Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Kristallar og steinar

 

9. júní 2009

Kristallar hafa jákvæð áhrif á orkuna í umhverfinu eða hjá þeim sem hafa þá í návist sinni. Sumir hafa steina og kristalla til þess að fá inn ákveðna orku á heimilið eða vinnustaðinn, en aðrir nota þá markvisst til þess að vinna út ákveðna orku við heilun. Í heiluninni hraða þeir orkuhreinsuninni, en þeirri hröðun má líkja við það að horfa á ský sem fara um á ógnar hraða í himinhvolfinu eða eins og ský sem liðast um hægt og rólega þ.e.a.s. sá hraði sem er á orkulosuninni þegar steina og/eða kristalla nýtur ekki við.

Steinar hafa mismunandi orku og vinna á mismunandi hátt, þar gildir nokkurn vegin um liti steinanna að þeir passa fyrir þær orkustöðvar sem hafa samskonar lit og þeir sjálfir. Þá er það bleikir og grænir fyrir hjartastöðina, bláir fyrir hálsstöðina, gulir fyrir sólarplexus og appelsínugulir fyrir magastöðina o.s.frv. Stundum þarf að nota fleiri en einn og fleiri en tvo steina til þess að sem bestur árangur náist, samspil kristalla og steina hefur líka mikið að segja. Það geta allir fundið út með innsæinu hvaða steinar það eru sem henta hverju sinni við þá vinnu sem verið er að gera.

Steina og jurtaríkið hafa hvort um sig hlutverk í því að hjálpa okkur á lífsgöngunni. Þeir gefa ákveðna orku og losa um ákveðna orku.

Stundum er eins og sumir steinar dragist að ákveðinni manneskju um leið og hún lítur þá augum. Þeir bókstaflega kalla á hana með sínum hætti, það verður eins og tenging eða ást við fyrstu sýn.

Ég ráðlegg öllum sem eignast steina eða kristalla að byrja á því að hreinsa þá, hvort sem þeir eru keyptir í verslunum en annars staðar. Jafnvel þó að ykkur hafi verið sagt að það sé búið að sérmeðhöndla steinana eða kristallana þá er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að hreinsa þá. Þið getið sett flesta kristalla og steina undir vatnsbunu í smá tíma og setja þá svo út í sól, eða láta þá liggja í saltvatni eða sjó í smá tíma.Það eru þó ekki allir steinar sem þola vatn, t.d. þolir selenít ekki að fara í vatn því þá eyðist hann upp eins og ís það sama gildir um saltkristallana sem eru mikið notaðir í kertastjaka og lampa.

Það er reyndar talað um að það þurfi ekki að hreinsa selenítinn vegna þess að hann safni ekki í sig orku. Það eru fleiri steinar sem má ekki setja undir vatn en þeir eru flestir svipað útlítandi og selenítinn það er að segja þeir eru oft hrufóttir og sjá má á þeim að þeir þola ekki vatn.

Það er sérstaklega mikilvægt að hreinsa reykvarsinn vel vegna þess að í flestum tilvikum hefur hann hlotið ákveðna meðhöndlun til þess að fá það útlit sem hann hefur. Það er jafnvel gott að láta hann standa utandyra í um það bil ár áður en hann er tekin inn í hús.

Það er hægt að hreinsa steina á marga vegu, sumir láta þá t.d. liggja í salti í ákveðin tíma, ef þið hafið aðgang að góðri fjöru þá er hægt að láta þá liggja í sjónum í sólarhring eða meira, þeir hafa mjög gott af sjóbaðinu. Þá er gott að láta þá liggja á kafi í snjó, en snjórinn er mjög hreinsandi og eins er hægt að láta þá standa úti í frosti.

Steina má líka hreinsa með hugarorkunni, þá er hugsað um að steinninn hreinsist af allri þeirri orku sem í honum situr og tilheyrir honum ekki. Þegar því er lokið má hugsa sér að hlaða hann aftur annað hvort með heilandi orku sem er dregin inn í gegnum höfuðstöðina eða að láta hann standa úti við tungl - eða sólarljós í ákveðin tíma.

Ekki láta það eftir liggja að hreinsa steinana af orku annarra, oftar en ekki hafa steinar og kristallar verið meðhöndlaðir, notaðir, eða forritaðir til ákveðinna hluta. Við getum ekki vitað hver forsaga þeirra er, þar sem þeir geta hafa verið meðhöndlaðir af mörgum áður en þeir komast í okkar hendur. Þegar hreinsuninni er lokið getið þið farið að tengjast steininum með því að setja hann undir koddann ykkar á nóttunni, halda á honum í hendinni, ganga með hann í vasanum, eða hafa hann í umhverfinu. Það er hægt að staðsetja steina undir stól, bekk eða rúmi.

Það er skemmtilegt að reyna að finna það út með innri skynjun hvað það er sem steinninn gerir fyrir ykkur, en með því að halda á honum í lófanum eða finna fyrir honum í umhverfinu þá getið þið fundið hvaða áhrif hann hefur. Þið þurfið ekki endilega að lesa um það í bók, eða á netinu hvernig hann virkar vegna þess að því þið vitið best hvernig hann vinnur og virkar fyrir ykkur. Steininn eða kristallinn getur gert allt aðra hluti fyrir ykkur heldur en einhverja aðra. Þið eruð einstök og skynjið hlutina hvert á sinn hátt. Sumt skynjið þið eflaust á sama hátt og aðrir en þið munið alltaf finna eitthvað sem enginn annar hefur fundið fyrir. Orkan í steininum mun leiða ykkur í gegnum þessa uppgötvun.

Ekki efast um það sem þið sjáið eða skynjið sé rétt. Treystið því að það sem þið upplifið sé á þann hátt sem það er, það eru alltof margir sem efast um það sem þeir sjá og skynja og loka þannig á innsæið sitt. Það hafa allir þennan hæfileika, innsæið er eitt af því sem allir hafa og geta nýtt sér ALLTAF.

Hver og einn er meðvitaður um sína eigin innri rödd sem leiðbeinir á svo marga vegu.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur