Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Umskipti sálar I

 

Þar sem plánetan okkar gengur nú í gegnum miklar breytingar og margar sálir hafa meðvitað ákveðið að ljúka lífsleið sinni á þessum tímamótum, munu margir standa frammi fyrir því að missa einn eða fleiri ástvini. Þetta eru sálir sem hafa valið aðrar leiðir en við sjálf í sínum þroska. Það er því mikilvægt að líta á sálarumskiptin, sem við köllum „dauða,“ út frá nýju sjónarhorni. Sálir okkar eru eilífar, og við munum ávallt endurfæðast saman og hitta ástvini okkar aftur.

Við vitum öll að það er ekkert til sem heitir “dauði." Í raun er hann umbreyting – flutningur sálar úr líkamlegri tilveru í annað ástand. Fyrir sálina er þetta alltaf gleðileg stund, tími frelsis og endurfunda við aðra þætti hennar. Þetta er upphaf nýs kafla, ekki harmleikur. Þegar við skiljum þetta til fulls, leyfum við okkur að ganga í gegnum sorgarferlið – því það er okkar leið til að heiðra þá sem hafa farið. En við vorkennum þeim aldrei. Þess í stað verðum við sátt við ákvörðun þeirra og þökkum þeim fyrir þann tíma og kærleika sem við deildum saman í þessari lífsreynslu. Við blessum þá á nýrri vegferð með þá vissu í hjarta að aðskilnaður okkar er aðeins blekking hugans bundin við þriðju víddina. Við vitum, án efa, að við getum fundið þá og verið með þeim aftur á innri sviðum, því tengsl okkar við ástvini eru eilíf.

Þeir sem upplifa djúpa ást í lífinu, hvort sem það eru vinir eða fjölskylda, hafa yfirleitt þekkst og elskað hvort annað um aldir, endurfæðst saman og deilt lífsreynslum aftur og aftur. Líkamlegur missir er því hluti af síendurteknu ferðalagi sálarinnar, þar sem við finnum hvort annað að nýju, líf eftir líf.

Þó svo að dauði virðist stundum eiga sér stað við hörmulegar aðstæður – slys, glæpi, stríð eða náttúruhamfarir – þá er hver umbreyting skipulögð af sálinni sjálfri á öðrum tilverustigum. Þessar ákvarðanir eru teknar með hliðsjón af þroskaferli sálarinnar, jafnvægi á karma, eða öðrum tilgangi sem sál hefur valið af frjálsum vilja. Fyrir sálina er oft mikil tilhlökkun þegar umbreytingin nálgast. Hún gleðst yfir nýjum tækifærum og ævintýrum í hinu stóra ferðalagi sem við köllum „líf.“

Hér er saga af konu sem ég þekki sem upplifði óbærilega sorg þegar hún missti einkason sinn í bílslysi. Henni fannst hún algerlega brotin og átti erfitt með að ná tilfinningalegu jafnvægi að nýju. Hún gat ekki fundið leið til að takast á við sorgina og reiðina sem fylgdi þessum skelfilega atburði. Að lokum leitaði hún til mín og bað mig um að miðla Adama til að fá svör. Hún vildi skilja hvers vegna svona mikill harmleikur hafði dunið yfir hana. Hún sá atburðina sem mikið óréttlæti og vildi ásaka þann sem henni fannst bera ábyrgð á dauða sonar síns.

Þegar ég miðlaði Adama til hennar, kom svar hans til hennar eins og ljósglæta í myrkri. Orð hans veittu henni mikinn létti og heilun í hjartað. Á meðan hann talaði, var hún fær um að losa sig við stóran hluta af sársaukanum og sorginni sem hafði haldið henni fanginni. Hún fann frið og ró í þeirri vitneskju að sonur hennar var á lífi, þó ekki í þessari veröld, og að hann hafði það gott „hinu megin við blæjuna.“ Hún áttaði sig á því að hann elskaði hana meira en nokkru sinni fyrr og var að feta þá leið sem sál hans hafði sjálf valið.

„Það er mikilvægt fyrir okkur öll að öðlast dýpri skilning á þessu umbreytingarferli sem við köllum „dauðann“. Fyrr eða síðar munu flest okkar standa frammi fyrir svipuðum aðstæðum, hvort sem það er í okkar eigin lífi eða í lífi einhvers nákomins. Þeir sem tileinka sér þennan skilning í hjarta og sál munu finna styrk til að hugga sjálfa sig þegar slíkum aðstæðum er mætt. Þeir verða einnig betur í stakk búnir til að veita öðrum huggun og stuðning sem hafa ekki ennþá meðtekið fegurðina og friðinn sem fylgir upplýstri sýn á þessi líkamlegu umskipti.“

Aurelia Louise Jones

Framhald...........

Bókin Telos, sem þessi texti er tekinn úr, er miðluð og byggir á skilaboðum frá andlegri veru að nafni Adama, sem kemur fram í gegnum höfundinn Aureliu Louise Jones. Ég finn þörf hjá mér til að koma þessum boðskap áfram til ykkar, lesendur góðir, þar sem þetta er ein besta útskýring sem ég hef fengið á þeim umskiptum sem við köllum „skyndidauða“ – hvort sem hann verður vegna slyss, ofbeldis, stríðs eða náttúruhamfara.

Tilgangurinn með þessu bréfi er alls ekki að vekja ótta hjá fólki, heldur að hjálpa til við að skilja að dauðinn er í raun umbreyting úr einu formi í annað. Sálin er eilíf, eins og Adama útskýrir á áhrifaríkan hátt í kafla bókarinnar sem fjallar um þetta efni. Bókin var fyrst gefin út árið 2004, og margt af því sem þar er rætt um hefur verið að gerast undanfarin ár og er enn í gangi.

Við sem höfum fylgst með breytingunum í heiminum höfum tekið eftir því að óvenju margir hafa kosið að yfirgefa jarðlífið á síðustu árum – og enn í dag. Aðilar sem miðla upplýsingum til mannkyns tengja þessa þróun við þær miklu umbreytingar sem jörðin gengur nú í gegnum. Sumir kjósa ekki að taka þátt í þessu ferli og velja því, á sálargrundvelli, að yfirgefa jarðlífið áður en frekari breytingar verða. Þennan vilja hverrar sálar ber okkur að virða.

Það er einlægt von mín að þessi skilaboð veiti ykkur innsýn, hugarró og von um að dauðinn sé ekki endalok, heldur hluti af stærra ferli sem sálin gengur í gegnum.

 

JÞG.

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir netpóstur