![]() |
||||||||||||||||||||||
|
Frá egói til hjartans I
Jeshua miðlað af Pamela Kribbe Vitundarstigs breytingar
Fyrsta stig: Egóið fullnægir ekki lengur. Umskiptin frá egómiðaðri vitund til hjartamiðaðrar vitundar hefjast oft með upplifun af innra tómi. Það sem venjulega hefur fangað alla athygli þína eða aðstæður sem þú varst áður algerlega upptekinn af, skilja þig nú eftir í tómarúmi eða áhugaleysi. Hlutirnir virðast hafa misst sitt venjulega gildi og tilgang. Áður en þetta tóm er upplifað er vitundin föst í greipum ótta og meðfylgjandi þörf fyrir stöðuga staðfestingu á sjálfu sér. Það leitar stöðugt eftir ytri sönnun þess að það sé ekki tilbúin að takast á við undirliggjandi ótta við höfnun og einmanaleika. Þessi djúpi ótti og þörf fyrir ytri sönnun getur hafa verið dulinn lengi sem raunveruleg ástæða fyrir mörgu sem þú gerir. Líf þitt gæti jafnvel allt hafa verið byggt á þessum ótta, án þess að þú værir meðvituð/meðvitaður um það. Kannski hefur þú fundið fyrir óljósu eirðarleysi eða innri spennu. En oft þarf stórar uppákomur, eins og sambandsslit, dauða ástvinar eða atvinnumissi, til þess að þú farir raunverulega að skoða hver orsök óróans og spennunnar er. Þegar egóið ræður ríkjum í lífi þínu, er vitund þín og tilfinningalíf föst í stöðugum hnút. Þú hniprar þig saman í ótta, og í þeirri stöðu átt þú stöðugt undir högg að sækja. Á þessu stigi upplifir þú alltaf skort og þörf fyrir meira. Grunnhugsanir þínar, tilfinningar og gjörðir eru svarthol, tómarúm sem aldrei verður fyllt alveg. Þetta tómarúm er ómeðvitaður ótti, hulinn skuggum, og þú forðast meðvitað að horfast í augu við hann. Í skugganum er tóm sem þú hefur óljósa meðvitund um, en þú vilt ekki fara þangað. Á þessu stigi er samband þitt við Guð eða „allt-sem-er“ litað af tilfinningu um aðskilnað. Djúpt innra með þér finnst þér þú vera ein/n og yfirgefin/n. Þér finnst eins og þú sért brotin/n og tilgangslaust brot í tilgangsleysi. Þar sem þú breiðir yfir óttann við þetta, þá upplifir þú hann óbeint, eins og skugga. Margir eru dauðhræddir við að horfast í augu við innra tómið með fullri vitund. Þeir forðast að mæta sínu innra myrkri af fullum þunga og skoða það. Ef ekki er horfst í augu við það, mun það halda áfram að hafa áhrif, og til að gera lífið bærilegra þróar þú með þér „viðbrögð við langvinnum verkjum.“ Egóið sækist eftir að takast á við vandamálin á jaðrinum, frekar en í kjarnanum. Það reynir að draga úr innri sársauka með því að næra þig með ytri orku, svo sem viðurkenningu, athygli, aðdáun, valdi og þess háttar. Með þessu býr egóið til falska lausn við djúpri þrá sálarinnar eftir einingu, öryggi og ást. Þessi þrá er í sjálfu sér gild og góð; þetta er Guð að kalla á þig. Það er þitt eigið eðli að kalla á þig. Þú ert Guð! Guð er orka einingar, öryggis og ástar. Allir þrá skilyrðislausa ást og að vera umvafinn þeirri orku sem þú kallar Guð. Í raun er þessi löngun, þrá eftir því að vera algerlega meðvituð/meðvitaður og þar með að vera eitt með þínu eigin guðlega sjálfi. Þinn eigin guðdómur er leið þín að skilyrðislausum kærleika. Þú getur einungis fundið hann með því að fara í gegnum óttann og myrkrið sem umlykur hann og það gerir þú með því að snúa inn á við, í stað þess að snúa út á við. Þú gerir það með því að nota vitund þína sem ljós sem