Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

 

 

Blóm, plöntur og tré


Plöntur, blóm, tré og annað sem vex í náttúrunni hafa ákveðna tíðni, lit, lykt og hljóð. Með þessum eiginleikum geta þau hjálpað okkur að umbreyta tilfinningum, hugarástandi og jafnvel líkamlegum einkennum. Blóm og jurtir geta í raun unnið kraftaverk.

Að sitja við hliðina á blómi eða jurt gefur tækifæri til að skynja orku þeirra og tíðnisvið. Þessi orka getur haft áhrif á okkar eigin orku ef við gefum okkur tíma til að skynja hana.

Úti í náttúrunni er hægt að tína blóm þegar það er í blóma og setja það í hreint vatn í glerflösku eða ílát. Tíðni blómsins fer yfir í vatnið, og eftir stuttan tíma er hægt að drekka það og upplifa áhrifin. Það er áhugavert að hugleiða á blómið og fylgjast með eigin upplifun – það getur verið mismunandi milli einstaklinga, og þar er ekkert rétt eða rangt, því innsæið er okkar skýrasti leiðarvísir.

Þótt við sjáum ekki allt í náttúrunni, er gott að muna að í hverju blómi eða jurt eru smáar verur, oftast frekar til að skynja en sjá, þó sumir sjái þær líka.

Mikilvægt er að fara varlega og biðja um leyfi áður en við setjumst niður eða slítum blómið upp. Virðing fyrir náttúrunni tryggir jafnvægi og frið þessara orkuvera. Blómin og blómálfarnir þurfa stundum tíma til að venjast því að vera tekin upp, svo það skiptir máli að virða það ferli. Það er hægt að biðja um leyfi með því að tengjast orkunni, eða fylgja innsæinu sem leiðir okkur að réttum stað í blómahafinu.

Rótum blómsins ætti að hlífa eins vel og hægt er, svo það geti vaxið áfram. Með innsæinu getum við tryggt að við tengjumst þeirri tíðni sem orkan okkar þarf á að halda. Náttúran er gjöful og góð ef við komum fram við hana af virðingu.

Litir blóma hafa einnig áhrif; hver litur býr yfir ákveðinni orku og tíðni, sem getur haft heilandi áhrif.

Við getum tekið á móti orku litanna með augunum, án þess að slíta blómin upp. Með því að virkja ímyndunaraflið getum við leitt tiltekinn lit inn í tilheyrandi orkustöð. Einnig er gagnlegt að nota öndunina á meðan setið er í blómaskrúði og anda litunum inn í orkustöðvar líkamans.

Allt sem hver og einn upplifir er rétt fyrir þann einstakling, og því er innsæið okkar dýrmæti leiðarvísir í þessum æfingum.

Lyktin af blómum hefur einnig mikil áhrif; hún veitir ákveðna vellíðan og fyllir upp í einhvern þátt í okkur sem aðeins blómailmur getur gert. Það er upplífgandi að sitja eða standa við blóm með góða lykt, loka augunum, og fylgjast með því sem gerist í orkunni og líkamanum, og hvaða myndir koma upp í huganum.

Tíðni blóma má einnig skynja með heyrninni, þar sem hvert blóm sendir frá sér ákveðinn hljóm eða óm sem má greina í þögninni.

Náttúran og kraftar hennar veita okkur næringu og vellíðan, og vonandi upplifir hún líka góða nærveru okkar. Við erum orkulegir tengiliðir fyrir náttúruna, og það eru ekki tilviljunarkenndar aðstæður þegar orkustaðir kalla á okkur – þeir bíða eftir okkur og vilja að við fylgjum því kalli.

 

 

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur