiðbeina okkur og hjálpa við að þroska og virkja þessa orkustöð. Heimildir úr bókunum "2012 and Beyond" eftir Diana Cooper og "Crystal Healing A Vibrational Journey through The Chakras" eftir Hazel Raven.
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur |
||||||||||||||||||||||