rekur skuggana í burtu, vitundin er ljós. Þess vegna þarf hún ekki að berjast við myrkrið; það eitt að hún er til staðar leysir það upp. Þegar þú snýrð vitundinni inn á við, gerast kraftaverk. Egóið, hins vegar stefnir algjörlega í gagnstæða átt. Það mælir þörfina fyrir ást og öryggi og stefnir á að svara henni án þess að horfast í augu við innra myrkur og ótta. Til þess að ná því, beitir það ákveðnu "bragði:" Það umbreytir þörfinni fyrir ást í þörf fyrir samþykki og viðurkenningu frá öðrum. Það umbreytir þörfinni fyrir einingu og jafnvægi í þörfina fyrir að skara frammúr og vera betri en hinir. Þegar þú heldur að það að vera elskuð/elskaður sé um að vera dáð/dáður vegna árangurs þíns, þá þarftu ekki lengur að fara inn á við til að finna ást. Þú þarft bara að vinna meira! Á þennan hátt leitast egóið við að halda lokinu á ótta pönnunni. Þrá þín eftir ást og vellíðan í einingu hefur nú brenglast í löngun til viðurkenningar. Þú ert stöðugt að leita að ytri viðurkenningu sem færir þér tímabundna huggun. Vitund þín er í raun og veru með athyglina á hinni ytri veröld. Þú treystir á skoðun annarra og þú ert mjög viðkvæm/viðkvæmur fyrir því hvað fólki finnst um þig. Þetta er mjög mikilvægt fyrir þig, þar sem sjálfstraust þitt ræðst af því. Í raun sekkur tilfinning þín fyrir sjálfsmati þínu lægra og lægra, þar sem þú ert að gefa vald þitt burtu til utanaðkomandi afla sem dæma þig fyrir þína ytri frammistöðu, ekki fyrir það sem þú raunverulega ert. Á meðan djúpstæð tilfinning um að vera yfirgefin og einmana er ekki upprætt verður það í raun verra, vegna þess að þú vilt ekki horfast í augu við það. Það sem þú vilt ekki sjá verður„skugga hliðin þín.“ Ótti, reiði og neikvæðni geta reikað þarna um og haft áhrif á þig og eflst vegna þess að þú neitar að fara innan á við. Egóið getur verið mjög þrjóskt þegar kemur að því að bæla ákveðnar efasemdir, hugboð og tilfinningar; það mun ekki gefa stjórnina auðveldlega eftir. Það sem þú skynjar sem "illt" í þínum heimi er alltaf afleiðingin af því að halda fast í persónulegt vald. Það er afneitunin að gefa eftir stjórnina og samþykkja innri ótta og myrkur. Fyrsta skrefið í átt að uppljómun er að gefast upp fyrir „því sem er“ – að samþykkja alla þætti tilverunnar inn í ljósið sem er í vitund þinni. Uppljómun þýðir ekki að þú sért að fullu meðvituð/meðvitaður um allt innra með þér, heldur að þú sért tilbúin að takast meðvitað á við alla þætti. Uppljómun jafngildir ást. Ást þýðir að þú samþykkir þig eins og þú ert. Innra myrkrið og tilfinningin sem þið óttist öll í djúpi sálar ykkar um að vera yfirgefin er tímabundin. Þetta egó stig er bara hluti af þróun og útvíkkun vitundar þinnar. Á þessu stigi, er fyrsta stökkið tekið í átt að einstaklingbundinni guðlegri vitund. Fæðing einstaklingsvitundar, fæðing þín sem „aðskilin sál,“ fellur saman við reynsluna af því að vera yfirgefin og aðskilin frá móður eða föður. Þetta er sambærilegt við áfallið sem verður við fæðingu inn í efnisheiminn. Í móðurkviði upplifir barnið flæðandi tilfinningu fyrir einingu við móður. Þegar það fæðist, verður það að einingu í sjálfu sér. Vegna þessa fæðingaráfalls – tölum nú um fæðingu sálarinnar – tekur sálin með sér tilfinningu um að vera rifin út úr; hún þurfti að skilja við allt sem hún tók sem sjálfsögðum hlut. Nýfædda sálin þráir að snúa aftur í hálfvitundarástand einingarinnar sem hún kom frá og telur vera heimili sitt. Þar sem þetta er ekki mögulegt upplifir sálin mikinn ótta og tilfinningu um tómleika og efa. Þessi innri sársauki og ráðaleysi verða smám saman jarðvegur fyrir upptöku mátt egósins. Sálin þarf að takast á við ótta og sársauka, og egóið lofar að finna lausn. Egóið heldur yfirsýn yfir vald og stjórnun á sálarvitundinni. Þar sem sálin upplifir sig valdalausa og týnda gefur hún eftir og leyfir egóinu að stjórna. Egóið er sá hluti sálarinnar sem snýr að efninu og ytri heiminum. Í kjarna sínum er egóið verkfæri sálarinnar til að raunbirta sig sem líkamlega veru innan tíma og rúms. Egóið býður upp á vitund með fókus. Það gerir hana afmarkaða í stað þess að vera flæðandi; „hér og nú“ í staðinn fyrir „út um allt.“ Egóið túlkar innri hvatir í sérstakt efnisform og brúar bilið milli hins óáþreifanlega andlega hluta þíns og líkamlega hluta. Fyrir sálina sem óáþreifanlega andlega veru er það algjörlega óeðlilegt að beina athyglinni að tíma og rúmi. Sálin er í raun óháð öllu efnislegu formi. Þegar þig dreymir að þú sért að fljúga, þá ertu í tengingu við þennan sjálfstæða og frjálsa hluta af þér. Egóið, á hinn bóginn, bindur og heldur í vana. Það gerir þér kleift að virka í líkamlegum veruleika. Sem slíkt gegnir egóið mjög mikilvægu hlutverki sem hvorki er „gott“ né „vont.“ Þegar það vinnur við aðstæður þar sem jafnvægi ríkir, er egóið hlutlaust og ómissandi tól fyrir sálina sem dvelur í líkama á jörðinni. Hins vegar, þegar egóið fer að stjórna sálarvitundinni, í stað þess að þjóna henni sem verkfæri, þá fer sálin úr jafnvægi. Þegar egóið setur sálinni skilmála (sem er aðalsmerki egómiðaðrar vitundar), mun það ekki aðeins túlka innri hvatir í efnislegt form heldur einnig stjórna þeim og bæla þær að eigin vali. Egóið úthlutar þér þá brenglaðri mynd af veruleikanum. Egó í ójafnvægi sækist sífellt eftir valdi og stjórnun og túlkar allar staðreyndir sem jákvæðar eða neikvæðar í því ljósi. Það er mjög lærdómsríkt að afhjúpa þínar eigin hvatir sem byggjast á valdi (power-based) og stjórnun (control-based) í daglegu lífi. Reyndu að taka eftir hversu oft þú vilt sveigja hluti eða fólk að þínum vilja. Hversu oft verður þú gröm/gramur vegna einhvers sem fer ekki eins og þú vilt? Það er mikilvægt að átta sig á því að undir þörfinni fyrir stjórnsemi býr alltaf ótti við að missa stjórn. Spurðu því sjálfa/n þig: Hver er áhættan við að sleppa stjórninni og þörfinni fyrir að vita hið ófyrirsjáanlega? Hver er minn dýpsti ótti? Verðið sem þú greiðir fyrir að halda hlutum „undir stjórn“ er að afstaða þín til lífsins er spennt og heft. Þegar þú þorir að lifa út frá innsæinu og að gera aðeins það sem færir þér gleði, mun þetta skapa eðlilega og sanna reglu í lífi þínu. Þú munt finna þig afslappaða/afslappaðan og hamingjusama/hamingjusaman án þess að þurfa að móta flæði lífsins. Það er að lifa án ótta: að lifa í fullu trausti á því sem lífið mun færa þér. Getur þú gert það? Fyrir unga sál er gryfja egó miðaðrar vitundar næstum óhjákvæmileg. Egóið býður upp á leið út úr vandamálinu sem tengist ótta og aðskilnaði; það dregur athygli þína frá því „sem er hið innra“ til þess „sem þú getur fengið frá umheiminum.“ Þetta er ekki alvöru lausn á vandamálinu, en það virðist vera lausn um tíma. Að beita valdi og stjórnun yfir umhverfinu getur gefið þér tímabundna ánægju eða „kikk.“ Þetta er stutt tilfinningu um að vera elskuð/elskaður, dáð/dáður og virt/virtur. Þetta sefar sársaukann þinn í smá tíma. En þetta varir ekki lengi og þú þarft að leggja þig fram aftur til að standa upp úr, að vera jafnvel enn betri, almennilegri, eða hjálplegri. Hafðu þetta í huga að undir flaggi egósins getur þú bæði verið elskuleg/elskulegur og illgjörn/illgjarn, gjafmild/gjafmildur og móttækileg/móttækilegur, bæði ríkjandi og undirgefin/undirgefinn. Mikið af því sem virðist vera gefið af óeigingirni er ómeðvitað ákall eftir athygli, ást og viðurkenningu frá þeim sem gefur gjöfina. Þegar þú ert alltaf með umhyggju fyrir öðrum og að gefa öðrum, þá ert þú einfaldlega að fela þig fyrir sjálfri/sjálfum þér. Svo til þess að skilja hvað egó yfirráð þýða, þarft þú ekki endilega að hugsa um grimma harðstjóra svo sem Hitler eða Saddam Hussein. Hafðu þetta einfalt; horfðu á sjálfa/n þig í daglega lífinu. Það er hægt að þekkja ítök egó yfirráða á þörfinni fyrir að stjórna hlutum. Dæmi um þetta er að þú vilt að ákveðið fólk hagi sér með ákveðnum hætti. Til að láta þetta gerast sýnir þú ákveðin hegðunarmynstur. Þú ert til dæmis eftirlát/eftirlátur og vingjarnleg/vingjarnlegur og reynir alltaf að komast hjá því að særa tilfinningar annarra. Það er þörf fyrir stjórnun á bak við þessa hegðun. „Vegna þess að ég vil að þú elskir mig, mun ég ekki fara gegn þér.“ Þessi hugsanalína byggist á ótta. Þetta er ótti við að standa á þínu, ótti við að vera hafnað og yfirgefin. Það sem virðist vera vingjarnleiki og almennilegheit eru í raun ákveðin sjálfs-afneitun. Þetta er verk egósins. Á meðan egóið stjórnar sálinni þinni, þarft þú að næra þig með orku annarra til að líða vel. Þú virðist þurfa að verðskulda viðurkenningu frá öðru fólki, frá einhverju yfirvaldi fyrir utan þig. Hins vegar er heimurinn í kringum þig ekki fastur eða stöðugur. Þú getur aldrei treyst á varanlega hollustu á einhverju sem þú reiðir þig á, hvort sem það er maki, yfirmaður eða foreldri. Það er þess vegna sem þú þarft að „vinna“ allan tímann, vera alltaf á varðbergi til að „hluti af samþykki“ komi á þinn hátt. Þetta útskýrir spennu og taugaspennu hugans sem allir eru stöðugt fastir í sem eru á egó stiginu. Egóið getur ekki veitt þér sanna ást og sjálfstraust. Lausnirnar sem það býður upp á til að vinna bug á aðskilnaðar áfalli eru í raun botnlaus pyttur. Hið sanna hlutverk ungrar sálarvitundar er að verða foreldrið sem hún hefur misst. Hafðu í huga að uppbygging jarðlífsins – ferlið sem hefst með því að vera hjálparvana barn og þróast svo yfir í að verða sjálfstæður einstaklingur á fullorðinsárum – býður þér oft tækifæri til að verða þetta foreldri. Hversu oft er lykillinn að alvöru hamingju fólginn í þessu: Að þú verðir þinn eigin faðir og móðir og gefir sjálfri/sjálfum þér þá ást og þann skilning sem þig vantar og þú þráir frá öðrum? Á hærra frumspekistigi, sem við höfum rætt, þýðir þetta að öðlast þann skilning að þú ert Guð – ekki einn af litlu týndu sauðunum hans. Þetta er skilningurinn sem mun leiða þig heim. Þetta er skilningurinn sem mun færa þig í hjartað sem þú ert sem er ást og guðlegur máttur. Endalok egóstigsins eru í augsýn þegar sálin áttar sig á að hún er föst í sífelldri hringrás sömu hugsana og gjörða. Egóið missir tak sitt þegar sálin verður þreytt og leið á endalausri baráttu fyrir hverfulum fjársjóði. Hana fer að gruna að loforðin sem leikurinn byggir á sé blekking – að það sé í raun ekkert þar fyrir hana að vinna. Þegar sálin verður þreytt á að reyna stöðugt að vera „ofan á,“ slakar egóið á stjórnuninni. Þegar minni orka fer í að stjórna hugsunum og hegðun opnast orkulegt rými fyrir nýja og annars konar reynslu. Á þessu stigi, getur þú upplifað mikla þreytu og innri tómleika. Hlutir sem áður virtust mikilvægir verða nú tilgangslausir. Ótti getur einnig komið upp á yfirborðið, oft án skýringa eða áberandi orsaka. Þetta gæti verið óljós ótti við dauðann eða missi ástvina. Einnig gæti þú fundið fyrir reiði í tengslum við starfið þitt eða hjónaband. Þú ferð að efast um allt sem áður var sjálfgefið. Það sem egómiðaða vitundin reyndi að forðast gerist að lokum. Hins vegar, þegar vitundin þín vex og víkkar, kemur fram klofningur í persónuleika þínum. Annar hlutinn vill halda í gamlar leiðir, á meðan hinn hlutinn efast um þær og horfist í augu við óþægilegar tilfinningar eins og reiði, ótta og efa. Vitundarvíkkunin, sem á sér stað í lok egóstigsins, er oft upplifuð sem gleðispillir – óvelkomin boðflenna sem spillir gleði leiksins. Þessi nýja vitund kemur öllu úr jafnvægi sem áður virtist augljóst og vekur tilfinningar innra með þér sem þú veist ekki hvernig á að takast á við. Þegar þú byrjar að efast um egómiðuð mynstur hugsana og athafna birtist gjörólík hlið af þér í vitundinni. Þetta er hluti af þér sem elskar sannleikann fremur en vald. Að lifa í samræmi við fyrirmæli egósins er mjög þvingandi. Þá ertu að þjóna litlum, óttaslegnum einræðisherra sem keppist við að ná völdum og stjórnun, ekki aðeins yfir umhverfi þínu heldur sérstaklega yfir þér. Hið óvænta flæði tilfinninga og innsæis er haldið í skefjum af þessum einræðisherra. Egóinu líkar ekki hið óvænta. Það heldur aftur af þér við að tjá tilfinningar þínar frjálslega, þar sem líðan og tilfinningum er ekki hægt að stjórna og þær því óútreiknanlegar. Af þeim sökum lítur egóið á þær sem hættulegar. Egóið vinnur með grímur. Ef egóið gefur þér fyrirmæli á borð við: „Vertu elskuleg/elskulegur og tillitssöm/tillitssamur til að vinna samúð fólks,“ þá mun það hvetja þig til að bæla tilfinningar eins og vanþóknun og reiði. Ef þú byrjar að efast um hagkvæmni slíkra fyrirmæla, munu þessar bældu tilfinningar koma upp á yfirborðið á augabragði. Tilfinningum er ekki eytt með því að bæla þær – þær lifa áfram og öðlast kraft því lengur sem þær eru bældar. Þegar sálin upplifir tómleika og efa, sem eru svo einkennandi fyrir lok egóstigsins, verður mögulegt að mæta og takast á við alla þá líðan og tilfinningar sem áður voru faldar í myrkrinu. Þessar innilokuðu tilfinningar eru inngangshliðið að æðra sjálfi þínu. Þú endurheimtir frumkvæði og heiðarleika – þann hluta sem oft er kallaður „innra barnið“ – með því að kanna aðra staði en þá sem ætlast hefur verið til af þér. Þegar þú kemst í samband við þína sönnu líðan og tilfinningar hefurðu lagt grunninn að raunverulegu frelsi. Hjartamiðuð vitund hefur þá opnast.
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband |
|||||||||||||||||||||